Wednesday 8 December 2010

Kraftmikil rjúkandi kjúklingasúpa á köldu desemberkvöldi

Þetta er frábær máltíð fyrir kalt og drungalegt vetrarkvöld. Maður þarf helst að vera aðeins kvefaður og pínulítið blautur í fæturna eftir að hafa gengið heim úr vinnunni og þá nýtur maður hennar sem best. Þetta er ekki íburðarmikill matur, engin glamúr og ekkert glys. Bara einfaldur soðin heimilismatur - og stundum er hann bestur.

Talandi um soðinn mat - þá verður að segjast að einn besti soðni réttur sem völ er á er soðna lambakjötið sem Malla, Amma hennar Snædísar gerir - ég fæ eiginlega bara vatn í munninn þegar ég skrifa þetta. Ég hef fengið soðið lambakjöt hjá henni alltof sjaldan, en oftast hefur þurft að bera mig út. Malla amma hefur haldið stórt heimili alla tíð, hún og Rósar, eignuðust 5 börn og öll fimm börnin hafa eignast fullt af börnum! Snædís stríðir mér stundum með því að láta mig þylja upp nöfnin á þeim öllum - og það heppnast næstum alltaf....næstum!

Aftur að kjúklingasúpunni minni...

Kraftmikil rjúkandi kjúklingasúpa á köldu desemberkvöldi



Það góða við þennan rétt er hversu einfaldur hann er. Það tekur 5-10 mínútur að skera niður hráefnið. Og svo er bara að setja það í pott og sjóða. That's it.

Ég skar niður einn rauðan lauk, einn gulan, fjórar gulrætur, nokkur hvítlauksrif, átta flysjaðar kartöflur, tvær sellerí stangir, og einn púrrulauk sem ég síðan steikti í nokkrar mínútur. Síðan var auðvitað að salta og pipra. Bætti nokkrum lárviðarlaufum og svo tveimur greinum af fersku rósmaríni. Svo var bara leggja kjúklinginn í hreiður af fallegu grænmeti. Svo var bara að fylla pottinn af vatni og láta suðuna koma upp. Ástæða þess að ég hlutaði ekki kjúklinginn niður var ekki bara leti heldur líka til að fá meira bragð af súpunni. Beinin leggja auðvitað mikið til af því.

Í matreiðslubók Auguste Escoffier, A guide to the fine art of cookery, er fyrsta hluta bókarinnar tileinkað listinni að gera soð. Sem samkvæmt höfundi er helsta undirstaða franskrar matargerðar. Þeir sem lesa bloggið mitt sjá að ég hef hrifist mikið af þessari hugmynd - en að gera soð frá grunni, þó einfalt sé, er tímafrekt - þannig að ég stytti mér leið með því að bæta smá krafti við súpuna.

Annað sem Escoffier bendir á er hversu mikilvægt er að taka "skummið" ofan af súpunni sem kemur upp þegar súpan hitnar. Ef maður er duglegur þá nær maður tærari súpu - ég byrjaði vel en fór síðan að sækja dóttur mína í handbolta - því varð hún aðeins gruggug! En hún varð bragðgóð!

Borin fram með brauðbita og einföldu salati. Allir stigu frá borði saddir og sælir!



Bon appetit

No comments:

Post a Comment