Thursday 30 December 2010

Taílensk innblásin fiskisúpa að hætti pabbalabba! Smá "hollusta" ámilli jóla og nýárs

hrímaðtré1

Þeir sem hafa verið að lesa bloggið mitt seinustu daga sjá að á boðstólnum hefur ekki verið neitt sérstakt megrunarfæði - fyrir utan auðvitað smúðí-inn sem var í bláendann á seinustu færslu. Svoleiðis höfum við reyndar verið að fá okkur á morgnanna. Og við höfum verið dugleg við að fara í gönguferðir, fara í ræktina, skvass og svoleiðis - Það er full vinna að berjast við þetta áhugamál, sem eldamennskan er! Það var því þörf að hreinsa líkamann og það með góðri fiskisúpu. Og súpa er aldrei betri en á köldum dögum. Og hér er engin skortur á þeim. Þessar myndir voru teknar í morgun.

af götunni

Við höfum seinasta árið keypt frosinn fisk í gegnum ólíka söluaðila; Fiskbilen, Ishavsexpressen og seinast Hemdeli. Þeir koma á nokkurra vikna fresti og selja talsvert magn í senn og þannig fyllist frystirinn af hinum ýmsu fisktegundum, þorski auðvitað, steinbít, rauðsprettu, skelfiski af ýmsum tegundum. Síðan átti ég meira að segja aborra sem ég veiddi í haust í Danmörku. Það varð því að hreinsa til og þá er kjörið að gera fiskisúpu. Faðir minn er mikill áhugamaður um fiskisúpu og ég viðurkenni að það sem til varð er að nokkru byggt á hugmyndum frá honum!

Annars hef ég síðustu vikurnar verið mikið að lesa um matreiðslu fisks og þar hafa Íslendingar það betur en flestir - ókei ... margt er skítt á Fróni - en fiskurinn sem okkur býðst er í algerum heimsklassa. Ferskleikinn og gæðin á hráefninu er skör (mörgum skörum) ofar en það sem manni er boðið upp á hérna. Ég fékk samtal um mitt ár 2009 frá manni sem var að dreyma um að flytja ferskan íslenskan fisk með DHL til ólíkra staða í Evrópu. Ég vona að honum gangi vel með verkefnið sitt. Ég verð fyrstur til að prófa. Annars er hægt að nálgast íslenskan fisk - frosinn hérna á Skáni. Bæði Grimsis.se og islandsfisk.se selja fisk en þeir koma miklu sjaldnar en Svenson.

Ég notaði flesta fiskafganga sem ég fann; þorskhnakka, aborrann, steinbítsbita, rækjur og síðan risakrækling. Aborrinn var í næstum heilu lagi (búið að fjarlægja innyflin) og því varð ég að gera að honum. Það var alveg ágætt - bæði fyrir æfinguna og líka að þá átti ég bein og haus í fiskisoð. Og eins og ég hef sagt oft og mörgum sinnum (og ekki bara ég!) - soðið skiptir öllu þegar gera á góðan mat.

Taílensk innblásin fiskisúpa að hætti pabbalabba! Smá "hollusta" á milli jóla og nýárs


fiskisúpa

Fyrst var að útbúa soðið. Að gera fisksoð er auðveldara en að gera kjötsoð vegna þess að eldunartíminn er miklu styttri og fisksoðið verður ekki betra af því að elda það lengur. 20-30 mínútur er feikinóg. Að öðru leyti eru prinsippin þau sömu og við gerð kjötsoðs. Fyrst að hita olíu í potti, steikja niðurskornar gulrætur, sellerí, lauk, hvítlauk, fennel ef hann er til, í raun hvaða grænmeti sem er. Síðan er bara að setja vatn, salt, piparkorn, kannski lárviðarlauf. Síðan beinagrindina af fiskinum og hausinn ef hann er til taks. Sjóða af krafti í stuttan tíma og síðan sía.

Í bók Rúnars Marvinssonar - Náttúran sér um sína - segir höfundur að maður eigi að fjarlægja tálknin en hvorki Rick Stein í bókinni Seafood eða Auguste Escoffier í sinni bók nefna neitt slíkt. Þannig að ég var ekkert að hafa fyrir því að fjarlægja þau. En það væri gaman að heyra hvort að fróðir hafa einhverja skoðun á því og myndu deila því hérna með sér á síðunni.

Fyrst var að steikja 4-5 hvítlauksrif, 5-6 cm af ferskum engifer og heilan skarlottulauk í potti og bæta síðan 2 þunnt skornum sellerístöngum saman við og kannski einni niðurskorinni gulrót. Setti síðan kúfaða teskeið af túrmeriki, sterkri papríku og síðan teskeið af muldu kóríander og síðan hnífsodd af chilli. Mikilvægt er að steikja kryddið um stund í pottinum til að vekja það aðeins (losa um olíurnar sem eru bundnar í kryddinum). Salta og pipra. Síðan var að sía fiskisoðið yfir grænmetið í pottinum og láta suðuna koma upp. Síðan var tveimur dósum af kókósmjólk bætt útí - soðið upp aftur og síðan soðið aðeins niður. Súpan þykktist lítillega við suðuna. Saltað og piprað. Súpan fékk að sjóða í klukkustund í rólegheitunum.

Fiskurinn er skorin í munnbitsstórabita. Skelfiskurinn er hreinsaður. Fisknum er síðan bara bætt í um það bil sem verið er að færa pottinn fram á borð. Hann eldast á nokkrum mínútum. Síðan er ekkert að gera en að sáldra smávegis af fersku kóríander og steinselju yfir.

Með matnum var ég með heimagerðar baguettur. Kannski fjórir bollar af hveiti, kúfuð teskeið af salti. 25 gr af geri er vakið í 400-500 ml af ylvolgu vatni ásamt 2-3 skeiðum af sykri. Leyft að vakna í nokkrar mínútur. Það freyðir ríkulega. Blandað saman rólega. Ekki er víst að það þurfi að nota allt vatnið. Hnoðað í nokkrar mínútur. Látið hefast í klukkustund. Síðan deilt í nokkra bita. Rúllað

út í ferninga og síðan upp í langa pylsu. Látið hefast aftur í klukkustund. Bakað í 15-20 mínútur. Kippt út í miðjum bakstri og sprautað með vatni til að fá fallega brúna skorpu.

Með matnum drukkum við þetta fyrirtaks hvítvín sem mér þykir ári gott. Ég hef eiginlega ekki bragðað slæmt vín frá þessum framleiðenda. Peter Lehmann er einn af þekktustu víngerðarmönnum Ástrala og hefur verið að gera vín síðan 1947. Fyrst vann hann fyrir önnur fyrirtæki og síðan 1980 hefur hann framleitt vín undir eigin nafni. Ég er eiginlega búinn að drekka mig í gegnum alla línuna frá honum. Allt frá Wildcard upp í Mentor. Í þetta sinn vorum við með Chardonnay vín frá því 2008. Þetta er gott vín - að mér finnst. Þetta er kraftmikið hvítvín. Fallega gult í glasi með góðri fyllingu - og eins og góð Chardonnay eiga að vera - smjörkennt, eikað með góðu sítrusbragði.

Bon appetit!

Þá vil ég þakka lesendum fyrir árið sem er að líða og óska öllum nær og fjær gleðilegs nýs árs!

Gleðilegt ár

No comments:

Post a Comment