Tuesday 28 December 2010

Undirbúningur hafinn: Klassískur graflax í forrétt á aðfangadagskvöld

Við erum að leggja lokahönd á jólaundirbúninginn. Þetta er búið að vera ansi afslappað fyrir þessi jól. Ég get þakkað konunni minni fyrir það. Hún sér um stærsta hlutann af þessu og leyfir mér að leika mér í eldhúsinu. Fyrir það er ég virkilega þakklátur. Takk Sæsa mín! Foreldrar mínir komu seinustu helgi til okkar og ætla að vera með okkur yfir hátíðirnar. Þetta eru þriðju jólin sem þau koma og eru með okkur um jólin. Það er frábært að hafa þau. Tengdafaðir minn leysir þau svo af fyrir áramótin. Það verður gott að sjá hann aftur.
graflax
Ég er búinn vera að huga að jólamatnum síðustu dag, skrifa upp matseðil, lesa uppskriftir, kaupa síðan inn, snurfusa inn í eldhúsi. Sumt krefst nokkurra daga fyrirvara, eins og til dæmis þessi réttur. Hann er einfaldur - það verður bara að muna eftir því að leggja í hann með að minnsta kosti tveggja daga fyrirvara.

Ég hef nokkrum sinnum gert graflax áður. Og bæði gert hann með hefðbundnu sniði og síðan verið með tilraunir, sett stjörnuanís og negul, einiber og ginsnafs. En hvað sem ég hef verið að prófa finnst mér alltaf bara upprunalega uppskriftin best, einföld og bragðgóð. Ætli það sé ekki þess vegna sem að hún stendur af sér allar tískusveiflur og er upprunalega uppskriftin?!

Undirbúningur hafinn: Klassískur graflax í forrétt á aðfangadagskvöld


Ég varð að láta mér nægja norskan eldislax sem er seldur í City Gross. Þeir eru með ágætt fiskborð og ég hef verið ansi sáttur við það sem ég hef keypt þar, sérstaklega laxinn.

Ég keypti 1400 gramma laxaflak. Skar það niður í tvo jafnstóra hluta og snyrti aðeins kantana þannig að bitarnir væru jafnstórir.

Útbjó kryddblönduna. 100 gr af grófu salti, 100 gr af sykri og síðan 200 gr af fersku dilli, smátt skornu í skál og blandaði vel saman. Fyrir áhugasama má prófa að setja hvaðeina annað sem manni dettur í hug með; svartan pipar, hvítan pipar, negul, anís, fennel, gin, hunang - það má prófa hvað sem er. Ég er eiginlega búinn að fara hringinn og geri því þessa hefðbundnu uppskrift aftur.

Smurði þykku lagi af blöndunni á laxaflakið og lagði síðan bitana saman, kjötið upp að hvoru öðru og með roðið út. Vafði plastfilmu utan um og lagði síðan í plastfat og farg ofan á - tvær mjólkurfernur ættu að duga. Snúið á 12 tíma fresti. Eftir tvo daga ætti svo fiskurinn að vera tilbúinn. Við skulum sjá hvað setur. Skelli síðan sósuuppskrift á netið þegar þar að kemur.

annar vinkill

Bon appetit.

No comments:

Post a Comment