Friday 20 July 2018

Elsnögg hvítsúkkulaðiostakaka með bláberjasultu og bláberjum


Eins og margir sem lesa bloggið mitt taka eftir þá ber ekki mikið á eftirréttum. Það verður eiginlega að viðurkennast að ég er allt annað en duglegur að búa til eftirrétti. Og það er ekki vegna þess að mér finnist þeir ekki ljúffengir, ég kann bara betur að meta forrétti og aðalrétti og hef því sjaldnast pláss fyrir eftirrétt. En ég hef safnað í sarpinn í gegnum árin og það er hægt að finna margar sígildar uppskriftir í safninu mínu, sjá hérna undir Eftirréttir og kökur! Og hér er ein sem ég hef í uppáhaldi.

Eldsnögg hvítsúkkulaðiostakaka með bláberjasultu og bláberjum

Það er skemmtileg saga um það hvernig mér áskotnaðist bláberjasultan. Það var þannig að við vorum við tökur á þættinum okkar, Lambið og miðin, á Snæfellsnesi í byrjun júlí. Gréta Sigurðardóttir tók vel á móti okkur og sagði okkur auðfús frá staðháttum og þeirri matarkistu sem er að finna við rætur Snæfellsjökuls og svæðunum þar um kring. 

Hún bauð okkur í morgunverð á Hótel Egilsen þar sem við fengum meðal annars að smakka ljúffenga bláberjasultu sem hún gerir sjálf úr bláberjum frá Vestfjörðum, en þar finnast bestu bláber á Íslandi. Hún leysti mig út með einni krukku sem við höfum nostrað við á síðustu vikum. Og hún sómdi sér sannarlega vel í þessum eftirrétti.  

Þessi færsla birtist líka á Gott í matinn núna í morgunsárið. 

Hráefnalisti fyrir sex

400 g rjómaostur
1 peli rjómi
200 g hvítt súkkulaði
175 g digestive kex
3 blöð gelatín
75 g haframjöl
100 g smjör
2 msk hunang
6 msk bláberjasulta frá Grétu í Stykkishólmi
6 msk fersk bláber



Bræðið fyrst súkkulaðið yfir vatnsbaði.


Bætið pela af rjóma saman við bráðið súkkulaðið. 


Svo setti ég 3 gelatín blöð saman við heitan rjóman og bráðið súkkulaðið.


Setti rjómaostinn í skál og þeytti þar til hann varð mjúkur. 


Þá fer súkkulaðirjóminn saman við rjómaostinn og blandað vel saman. Lét svo skálina inn í ísskáp til að kólna. 


Þá var kexið sett í matvinnsluvél og hrært saman við haframjölið.


Þvínæst bætti ég bráðnu smjöri saman við kexmulninginn og svo hunangi. Lét svo standa í nokkrar mínútur.


Setti svo kexblönduna í skálar.


Þá tyllti ég matskeið af sultunni hennar Grétu ofan á kexblönduna. 


Og þakti svo kexið og sultuna með súkkulaðiblöndunni. Setti svo skálarnar í ísskápinn.


Það var síðla kvölds sem ég bar fram eftirréttinn og lýsingin eftir því. Hann varð engu að síður einstaklega ljúffengur. 

-------


Hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

No comments:

Post a Comment