Sunday 9 April 2017

Kröftugar handhakkaðar, marókóskar lambabollur með hummus, baunum og pítusósu


Þennan rétt gerði ég fyrir skemmstu þegar Börkur vinur minn var í heimsókn. Þetta var rétt áður en hann byrjaði að vinna við fyrstu bíómynd sína - Mules - sem var tekin upp í Reykjavík nú fyrir skemmstu. Hann er búinn að vera að vinna að þessari bíómynd síðasta áratuginn eða svo - og gaman að sjá hvað hann var spenntur fyrir því að taka lokaskrefin að þessu verki. Mér skilst á honum að myndin verði frumsýnd nú í haust. Börkur hóf feril sinn strax að loknum menntaskóla - byrjaði að taka auglýsingaljósmyndir, seinna auglýsingar fyrir sjónvarp. Hann var einn af þremur leikstjórum Ófærðar, sem naut mikilla vinsælda. Ég var í Englandi þegar serían var sýnd þar og það var meiriháttar að verða vitni að því hversu mikla athygli hún fékk. Hann mun nú vera byrjaður að klippa bíómyndina og það verður rosalega spennandi að sjá hana. 

Auk þess að vera einn af mínum elstu og bestu vinum þá er hann líka liðtækur í eldhúsinu og það er afar ljúft að hafa hann í mat. Hann kann bæði að elda og að borða. 

En að matnum. Það kemur mér alltaf jafnmikið á óvart hvað það er erfitt að nálgast lambahakk á Íslandi. Maður hefði haldið að Íslendingar ættu fjöldann allan af uppskriftum þar sem lambahakk er notað en slíkt er ekki raunin. Ég var nýverið á fundi hjá forsvarsmönnum Sláturfélags Suðurlands og spurði einmitt út í þetta - þeir greindu frá því að þeir hefðu margoft prófað að setja lambahakk á markað en neytendur hafi ekki tekið því opnum örmum. Það fannst mér dapurlegt að heyra. Kannski að þessi uppskrift fái þá og neytendur til að breyta út af. 

Kröftugar handhakkaðar marókóskar lambabollur með hummus, baunum og pítusósu

Handa sex

Einn lambaframpartur
1 tsk broddkúmen
1 tsk kóríander fræ 
1 msk papríkuduft
1 msk túrmerik
2 tsk engiferduft
4 hvítlauksrif
2 msk fersk mynta
1 egg
salt og pipar

Meðlæti

250 g kjúklingabaunir (niðursoðnar)
250 g soya edame baunir (frosnar)

Hummus

1 dós niðursoðnar kjúklingabaunir
2 msk tahini
2 hvítlauksrif
1/2 tsk malað broddkúmen
100 ml jómfrúarolía
salt og pipar

Pítusósa

4 msk majónes
2 msk sýrður rjómi
1 tsk oregano (helst ferskt)
1 tsk majoram (helst ferskt)
1 tsk timíjan (helst ferkst)
1 tsk hlynsíróp
salt og pipar


Ég skar kjötið utan af beinunum og hakkaði það og setti í skál. 


Svo ristaði ég broddkúmen og kóríander á þurri pönnu.


Setti túrmerikið og papríkuduftið með lambakjötinu og fékk Vilhjálm Bjarka til að steyta koríander- og broddkúmenfræin. Sett með hakkinu. 


Skar svo niður ferska myntu - dásamlegt bragð og unaðslegur ilmur.


Hvítlaukur, salt og pipar og eitt egg.


Hnoðað vandlega saman.


Baunirnar voru skolaðar og steiktar upp úr heimagerðri hvítlauksolíu. Nóg af salti og pipar.


Hrærði smá steinselju og myntu saman við baunirnar áður en þær voru settar á disk.


Eins og ég sagði að ofan þá er Börkur liðtækur í eldhúsinu. Hann var settur í að steikja lambabuffin. 


Að gera hummus er leikur einn. Skolið kjúklingabaunirnar vandlega og setjið í matvinnsluvél. Blandið saman með tahini, hvítlauk, olíu og smakkið til með salti og pipar. Toppið svo hummusinn með góðri jómfrúarolíu, já, og papríkudufti vilji maður slíkt. 


Við drukkum þetta ljúffenga rauðvín með matnum. Þetta vín á rætur að rekja til Argentínu. Trivento er einn stærsti vínframleiðandinn þar í landi. Þetta Malbec vín er framleitt í Mendoza dalnum og hefur unnið til margra verðlauna. Vínið er dökkrautt, eiginlega rúbinrautt í glasi. Ilmurinn með þéttum ávaxtailm. Bragðið er kraftmikið með ljúffengum sultuðum ávexti, með súkkulaðikeim og krydduðum tónum. Heldur góðu eftirbraði sem dvelur á tungu um stund.


Þetta var einkar vel heppnuð máltíð. 


Við verðum að gefa lambahakkinu sjéns - þetta er dásamlegt hráefni!

Bon appetit!

No comments:

Post a Comment