Thursday 29 March 2018

Heilsusprengja: Kjúklingasúpa frá Austurlöndum fjær - með marglitum gulrótum, nýrnabaunum, linsoðnum eggjum og kúrbítsnúðlumEf þetta er ekki frábær og fljótleg máltíð í miðri viku þá veit ég ekki hvað er það. Svo er hún líka sérlega holl - kjörin þegar maður er nýkominn heim úr ræktinni - eða bara ef maður vill hafa ljúffengan rétt í miðri viku. En endilega farið líka í ræktina - það er ókeypis læknisráð frá mér! 

Það eina sem tekur tíma í þessari uppskrift er að skera niður hráefnið og svo bíða eftir að það súpan sjóði og kjúklingurinn eldist í gegn. Það er kjörið að kaupa heilan kjúkling fyrir súpuna - þá mætir maður auðveldar þörfum allra í fjölskyldunni - sumir vilja bringu, og aðrir vilja legg. En auðvitað hægt að kaupa leggi, læri eða bringur. Það er auðvitað frjálst val! 


Heilsusprengja: Kjúklingasúpa frá Austurlöndum fjær - með marglitum gulrótum, nýrnabaunum, linsoðnum eggjum og kúrbítsnúðlum. 

Fyrir sex

1 kjúklingur
1/2 rauðlaukur 
2 sítrónugras stangir
5 cm engifer
3 hvítlauksrif
4 vorlaukur
1 rauður chilipipar
6 kaffir límónublöð
3 gulrætur (ein gul, ein appelsínugul og ein fjólublá) 
1 kúrbítur
2 lítrar vatn 
1 teningur kjúklingakraftur
50 ml soya sósa
1 msk hunang
1 dós nýrnabaunir
6 egg
salt og pipar

Meðlæti 

Saricha aioli
gulrótarræmur
kórínder 
rauður chili


Byrjið á því að hluta kjúklinginn niður í 12-16 bita, saltið og piprið og brúnið í heitri olíu þangað kjúklingurinn hefur tekið lit. 


Sneiðið vorlauk, sítrónugras, engifer, chili, hvítlauk og takið til kaffir límónulaufin. 


Hitið viðbótarolíu í pönnunni og mýkið grænmetið í nokkrar mínútur. 


Bætið gulrótunum saman við og steikið í tvær til þrjár mínútur til viðbótar. Hellið þá vatninu saman við, ásamt soya sósunni og hunangi. Bætið við teningi af kjúklingakrafti. Sjóðið upp súpuna og látið krauma við lágan hita í þrjú kortér.Skerið svo kúrbítinn með þessu apparati. Kennið apparatinu um þegar það heppnast ekki nógu vel! 


Bætið kúrbítnum saman við súpuna. Skolið baunirnar og bætið í súpuna. Sjóðið áfram í 10 mínútur. Linsjóðið egg í öðrum potti. 


Undirbúið meðlætið - blandið matskeið af majónesi saman við 1 teskeið af siracha sósu. Hrærið vandlega. 


Skerið gulrót í strimla með flysjara, chili í þunnar sneiðar og vorlaukstoppana í litla strimla. 


Það var ágætt að eiga þessa flösku til að smakka með. Þetta er Torre mora hvítvín sem er ræktað við fót Etnu á Sikiley. Þetta er sprengja af sítrónu og ávexti á tungu, rætur og sæta sem minnir á perubrjóstsykur. Góð fylling og ágætis eftirbragð. 


Svo er bara að raða súpunni saman; kjúkling í miðjuna, baunir og kúrbít í kring, egg í helmingum, siracha aoili á toppinn með gulrótarræmum, vorlauk, chili og fullt af fersknum kóríander. 

Þetta var, sko, fyrir líkama og sál. 

Verði ykkur að góðu.

No comments:

Post a Comment