Thursday 25 August 2016

Heilgrillaður grís í kveðjuveislu í Lundi með ljúffengu waldorf salati með eplum úr garðinumÍslenska sumarið heldur áfram! Allir sem ég hitti á förnum vegi, hvort sem það er í vinnu eða þar fyrir utan segja að þetta hafi verið besta sumar í langan tíma. Og það virðist ekkert slá slöku við, alltént ekki ef litið er til seinustu daga. Í gær var glampandi sól og dásamlegt veður. Það var meira að segja hlýtt þegar við fórum úr húsi á leið í vinnu um morguninn. Eins og ég hef án efa nefnt, þá hef ég hafið störf á lyflækningadeild landspítalans og starfa á bráðalyflækningadeild með hóp reyndra lyflækna og metnaðarfullra námslækna í lyflækningum. Það veitir manni óneitanlega innblástur að vera partur af hópi svo góðra samstarfsmanna. Svo hóf ég einnig rekstur stofu í Klíníkinni í Ármúla með kollega mínum, Hjálmari Þorsteinsyni - bæklunarlækni, en við ætlum að prófa að veita alhliða stoðkerfisþjónustu í Klíníkinni. Þar tökum við á móti fólki með stoðkerfissjúkdóma með beiðni frá öðrum læknum.Í gær héldum við líka upp á fjögurra ára afmæli örverpisins, Ragnhildar Láru, sem byrjaði daginn með því að spyrja hvort að afmælisdagurinn hennar væri runninn upp - "is it my birthday today?" og svo "there has to be a celebration!" Við héldum upp á lítið afmæli í dag en svo verður blásið til almennilegs fjölskylduafmælis á sunnudaginn. Meira um það síðar. Hún var allaveganna afar ánægð með að vera stjarna dagsins - fékk pakka, köku og ís og var alsæl. Vonandi verður hún líka ánægð með afmælið sitt.Við höfum líka unnið hörðum höndum heimavið. Snædís hefur verið á fullu að pakka upp úr kössum og koma okkur fyrir. Þrátt fyrir að við eigum sæg af dóti hefur hún þurft að fara, að því að virðist, endalausar ferðir í Ikea til að kaupa smáræði sem vantar fyrir hitt og þetta. Eldhúsinu miðast vel og ef fer sem horfir verður það tilbúið innan viku. Öll raftæki eru tengd, gaseldavélin er klár (en það á eftir að þrífa hana almennilega). Ljósin eru á leiðinni upp ásamt bókahillum, myndum og öðru smálegu. Svo á eftir að flísaleggja einn vegg - og þá verður þetta komið. Draumaeldhúsið mitt er að verða tilbúið! Það verður skemmtilegt að vinna í því og segja ykkur frá uppátækjum mínum!Heilgrillaður grís með fersku nuddi í kveðjuveislu í Lundi með ljúffengu waldorf salati með eplum úr garðinum
Þetta er veisluréttur að mínu skapi. Þessi uppskrift er kjörin þegar marga gesti ber að garði! Og það er ekkert mál að elda eftir henni; það eina sem þarf er vilji og nægur tími. Eldunartíminn er auðvitað háður stærð gríssins sem og veðri og vindum. Það má reikna með að minnsta kosti fimm klukkustundum og jafnvel meira. – Hvað er betra en að fá að eyða heilum sumardegi við grillið?

Hér skiptir undirbúningurinn höfuðmáli. Það þarf að byrja á að verða sér úti um heilan grís, sem er í sjálfu sér ekki snúið. Leggið bara inn pöntun hjá kjötkaupmanni. Þeir eru sem betur fer fáeinir eftir á Íslandi (ég ræði alltaf við vini mína hjá Kjöthöllinni). Svo þarf auðvitað að grafa holu, eiga nóg af kolum eða eldivið og ekki má gleyma spjótinu – sem að mínum dómi er aðalmálið. Spjót er þó ekki eina aðferðin við að elda grís. Það væri hægt að útbúa stóran kolaofn (nóg af leiðbeiningum á netinu) á nokkuð auðveldan hátt – en ég held að grísinn verði alltaf bestur sé hann eldaður á spjóti (teini).

Grísir eru nánast alltaf seldir með hausinn áfastan, ólíkt lambinu. Sumum finnst óhugnanlegt að sjá hann þannig en besta kjötið af grísnum er einmitt í höfðinu. Grísakinnarnar eru umluktar þéttri fitu sem bráðnar við eldun og umlykur kjötið sem meyrnar og verður guðdómlega ljúffengt svo það bráðnar í munni.

Heill grís – 18-25 kg
2 bollar fantagott ferskt svínanudd (sjá hérna að neðan)
eplaskvetta/eplasmjör

Eplaskvetta

1 hluti eplaedik
1 hluti eplasafi

Blandið saman í sprautuflösku. Geymist svo vikum skiptir.


Viku fyrir veisluna hringið þið í kjötkaupmanninn – þetta er vara sem þarf að panta. Á degi grillveislunnar skolið þið og þerrið grísinn. Þetta er best að gera utanhúss, t.d. úti á palli með grísinn hengdan upp. Kveikið upp í kolunum/eldiviðnum. Nuddið grísinn vandlega upp úr olíu og svo ferska svínanuddinu bæði að utan og inn í kviðar- og brjóstholið. Þræðið upp á spjótið og skorðið grísinn vandlega.


Setjið grísinn yfir eldinn og snúið reglulega eða hafið hann á spjóti með mótor.


Eldið grísinn þar til kjarnhiti nær að minnsta kosti 70°C. Meðan á eldun stendur er mikilvægt að úða grísinn reglulega með skvettum svo hann haldist vel rakur allan eldunartímann.Þetta er verk sem tekur bróðurpartinn úr degi og því ekki vitlaust að kokkurinn fái eitthvað fyrir sinn snúð – einn fyrir kokkinn og einn fyrir grísinn!

Fantagott ferskt svínanuddSumt krydd passar betur með svínakjöti en annað. Þegar ég fer að hugleiða krydd með svínakjöti fljúga salvía og fennel alltaf fram á sjónarsviðið. Og til að lyfta því aðeins hærra er um að gera að nota nóg af sítrónuberki, og auðvitað salt og pipar.

Börkur af 7-8 sítrónum
1 salvíuplanta
2 msk af ristuðum fennelfræjum
4 msk salt
2 msk nýmalaður pipar

Skafið börkinn af sítrónunni (bara þetta gula), saxið smátt og setjið í skál. Ristið fennelfræ á pönnu og setjið svo í mortél og steytið í duft og bætið saman við sítrónubörkinn ásamt smátt saxaðri salvíu. Blandið við salti og nýmöluðum pipar. Best er að nota þetta nudd strax en það geymist eflaust í nokkra daga í lokuðu íláti.


Waldorfsalat


Með þessari dásemd finnst mér gott að bera fram waldorfsalat sem er klassíker með svínakjöti.

Fyrir sex
5 lítil epli
2 sellerístangir
75 g valhnetukjarnar
100 g rauð vínber
100 ml þeyttur rjómi
50 ml majónes
safi úr ½ sítrónuSkolið eplin vandlega og kjarnhreinsið (ég flysjaði ekki mín epli þar sem þau eru alveg ómeðhöndluð) og skerið í grófa bita. Setjið í skál, kreistið sítrónusafann yfir. Skolið selleríið vandlega, sneiðið í bita og blandið saman við eplin. Skerið valhneturnar gróft og hrærið saman við, ásamt vínberjum sem hafa verið skorin í tvennt. Þeytið rjómann og hrærið saman við ásamt majónesi.
Látið standa í ísskáp í 30 mínútur (geymist vandræðalaust í hálfan dag).


Það er um að gera að fá nágranna til að vinna aðeins fyrir matnum!


Haukur Logi, sonur vinahjóna okkar, var mjög spenntur yfir grísnum og kom meira að segja með epli til að setja í kjafinn á grísnum. 


Svo var bara að skera niður ofan í allan mannskapinn. Þegar marga gesti ber að garði er ágætt að kaupa búkollu. Það er bæði hagkvæmt og svo eru mörg góð vín í þessum umbúðum. Ég hef keypt þetta vín mörgum sinnum á flösku og verið afar hrifinn af því og þess vegna var þetta augljóst val. Þetta er ljómandi sopi - ágætis fylling, með ljúfum berjum, þurrt, ögn kryddað með góðu eftirbragði. 


Bon appetit! Grillveislan getur verið alveg stórkostleg! 

Auðvitað er þessa uppskrift að finna í bókinni minni! 


Grillveislan getur verið alveg stórkostleg! 

No comments:

Post a Comment