Friday 30 September 2011

Ljómandi grilluð túnfiskssteik með piparrótarsósu, aspas oggrænbaunamauki

afmælisbarniðogdóttirinn

Snædís, mín heittelskaða eiginkona, átti nýverið afmæli og í tilefni eldaði ég þessa prýðisgóðu máltíð. Það var nú þannig að afmælið hennar lenti á mánudegi og þá stóð nú til að gera grænmetismáltið en þar sem var nú tækifæri til að lyfta sér upp ákvað hún að túnfiskssteikur væru góð málamiðlun. Við keyptum þessar túnfisksteikur af einum af fiskbílunum sem kemur hérna í vitjun á tveggja mánaða fresti. Allur fiskur frá þeim er auðvitað fokdýr en þessar túnfisksteikur voru á tilboðsverði. Undrist einhver þá var þetta ekki "blue fin tuna" heldur frændi þeirra sem ku ekki vera í neinslags útrýmingarhættu.

Það er langt síðan að ég eldaði túnfisksteik seinast - sveimérþá - held bara að það hafi verið áður en ég byrjaði að blogga. Einhvern tíma hef ég pantað mér túnfisk á veitingastað og svo hefur maður auðvitað fengið túnfisk þegar maður hefur pantað sushi á veitingastöðum. En það hefur verið einhver tregða að kaupa þetta út í búð. Þegar maður sér túnfisksteikur hjá fisksölum eru þær alltaf eitthvað svo brúnleitar og þunglyndislegar - það eru skorður á því hér að selja "blue fin" túnfisk sem er miklu fallegri (og sennilega þess vegna að hann sé í útrýmingarhættu). Fróðari aðilar verða að segja mér hvernig það er með bragðið þar sem það er svo langt síðan að ég fékk mér túnfisk að ég er búinn að gleyma bragðinu og get því ekki gert samanburð.

Annars bið ég lesendur að taka eftir því að á síðuna er komið efnisyfirlit. Þeir sem eru að lesa á moggablogginu geta séð ofarlega í vinstri síðueiningunni er hlekkur yfir á efnisyfirlit sem er vistað hjá Eyjunni. Þeir sem eru að skoða á Eyjunni geta litið upp yfir síðuhausinn, við hliðina á flipanum sem stendur forsíða. Það vantar bara herslumuninn að klára þessa vinnu og geri ég fastlega ráð fyrir því að allt verði klárt núna um helgina! Þá má einnig sjá hlekk á matreiðslubókasafn mitt hafi einhver áhuga á því að skoða hvaða bækur hafa hafnað á mínum hillum og veita mér daglegan innblástur. Núna seinast var ég að eignast nýjustu bók Hugh Fearnley Whittingstall - Veg, einnig fékk ég bækurnar Whispers from a Lebanese Kitchen, A month in Marrakesh og svo Cooking by the Fireside - Food from the Alps.

Það var áhugavert að gera þessa lista - sjá hversu miklu maður hefur áorkað í eldhúsinu og það er tvennt sem mér finnst standa upp úr. Það fyrsta er hversu ljósmyndunin hefur batnað og svo í öðru lagi skrúðmælgi hafa engin takmörk þegar ég vel titla á færslurnar - svona er það bara! Hvar endar þetta?

MEGA TÚRBÓ SVAKA ... Ljómandi grilluð túnfiskssteik með piparrótarsósu, aspas og grænbaunamauki

Sósa

2 dl creme fraiche
2 hvítlauksrif
4-5 cm piparrót
1 msk síróp
Salt og pipar

Túnfiskur
Salt og pipar
1 msk jómfrúarolía
Búnt aspas

Grænbaunamauk

500 gr frosnar grænar baunir
1 msk rjómaostur
Smjörklípa
Salti og pipar


Fyrst var að huga að því að gera sósuna. Þetta var köld sósa gerð út léttu creme fraiche, notaði eina litla dós sem ég held að sé um 2 dl. Við þetta blandaði ég 2 maukuðum hvítlauksrifjum, 4-5 cm af hakkaðri ferskri piparrót, 1 msk af sírópi og svo auðvitað salt og pipar. Blandað vel saman og látið standa inn í ísskáp þangað til að maturinn er borinn fram.

aspas

Þetta er í raun afar snör eldamennska. Það þurfti lítið annað að gera en að hita grillið. Á meðan að það hitnaði, penslaði ég túnfisksteikurnar með olíu, saltaði og pipraði.

túnfiskur

Þegar grillið var orðið funheitt var lítið annað að gera en að snara aspasnum á grillið, hann hafði auðvitað hlotið sömu meðferð og túnfiskurinn, olía, salt og pipar. Túnfiskurinn og aspasinn tók nærri því jafnlangan tíma - Þó setti ég aspasinn á 2 mínútum fyrr. Túnfiskurinn þarf ekki nema 1-2 mínútur á hvorri hlið. Hann á ekki að elda alveg í gegn - hann á að halda lit sínum í miðjunni.

grilluð túnfiskssteik-1

montes alpha

Ég hef oft bloggað um græn baunapurée. Þetta er eitt af uppáhalds meðlætum Snædísar þannig að auðvitað var þetta á borðum. Það er líka ánægjulegt hvað þetta er einfalt. Maður sýður vatn í potti, saltar vel vatnið, og skellir síðan skálarfylli af frosnum grænum baunum og sýður í 4-5 mínútur. Þegar baunirnar eru tilbúnar er vatninu hellt frá og baunirnar síðan maukaðar með matskeið af rjómaosti, smjörklípu og svo salti og pipar. Smakkað til - þetta er alltaf stórgott.

Þar sem um hátíðarkvöldverð var um að ræða var auðvitað togaður tappi úr hvítvínsflösku. Að þessu sinni völdum við Montes Alpha Chardonnay sem er líka eitt af okkar uppáhalds hvítvínum. Þessi flaska hefur oft áður verið á okkar borðum og ekki að ástæðulausu. Þetta er kraftmikið hvítvín. Ilmar af ávöxtum, sítrónu. Smjörkennt á bragðið með eikuðu eftirbragði.

Engin varð svikinn.

matur

Bon appetit.

No comments:

Post a Comment