Wednesday 14 March 2018

Miðvikudagsveisla: Seiðandi tælenskt fiskikarrí með brúnum basmati hrísgrjónum


Flestir hafa lítinn tíma til að elda á virkum dögum. Þetta á eins við mig og alla aðra. Þá er gott að hafa fljótlegar uppskriftir í handraðanum. Þessi er einkar fljótleg - hún verður til á þeim tíma sem tekur að sjóða hrísgrjónin - ég notaði reyndar brún basmati hrísgrjón sem þurfa um 25 mínútna suðu og keypti mér þannig örlítið meiri tíma.

Fiskurinn var að sjálfsögðu keyptur hjá vinum mínum í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum. Ég hef skipt við þá lengi. Yfirleitt spyr ég bara hvað er ferskast í borðinu og elda úr því - í þetta skiptið var það nýveidd langa og svo nýslátraður íslenskur eldislax. Íslenskt sjávarfang er að mínu mati það besta í heimi. Við njótum þess að geta fengið spriklandi ferskt hráefni eiginlega á hverjum degi vikunnar.

Við ættum þess vegna að elda fisk oftar í viku en við gerum. Kannanir sýna að við neytum minni fisks en við gerðum áður. Einu sinni borðuðu Íslendingar fisk fjórum til fimm sinnum í viku - nú er það ekki nema um tvisvar. Auðvitað ættum við að borða fisk mun oftar - enda er þetta einn hollasti og ferskasti matur sem við höfum á völ á.

Miðvikudagsveisla: Seiðandi tælenskt fiskikarrí með brúnum basmati hrísgrjónum

Ég vona auðvitað að sem flestir prófi þessa uppskrift. Hún var óeinföld og fljótleg og auðvelt að nálgast öll hráefnin í hvaða verslun sem er.

Fyrir fjóra

1 kg af blönduðum fisk - lax, langa og rækjur
250 g blómkál
1 dós af kókósmjólk
100 ml vatn
2 msk jómfrúarolía
1 tsk fiskikraftur
2 msk rautt taílenskt karrí
1/2 rauður chili pipar
5 cm engifer
2 hvítlauksgeirar
1/2 rauðlaukur
salt og pipar

200 g brún hrísgrjón
1 tengingur kjúklingakraftur

Setjið hrísgrjónin í pott með nógu vatni. Hrærið kjúklingakraftinum saman við. Þegar þau eru tilbúinn - hellið vatninu frá.Skerið laukinn, chili, engifer og hvítlauk smátt og steikið í jómfrúarolíunni þangað til að allt er fallega mjúkt og ilmandi. 


Sneiðið fiskinn niður í munnbitastóra bita og hafið á hliðarlínunni þangað til að sósan er tilbúin.


Blandið kókósmjólkinni og vatninu saman við og hitið að suðu.


Setjið svo karríið saman við. Blandið vandlega saman við ásamt fiskikraftinum. 


Næst er að setja blómkálið saman við sósuna og látið krauma í sjö til tímu mínútur. 


Bætið svo fisknum saman við - hann þarf ekki langan tíma - sjö mínútur eða svo ættu að duga. 


Rétt áður en hrísgrjónin eru tilbúin, bætið þið rækjunum saman við sósuna - þær þurfa ekki nema tvær mínútur eða svo. 


Ef þessi sósa er ekki girnileg - þá veit ég ekki hvað?


Setjið hrísgrjónin á disk og setjið svo rausnarlegan skammt af fisknum yfir grjónin. Skreytið með kóríander - þ.e.a.s fyrir þá sem eru ekki með ofnæmi fyrir kóríander.


Það er gott að njóta góðs víns með mat eins og þessum. 


Burlesque white zinfandel er amerískt rósavín sem passar vel með bragðmiklum mat eins og þessum. Þetta er ansi bragðmikið vín - sætt á tungu með ljúfu eftirbragði af mjúkum vínberjum. 

Ég hvet ykkur eindregið til að prófa þessa uppskrift. Hún er einkar ljúffeng. No comments:

Post a Comment