Sunday 11 January 2009

Seyðandi kínverskt nautakjöt með spínati og baunaspírum borið fram meðljúfu hrísgrjónasalati og góðu rauðvíni




Var að koma úr héraði á föstudagskvöldið. Átti leyfi í seinustu viku, gigtardeildin fer rólega af stað eftir áramótin, og því brá ég mér í hérað í Svíþjóð. Fór til Mariestad sem er 25 þúsund manna bæjarfélag sem liggur við Vanern vatnið í Vestur Gautalandi í miðri Svíþjóð. Þetta var skemmtileg vika, mikið að gera í vinnunni - fjölbreytilegir sjúklingar - áhugavert. Mariestad er bær með tæplega 500 ára sögu. Einhver sem síðar varð kóngur lagði grunn að bænum árið 1583. Þarna er dómkirkja sem þykir merkileg fyrir þær sakir að enginn er biskupinn sem þjónar kirkjunni. Fór í nokkrar góðar gönguferðir í frostinu - nóg var kalt. Það var mínus 16 þegar ég kom. Ég hefði átt að elda þennan rétt þegar ég kom í hérað - hann er sterkur og bragðgóður.

Bróðir minn var með okkur um helgina. Hann snéri til baka frá Prag þar sem hann var yfir áramótin með vinum sínum. Þetta var því kveðjumáltíð fyrir hann. Hann fór á Frónið með flugi núna í kvöld. Þessi réttur er innblásinn af rétti sem faðir okkar gerði nokkrum sinnum fyrir mörgum árum. Þunnskorin nautavöðvi er steiktur í wok með fersku grænmeti og borinn fram með hrísgrjónum og góðri soyasósu. Man í raun lítið hvernig þessi réttur var gerður, man þó eftir bragði og áferð - náði ekki í pabba fyrir matinn í gær - þannig að ég lét nægja að hugsa til baka og reyna að skapa réttinn aftur eftir minni.

 

Tókst ágætlega held ég - allavega dæstum við öll sællega að máltíð lokinni. 

Þegar ég segi kínverskt - þá verður að viðurkennast að ég hef ekki hugmynd hvaðan þessi réttur er kominn - hann er alltént innblásinn frá Austurlöndum, og ef maður veðjar á eitthvert land þá er ágætt að veðja á það land sem hefur flesta íbúa - eykur líkurnar á því að maður hittir á rétt.

Seyðandi kínverskt nautakjöt með spínati og baunaspírum borið fram með ljúfu hrísgrjónasalati og góðu rauðvíni

 

Fyrst er að huga að nautavöðvanum. Ég hafði keypt entrecote í heilum bita á tilboði fyrir nokkrum vikum. Skar í þunnar sneiðar með flugbeittum hníf og lagði í skál með nokkrum smátt söxuðum hvítlauksrifjum, einum smáttsöxuðum rauðlauk, einum smátt skornum chilli, vænum slurk af soyasósu, smá skvettu af jómfrúarolíuolíu, smá hvítvínsediksletta,1 tsk engiferduft (átti ekki ferskt), handfylli af ferskri flatlaufssteinselju, salt og pipar. Þetta fékk að marinerast í rúma klukkustund. Undir lokin setti ég svo hálfa dós af svörtum baunum saman við.

Hefði ég verið með wok þá hefði ég að sjálfsögðu notað wok. En þar sem allt dótið mitt er ennþá á Íslandi var að láta duga að nota pönnuna sem við leigðum með íbúðinni. Steikti hluta í senn og lagði síðan í eldfast mót. Í lokin setti ég allar restarnar í skálinni, marineringuna, baunirnar, 2-3 handfylli af spínati, handfylli af baunspírum og fullt af steinselju á pönnuna og steikti í 2-3 mínútur. Blandaði svo saman við kjötið. Setti jafnframt handfylli af fersku spínati og baunaspírum saman við til að hafa þetta ferskt og gott.


Hrísgrjónasalatið var einfalt. Smátt skornar gulrætur, sellerí, laukur og hvítlaukur steikt á pönnu, næst eru soðin hrísgrjón sett saman við og þegar þau hafa tekið lit er tveimur eggjum bætt á pönnuna og hrært snöggt samanvið. Saltað og piprað. Soyasósu bætt samanvið og svo smá sykri til að fá jafnvægi. Steikt í smá stund.

Með matnum drukkum við Baron de Ley Rijoa frá 2003. Frábært vín - 100 prósent Tempranillo þrúga, sem hefur fengið að þroskast í tunnu í 20 mánuði. Flösku í 3 ár. Spánskt vín frá ökrum Mendavia. Ilmurinn af víninu minnti dökk ber, bragðið hvasst í byrjun, en eftir að hafa verið þyrlað í glasi varð bragðið silkimjúkt, tannín og ávöxtur. Sem betur fer áttum við tvær flöskur. Baron de Ley svíkur ekki frekar en fyrri daginn.

Bon appetit!

No comments:

Post a Comment