Thursday 7 June 2018

Fjölbreyttar og ljúffengar nautasteikur með sveppuðustu sveppasósu allra tíma með vel-ostuðu sætkartöflugratíni


Við erum farnir að vinna í nýrri sjónvarpsseríu sem sýnd verður eftir áramót á Sjónvarpi Símans. Fyrsta tökuhelgin var nú um liðna helgi þar sem við brugðum okkur til Mývatns og Húsavíkur. Veðurguðirnir léku við okkur með sól og blíðu, og stillu þegar ekki skein sól.

Og þetta var ekkert lítið skemmtilegt. Þetta var eiginlega ólýsanlegt - allt sem við sáum, gerðum og elduðum. Það er svo gaman að kynnast fólki við þessar aðstæður. Allir eru að sýna sínar bestu hliðar. Svo var heldur ekki leiðinlegt að vinna með svo frábærri áhöfn- Kiddi að leikstýra og framleiða, Árni og Elvar á tökuvélum og með brósi mér við hlið. Þetta var ógleymanleg helgi og ég hlakka mikið til að sýna ykkur afraksturinn. En ferðalagið er rétt nýhafið - við eigum eftir að ferðast víðar um landið.

Það er líka gott að þegar mikið er að gera að eiga gott athvarf - þar sem er hægt að slaka vel og rækilega á. Þá er best að heimsækja foreldra mína í Lækjarkoti í Kjósinni.

Fjölbreyttar og ljúffengar nautasteikur með sveppuðustu sveppasósu allra tíma með vel-ostuðu sætkartöflugratíni

Það er ánægjulegt að kynnast framleiðsluaðilum hér í landi. Metnaðurinn er mikill og afraksturinn er orðinn svo góður. Við Íslendingar megum vera stolt af þeirri matvöru sem framleidd er hérlendis.


Við ákváðum að vera aukanótt í bústaðnum og vorum ekki með nægan mat - en það vandamál var auðleyst. Við brunuðum að Sogni í Kjós og sóttum þessar nautasteikur. Ég keypti bæði rifjasteik, framhryggjarbita og svo entrecote.

Hráefnalisti

1,5 kg af blönduðum steikum
jómfrúarolía
salt og pipar

Fyrir sveppasósuna

250 g sveppir
handfylli þurrkaðir sveppir (týndir í haust í Kjósinni)
villisveppaostur
1 laukur
4 hvítlauksrif
500 ml nautasoð
250 ml rjómi
smjör til steikingar
salt og pipar

Fyrir sætkartöflurösti

stór sætkartafla
200 g cheddarostur
1/2 laukur
salt og pipar


Eldamennskan var ekki flókin. Byrjaði bara á því að skella sous vide tækinu í gang. Lét það rúlla við um 56 gráður. Skellti steikunum beint í vatnsbaðið. Hefði alla jafn kryddað með pipar og svo einhverju kryddi við höndina en ég var ekki með poka til að endurinnsigla kjötið. Með þessari aðferð fær kjötið að njóta sín. 

Þetta eru þunnar steikur - þurftu ekki nema um klukkustund - framhryggjarbitinn fékk þó að vera lengst - um 90 mínútur. Það er aðeins seigari biti en hinir og þarf aðeins lengri tíma til að brotna niður og meyrna og þarf því lengri eldunartíma. 


Á meðan var hægt að huga að meðlætinu. Skar niður laukinn, hvítlaukinn og sveppina og karmelliseraði við meðalhita þangað til að þeir tóku fallegan lit.


Vakti þurrkuðu sveppina í heitu vatni. Við það þenjast þeir út aftur. Skellti þeim svo saman við sósuna ásamt vökvanum af sveppunum.

Bætti svo nautasoði saman við og sauð niður um tæpan helming.


Skar svo niður einn sveppaost og bætti við sósuna. Og svo rjómann. Smakkaði til með salti og pipar. 


Þetta endaði sem ein bragðmesta sveppasósa sem ég hef gert - sveppabragðið var kyngimagnað. 


Svo að röstikartöflunum. Ég skar utan af kartöflunni og brytjaði niður í matvinnsluvél.


Saltaði svo og lagði í viskastykki sem ég hengdi í kranann á vaskinum. Kreisti svo vökvann úr kartöflunum. 


Raspaði svo niður helling af cheddarosti og skar niður laukinn.


Blandaði svo öllu saman og setti í eldfast mót sem ég lokaði með álpappír og bakaði í 180 gráðu heitum forhituðum ofni í um klukkustund. Tók álpappírinn af síðastu fimmtán mínúturnar svo að röstikartöflurnar fengu almennilegan lit. 


Svo var bara að klára steikurnar á grillinu. Penslaði þær með jómfrúarolíu, saltaði og pipraði og svo örskamma stund á hvorri hlið til að fá fallegar rendur í kjötið - og aukið bragð auðvitað.


Girnilegt, ekki satt?


Kjötið var fullkomlega eldað. Lungnamjúkt í miðjunni með brúnuðum hjúp. 


Við nutum Brunello Di Montalcino frá Villa Cortile Riserva frá því 2012. Brunello er einn af risum ítalskrar víngerðar og ég fengið að vera þeirrar ánægju aðnjótandi að heimsækja þennan vínframleiðenda (hægt er að sjá þættina Læknirinn á Ítalíu þar sem greint er frá þeirri heimsókn). Ég hef smakkað þetta vín nánast frá þrúgu þangað til að það kemur á flösku. Og það er magnað hvað það tekur miklum breytingum á þroskatíma sínum á tunnum og síðan flöskum. Samkvæmt Vivino er þetta vín meðal 5% af bestu vínum sem framleidd eru í heiminum í dag og fær fjóra af fimm í einkunn. Þetta vín nýtur þess að vera umhellt í karöflu í að minnsta kosti klukkustund áður en þess er neytt en það dregur fram margslungið bragðið ennþá betur - mikinn ávöxt, jarðartóna - með ljúfu og löngu eftirbragði. 


Þetta var alveg dásamleg máltíð!

Verði ykkur að góðu!


-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

No comments:

Post a Comment