Sunday 31 July 2016

Hin heilagi kaleikur bandarískrar grillmennsku; Ljúffengur brisketborgari með nýju hrásalati


Þessi biti er einn af hornsteinum bandarískrar grilleldamennsku. Það eru til óteljandi uppskriftir og myndbönd á youtube um hvernig á að meðhöndla þennan annars ólseiga kjötbita og umbreyta honum í dásemd eins og þess. Ég hef gert atlögu að þessum bita nokkrum sinnum og það tók mig nokkur skipti að læra að ná tökum á uppskrifinni. En ég held að ég hafi hitt í mark með þessari aðferð. 

Ég verð að fá vitrari menn/konur en mig til að hjálpa mér að íslenska nafnið á þessum kjötbita - Brisket - sem kemur af framanverðu nautinu. Myndin hér að ofan sýnir vel hvaðan hann er tekinn af kúnni. Vöðvinn inniheldur meðal annars brjóstvöðvann af kúnni og er, sé hann snöggeldaður, afar seigur undir tönn. En með því að langelda hann við lágan hita í hálfan dag eða svo umbreytist hann í lungamjúkan bita sem er ljúffengur, safaríkur og seiðandi undir tönn. Prófiði bara. 

Annars hefur verið nóg um að vera hjá okkur síðustu daga. Við erum að undirbúa flutning til Íslands. Tengdamóðir mín, Hrafnhildur, flaug til okkar fyrir rúmri viku síðan og hefur heldur betur verið okkur innan handar. Hún hefur séð um yngstu dótturina auk þess að byrja að pakka búslóð okkar í Englandi niður í kassa. Það er gott að eiga hauk í horni. Og við eigum marga slíka. Svo hefur svilkona mín, Inga Dóra, og mágkona mín, Kolbrún, sannarlega verið okkur góðar. Inga Dóra hefur haft auga með iðnaðarmönnum sem hafa verið að vinna í húsinu okkar í Ártúnsholtinu. Hún er meira að segja að flísaleggja eldhúsgólfið hjá okkur. Foreldrar mínir hafa líka verið ótrúlega duglegir. Þau skipulögðu móttöku á innbúinu okkar frá Svíþjóð í fjarveru okkar. 

Ég keypti Bosch rafmagstæki í eldhúsið sem ég hlakka til að sýna ykkur þar sem að við áttum engin (allt slíkt er selt með fasteignum í Svíþjóð) auk þess sem ég er að láta sérsmíða borðplötur hjá Fanntófell á eldhúsinnréttinguna og eyjuna sem við erum að hanna. Ég hlakka svo til að komast í að elda í alvöru eldhúsi aftur sem er hannað eftir mínum þörfum. Það verður gaman að sýna ykkur í komandi bloggfærslum hvernig miðar. 

Hin heilagi kaleikur bandarískrar grilleldamennsku; Ljúffengur brisketborgari með nýju hrásalati

Eldamennskan sem um ræðir er í raun ofureinföld þó að hún taki talsverðan tíma. Til að verkið verði leikur einn þarf bara að raða kolunum upp með ákveðnum hætti og svo sér tíminn eiginlega bara um restina. 

Fyrir sex til átta

2 kg nautabrisket
2 msk jómfrúarolía
4 msk uppáhalds grillnuddið ykkar
150 ml grillsósa að eigin vali
hamborgarabrauð
laukur, tómatar, pæklaðar gúrkur eftir smekk. 

Fyrir hrásalatið

1/2 haus hvítkál
2 gulrætur
1 mangó
3 sellerísstangir. 
3 msk majónes
2 msk sýrður rjómi
75 ml appelsínu/eplasafi
safi úr heilli sítrónu
börkur af heilli sítrónu
salt og pipar


Nuddið kjötið með jómfrúarolíu.


Útbúið grillnuddið. 


Nuddið kjötið vandlega með kryddblöndunni.Bindið svo kjötið upp í rúllu.


Njótið svo útsýnisins. Þetta er fallegur biti. Og á eftir að verða alveg sérstaklega gómsætur. 


Raðið svo kolunum upp í "snák" eins og hérna að ofan. Kveikið svo upp í öðrum endanum. Þannig munu kolinn brenna allann daginn án þess að þið þurfið að hafa af því nokkrar áhyggjur. 


Eftir um 4-5 klukkustundir er kjötið tilbúið. Þó að það sé dökkt þá er það ekki brunnið, því fer fjarri. Þetta kallast börkur (bark) og er ótrúlega bragðgott! 


Svo er bara að byrja að skera kjötið niður. 


Hakkið það vandlega niður.


Blandið svo grillsósunni saman við kjötið.


Í raun bara eins mikið og þið viljið. 


Staldið við og njótið útsýnisins. Smakkið og saltið og piprið eftir smekk. 


Hakkið niður hvítkálið, gulræturnar og selleríið í matvinnsluvél. Skerið mangóið niður smátt og blandið vel saman ásamt majónesi og sýrður rjóma. Skafið börkinn af sítrónunni og saxið niður og hrærið saman við. Smakkið til með sítrónusafanum og salti og pipar.


Svo er bara að raða þessu saman. Slíkt er auðvitað leikur einn. Og næsta skref er bara að njóta með vinum og/eða vandamönnum.


Tjékkið endilega á bókinni minni. Hún er full af ljúffengum ævintýrum á grillið.

No comments:

Post a Comment