Tuesday 13 January 2009

Brandade du eglefin, saumon et les crevettes avec pain de seigle et de beurre (plokkfiskur með rúgbrauði og smjöri)

Það varð að láta þetta hljóma eitthvað flottar heldur en bara - plokkfiskur. Mér finnst plokkfiskur eitthvað dapurlegt heiti yfir rétt sem flestum finnst ansi góður. Þessi franski titill er aðeins meira sexy. Jæja, fiskur á mánudegi, eins og hefðbundið er og maður er alinn upp við. Við hjónin höfum verið að reyna að vera vinna í því að elda meiri fisk og þetta voru svona tilburðir til þess. Ekki veitir af eftir þessa miklu kjöthátíð sem jólin eru.

Eins og ég hef sagt frá áður þá hefur mér ekki litist nógu vel á fiskinn sem er seldur í verslunum hérna. Þetta er sennilega bara fordómar í mér. Hef þó núna prófað að kaupa ferskan fisk.  Keypti um daginn ferksvatnskarpa í Saluhallen sem ég bakaði í ofni með blöndu af brauðmylsnu, steinselju, hvítlauk, jómfrúarolíu, salti, pipar, ferskum sítrónusafa. Þetta varð að svona hjúp ofan á fisknum - heppnaðist ágætlega. Borið fram með hrísgrjónum og einfaldri creme fraiche sósu. Bragðgott.

Allavega. Fyrir nokkru fékk ég að gjöf pakka af íslenskri sjófrystri ýsu frá góðu vinafólki okkar sem er búsett í Kaupinhöfn. Þau hafa verið dugleg að gauka að okkur íslensku fiskmeti; þorsk, saltfisk og nú síðast ýsu. Frábært fólk! Almennt er ég ekki mikill ýsumaður, sennilega þjáist ég af því að hafa verið ofskammtur sá fiskur í æsku af henni móður minni - en hún er mikil baráttukona fyrir ýsunni.  "ýsa í öll mál"- hún á ábyggilega eftir að hringja í mig á eftir útaf þessu - sem er ágætt - það er alltaf gott að heyra í henni mömmu!

Plokkfiskur er alltént eitthvað sem mig hefur langað til að gera lengi. Plokkfiskur er okkar útgáfa af brandade du morue - frægur franskur réttur, sem er gerður úr saltfisk, jómfrúarolíu, salt, pipar og mjólk/rjóma. Sumstaðar er settur hvítlaukur, öðrum laukur og á öðrum stöðum kartöflur. Þetta er gjarnan maukað og síðan borið fram kalt. Við kjósum að hafa þetta aðeins grófara og heitt. 

Brandade du eglefin, saumon et les crevettes avec pain de seigle et de beurre (plokkfiskur með rúgbrauði og smjöri).

Ég djassaði þetta aðeins upp með því að bæta við laxi og nokkrum rækjum. Fyrst steikti ég smátt saxaðan gulan lauk, lítin rauðlauk og nokkur smátt skorin hvítlauksrif upp úr smjöri og jómfrúarolíu. Þegar þetta var orðið mjúkt bætti ég hveiti - smávegis í senn (þarna fær maður í raun mjúka smjörbollu), sem maður síðan bætur mjólk útí þar til að maður fær þykkan jafning. Þvínæst nokkrum kartöflum skornum í bita. Þá bætti ég soðinni ýsu (mest af henni - kannski 600 gr), laxabita og svo handfylli af rækjum. Átti einnig smá afgang af hvítum kastala sem ég skar útí - kannski 30-40 gr. Svo nóg af salti og pipar. Skreytt með nóg af ferski flatlaufssteinselju.

Borið fram með sænsku rúgbrauði og smávegis smjörklípu. 


No comments:

Post a Comment