Wednesday 23 October 2019

Sænskur heimilismatur par excellans: Kjötbollur með flauelsmjúkri kartöflumús, einfaldri brúnni sósu og súrum gúrkum


Það er orðið ansi langt síðan að ég gerði sænskar kjötbollur. Og þær hef ég gert margoft. Var að gá að því á blogginu mínu - hvort að ég hefði gert grein fyrir þeim áður og mér til mikillar undrunar hafði ég aldrei deilt uppskrift á ekta sænskum kjötbollum. Og það er ekki vegna þess að áhugann skorti - ég hef deilt með lesendum þessarar síðu fjöldanum öllum af uppskriftum, hægt er að sjá nokkrar þeirra hérna

Og þetta er eins hefðbundin uppskrift og hugsast getur. Hún er einföld - en aðalatriðið að hún er ljúffeng. 

Sænskur heimilismatur par excellans: Kjötbollur með flauelsmjúkri kartöflumús, einfaldri brúnni sósu og súrum gúrkum

Fyrir kjötbollurnar - fyrir fimm svanga

700 g svínahakk
300 g nautahakk 
1 hvítur laukur
1/2 allrahanda
2 egg
6 msk brauðmylsna
120 ml rjómi
salt og pipar

Fyrir kartöflumúsina

1 kg kartöflur
100 g smjör 
100 ml rjómi
100 ml mjóllk
 salt og pipar

Fyrir sósuna

400 ml nauta eða kálfasoð
150 ml rjómi
2 msk dökkt maizenamjöl
50 g smjör
3 msk soya sósa
salt og pipar



Ég keypti stórar kartöflur, lagði þær á beð af salti og bakaði við 200 gráðu hita í sex korter.


Við þá meðferð urðu þær vel brúnar að utan og lungamjúkar að innan. Skóf þær út með skeið og setti í skál og blandaði saman við rjóma, mjólk, smjör og svo salti og pipar. Úr varð flauelsmjúk kartöflumús. Nauðaeinföld.


Svo var að huga að kjötinu - en ég gerði það auðvitað á meðan kartöflurnar voru í ofninum. Lagði grísahakk og nautahakk í skál og setti mjög smátt skorinn hvítann lauk saman við.


Næst egg - sem ég þeytti aðeins upp áður en þeim var bætt saman við.


Þá brauðmylsnan. Sumir segja að maður eigi að láta hana liggja í rjómanum áður en mylsnunni er bætt saman við - en ég gleymdi því skrefi. En það virtist ekki koma að sök.


Svo rjómi - allt verður betra með rjóma.


Svo er bara að hræra deigið saman og láta það standa í 15 mínútur áður en maður hnoðar í bollur.


Ég tók matskeið af kjötdeiginu og rúllaði í höndunum. Ég gætti þess að smyrja hendurnar vel með olíu áður þannig að deigið myndi síður klístrast við mig.


Svo var bara að kynda undir steikarpönnunni á nýju eldavélinni og byrja að steikja.


Ég er ennþá að læra á hitann á pönnunni þannig að það verður að játast að ég brenndi nokkrar bollurnar - en það kom ekki að sök, þær voru ljúffengar engu að síður.


Þegar ég var búinn að steikja bollurnar að utan skellti ég þeim inn í heitan ofn í 10 mínútur eða svo til að elda þær alveg í gegn.


Með matnum vorum við með Ramon Bilbao Crianza frá 2016 sem er spænskt Rioja vín. Ég hef heimsótt þennan framleiðenda. Vorum í heimsókn hjá honum fyrir rúmu ári og gerðum grein fyrir þeirri heimsókn í sjónvarpsþættinum - Læknirinn í Eldhúsinu, Ferðalag bragðlaukanna. Þetta er milt og bragðgott vín - í góðu jafnvægi. Þetta vín passar með mörgum mat og ekki síst bollum eins og þessum.


Sósan var ofureinföld. Hitaði soðið og sauð það niður um þriðjung til að þétta bragðið. Bætti svo við rjóma og sauð upp - sauð svo niður um þriðjung áður en ég bætti dökku maizena mjöli saman við og soya sósu, salti og pipar. Setti smá smjör í lokin til að fá fallegan gljáa á sósuna.  



Þetta var alger veislumáltíð á þriðjudegi. Það þarf ekki að vera flókið að lyfta sér upp á virkum degi!

Bon appetit!

------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

No comments:

Post a Comment