Sunday 28 August 2016

Skelfisksveisla á grillinu: glóðuð hörpuskel og dásamleg Moules marniere


Ég veit ekki hversu oft ég hef sagt það en fiskmeti á Íslandi er engu líkt (kannski að Norðmenn og Færeyingar hafi það líka svona gott). Ég borðaði fisk allaveganna þrisvar sinnum í síðustu viku. Fyrst á mánudaginn þegar bróðir minn eldaði spriklandi ferskan steinbít í indverskri sósu. Svo grillaði ég lax á þriðjudeginum og á fimmtudaginn hafði ég þessa ljúffengu veislu.

Ég sótti fisk til vina minna í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum. Planið var alltaf að gera krækling á grillinu en þegar ég kom inn í búðina blasti við mér þessi dásemd - íslensk hörpuskel úr Breiðafirðinum. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé hörpuskel í skelinni ferska í borðinu hjá fisksalanum. Það má vera að þetta sé alvanalegt síðustu misseri, en ég var að flytja til landsins - þannig að fyrir mér var þetta nýtt - dásamlega, ferskt, ilmandi af köldu hafinu. Ég gat auðvitað ekki staðist freistinguna. Mér skildist á fisksalanum mínum að skelfiskurinn kæmi ferskur frá Breiðafirði á hverjum miðvikudegi.

Skelfisksveisla á grillinu: Glóðuð hörpuskel og dásamleg Moules marniere

Oftast er hörpskel seld frosin - en þegar hún er svona fersk í skelinni þarf aðeins að hafa fyrir hlutunum. En þetta er hið einfaldasta mál - ég fann leiðbeiningar á Youtube og málið var leyst á fjórum mínútum. Skelin er þvinguð upp, skorið með sveigjanlegum hníf eftir botninum á flata hluta skeljarinnar og hún svo opnuð. Gripið er um svarta magasekkinn og hann togaður yfir hörpudiskinn þannig að restin af meltingarfærunum rennur bara af með sekknum. Svo þarf að snyrta aðeins til. Skera hana lausa frá botninum. Einfalt og skemmtilegt.

Glóðuð hörpuskelina

75 g smjör
25 ml sjérríedik
1 skalottulaukur
1 msk steinselja
1/4 rauður chili
salt og piparOpnið og hreinsið skeljarnar eins og lýst er hér að ofan. Skolið þær vandlega.


Bræðið smjörið í potti og steikið smátt skorinn skalottulauk og chili við lágan hita. Bætið svo sjérríediki saman við, ásamt smátt skorinni steinselju. Saltið og piprið.


Blússhitið ofninn með grillið á fullu og glóðið þannig hörpuskelina í tvær til þrjár mínútur - ekki meir því annars verður hún seig. 


Það er gott að bera fram smá súrdeigsbrauð með skelinni til að sjúga í sig afganginn af smjörinu sem verður dásamlegt saman. 

Moules Marniére

Fyrir fjóra til fimm

1,5-2 kg splunkuný hörpuskel
2 skalottulaukar
4 hvítlauksrif
1/2-1 rauður chili
100 gr smjör
150 ml hvítvín
250 ml rjómi
handfylli af steinselju
salt og pipar


Skolið skelina vandlega. Hendið opinni eða skemmdri skel. Ef skelin er smávegis opin er gott að banka aðeins í hana - ef hún lokar sér er hún ennþá lifandi og í lagi að borða hana.


Skellið wokpönnunni á grillið. Flest Webergrill eru nú með grind þar sem hægt er að taka úr hluta hennar og tylla þar í wokpönnu sem er kjörin til verksins. 


Skerið laukinn, hvítlaukinn og chilipiparinn smátt og steikið í smjörinu. 


Hellið svo kræklingum á pönnuna. 


Veltið honum upp úr lauknum og smjörinu. Steikið í eina til tvær mínútur. Hrærið á meðan.


Setjið næst vínið í pönnuna og sjóðið upp áfengið. 


Næst er bætt í rjóma sem hitaður er að suðu. 


Hrærið vandlega. 


Þegar kræklingur opnar sig er hann tilbúinn. Þetta ætti ekki að taka nema sjö til átta mínútur í mesta lagi. 


Svo er bara að skreyta þetta með ferskri steinselju. Einfaldara og ljúffengara getur þetta varla verið. 


Með þessum réttum fengum við okkur smá tár úr þessari búkollu. Vina Maipo Sauvignion Blanc frá Chile. Þetta er ágætis sopi. Auðvelt, smá epli saman við ávöxtinn og með léttu eftirbragði. Passaði vel með skelinni. 


No comments:

Post a Comment