Monday 19 January 2009

Einn besti forrétturinn; Foie gras tvenna - karamelliseruð gæsalifurmeð annars vegar rauðlaukssultu og hins vegar með eplaskífum á ristuðubrauði


Einhver á eftir að segja að þessi forréttur sé "so 2007" og hver bloggar um svona á mánudegi? - núna er tími heimagerðs sláturs og kindakæfu en ekki svona lúxus! - en mér til varnar þá hafði ég keypt þessa lifur fyrir nokkrum mánuðum síðan þegar ég var í Frakklandi með fjölskyldunni minni. Þá vorum við á ferðalagi um heimahérað Fois gras. Ég verslaði lifrina sem ég notaði á markaði í litlum yndislegum bæ rétt hjá okkur af konu sem elur sínar eigin gæsir og framleiðir þetta allt sjálf. Þvílíkt og annað eins hef ég aldrei smakkað. Þetta var svo gott að ég elti hana á næsta markað til þess að kaupa þetta aftur til þess að taka með mér. Himneskt.

Ég var með þennan forrétt á gamlársdag. Mig grunar að margir á Fróni hafa reynt að lyfta sér upp um hátíðarnar - nógu erfitt var haustið, meira að segja fyrir okkur sem fylgdust með að utan. Kannski svolítið seint að skella þessari uppskrift á Netið. Núna er kannski meiri stemming fyrir léttari réttum - eftir svona kjötveislu sem áramótin eru! Ég eldaði forsmekk af þessu á sextugs afmæli tengdaföður míns við ljómandi undirtektir. Mig langaði mikið til þess að endurtaka leikinn en auðvitað varð að reyna að gera eitthvað nýtt. Maður verður að gæta sín að vera ekki ekki að hjakka í sama farinu.


Ég hef nokkrum sinnum eldað úr þessu frábæra hráefni. Fólk hefur blendnar tilfinningar til þess og er það vel skiljanlegt. Þess vegna er ég alltaf með smá inngang að því að áður en ég birti uppskriftina. Það verður að segja að ást mín á fois gras hafi ekki minnkað við ferð okkar um heimahérað þess. Þvert á móti jókst hún. Ég hef nokkrum sinnum bloggað um þetta hráefni - hef notað það í humarsúpu (og var jafnframt sett í Villibráðarblað Gestgjafans 2007). Á myndinni má sjá foie gras du entier - sem er heill lifrarlappi án mengunar af blóði eða galli.

Meðferð fuglanna orkar þó tvímælis. Orðið decadent á sérstaklega við uppruna þessa dásamlega réttar. Um er að ræða gæsa/andalifur þar sem um þremur vikum fyrir slátrun hefur andfuglinn verið þvingaður til átu á afar kolvetnaríku fæði. Þetta gerir það að verkum að lifrin blæs út og safnar í sig fitu og getur orðið allt að 800-900 gr þung. Þetta hljómar illa, en þessi aðferð á sér langa sögu, eftir því sem ég kemst næst síðan 2500 BC, vinsældirnar jukust gífurlega um síðustu aldamót - og gott er það, það er á hreinu. Nóg er inngangurinn að þessum rétti langur - en svona réttur verðskuldar útskýringar - svo góður er hann.

Einn besti forrétturinn; Foie gras tvenna; karamelliseruð gæsalifur með rauðlaukssultu annarsvegar og með eplaskífum hinsvegar á ristuðu brauði

Fyrst er að útbúa rauðlaukssultuna. Fallegur rauðlaukur var skorinn í þunnar sneiðar og steiktur upp úr smjöri við lágan hita í 10 mínútur eða svo þangað til að hann var orðin mjúkur og góður. Smá salt, smá pipar og svo balsamic edik sem er síðan soðið upp - þannig að ljúft bragðið verður eftir. Í lokin setti ég rúma matskeið af lífrænu sírópi á og hrærði vel saman. Lagt til hliðar. 

Næst var það eplaskífurnar. Grænt epli var skorið í næfurþunnar skífur. Steikt upp úr smjöri þar til stökkt (sumar enduðu þó mjúkar - en bragðið var dásamlegt)

Þá er brauðið útbúið - gott hvítt brauð var snyrt þannig að skorpan var klippt frá. Skar það út í svona hring - en hvaða form sem er hlýtur bara að vera í fínasta lagi. Það var penslað með góðri jómfrúarolíu og svo steikt fallega gullið. Þá er brauðið sett á disk.

Pannan er þurrkuð með klút - það er alger óþarfi að setja smjör/olíu á pönnuna þegar maður steikir foie gras þar sem lifrin er um 90 prósent fita. Hver biti er settur á heita pönnuna og um leið verður smá vökvi á pönnunni. Lifrin er karmelliseruð að utan og vökvanum sem rennur af henni er hellt yfir hana aftur. Henni snúið einu sinni - ætli maður eldi hana ekki um mínútu á hvorri hlið. Þá er henni varlega smeygt ofan á brauðsneiðina og smávegis af fitunni leyft að seytla með yfir. Þá er rauðlaukssultan lögð ofan á aðra sneiðina, og svo eplaskífa á hina. Skreytt með sítrónumelissu.

Með forréttinum nutum við RODA I Riserva frá því 2004. Ég held að þetta sé eitt af mínum uppáhaldsvínum. Kynntist því fyrst fyrir ári síðan þegar vinur minn Harold Köndgen sem er kollegi frá Sviss kom til landsins í janúar fyrir ári, ásamt öðrum kollegum sem ég kynntist í Lissabon á ráðstefnu 2007. Hann er vínáhugamaður fram í fingurgóma og var mjög ánægður þegar hann sá þetta vín í hillum ÁTVR. Hann keypti nokkrar sem við drukkum saman.

Þetta er kraftmikið vín. Mikið af dökkum berjum, kannski kirsuberjum, jafnvel dökku súkkulaði og svo munnfylli af eik. Dvelur lengi á tungu með ljúfu eftirbragði. Vínið er unnið úr 100 prósent Tempranillo þrúgum af framleiðendum sem eiga sér ekki langa sögu, hófu víngerð í upphafi níunda áratugarins. Samt eru þetta margverðlaunuuð vín, kannski ekki að undra þegar maður les manifesto framleiðendanna, þeirra Mario og Carmen - http://www.roda.es/english/index.html. Ég á ábyggilega eftir að leggja leið mína þangað ef ég verð einhvern tíma á ferðinni um þetta svæði. Alltént var það frábær réttur og vínið passaði stórvel með.

No comments:

Post a Comment