Tuesday 20 November 2007

Kjúklingur með pestó, rjómaosti og grænum ólívum með hrísgrjónum og salati

Dagurinn er farin að styttast allverulega. Ég held að það hljóti að vera öllum ljóst...meira segja við sem erum úr hófi bjartsýnir tökum vel eftir því. Þetta kemur manni alltaf einhvern veginn á óvart - bara eiginlega alveg eins og vorið - einn góðan veðurdag hefur laufgast - einn góðan veðurdag er dimmt allan daginn...þetta laumast upp að manni.

Ég var á vakt alla helgina. Þannig að eldhússtörfin voru vanrækt í staðinn. Ég hóf störf á taugadeildinni síðustu mánaðarmót. Það hefur verið einkar áhugavert. Það verður eiginlega að segjast að það er bara mjög skemmtilegt - einhvern veginn er það fráleitt, jafnvel sjúklegt, að finnast veikindi fólks svona áhugaverð. En ég get lítið gert að því að finnast gaman í vinnunni. Maður vonar bara að það skili einhverjum árangri!

Ég ætlaði að elda lax í kvöld en það var eitthvað við myrkrið seinnipartinn sem kallaði á svona "comfort food", ég ákvað því frekar að elda kjúkling. Mig langaði líka til að gera vel við mig þar sem ég hafði verið á vaktinni um helgina. Ég hef ekki gert þennan rétt áður - held ég - sumt af þessu er þó farið að renna saman. Ég hef einhvern tíma gert pestókjúkling áður - en kannski ekki alveg svona. Góða við þennan rétt er hvað hann var ansi fljótgerður. Eina sem tók tíma var að baka hann í ofni.

Kjúklingur með pestó, rjómaosti og grænum ólívum með hrísgrjónum og salati

Hlutaði heilan kjúkling niður í fjóra bita og var með aukalega nokkra leggi. Hellti 1-2 msk af jómfrúarolíu í botninn á eldföstu móti og dreifði svo heilum gróft söxuðum hvítlauk í fatið. Lagði kjúklingabitana þar ofan á. Setti 100-130 gr af hreinum rjómaosti í skál og blandaði saman við 3/4 krukku af pestó. Þetta var hrært vel saman og saltað aðeins og piprar. Þessari blöndu var svo makað á kjúklinginn. Restinni af pestóostinum var svo dreift með í fatið. Einni lítilli krukku af góðum ólívum var svo dreift á milli. Bakað í forhituðum ofni, 200 gráður, í 35-45 mínútur eða þar til kjarnhiti nær 82 gráðum.

Þegar kjúklingurinn var tilbúin var honum raðað á fat og ferskri steinselju dreift yfir. Sósan var einföld, vökvinn (rjómaosturinn, pestó, ólívur, hvítlaukur og olían) sem rann af kjúklingum við bökunina hellt í skál og borin fram með.

Með matnum var borin fram soðin jasmín hrísgrjón. Ferskt salat með grænum laufum, vínberjum, konfekttómötum og papríku.

Bon appetit.


No comments:

Post a Comment