Friday 13 May 2016

Strandar-grillveislan - Kjúklingabitar, suðurafrísk nautapylsa og fullt af meðlæti


Það má óhætt segja að sumarið hafi komið nú síðustu helgi hjá okkur í Suður Englandi. Þegar ég kom úr ræktinni á laugardagsmorguninn biðu mín textaskilaboð frá Roger, vini mínum og kollega, þar sem hann stakk upp á því að við myndum skella okkur á ströndina strax eftir hádegi og grilla saman. Hann hafði kallað til nokkra af vinum sínum og vildi fá okkur með í hópinn. Og auðvitað vorum við "geim". 

Ég gerði nú lítið annað en að kaupa nokkra bjóra og vínflöskur til að leggja í púkkið. Roger og fleiri úr hópnum sáu um matargerðina, en ég reyndi að standa vaktina við grillið. Þannig að þessi færsla er meira svona dagbókarfærsla um það sem á daga manns hefur drifið síðustu daga ;) 


Strandar-grillveislan - Kjúklingabitar, suðurafrísk nautapylsa og fullt af meðlæti

Roger og félagar hans höfðu byrjað um morguninn að undirbúa. Þeir snöruðu kjúklingum í netta marineringu gerða úr olíu, hunangi, djion, salti og pipar. Svo forelduðu þeir hann í ofninum þannig að þegar gestina bar að garði þurfti lítið annað að gera en að karmellisera þá fallega að utan.


Jakob Pétur, bekkjarbróðir minn og kollegi, búsettur í London, kom suður til að vera með okkur á þessum fallega degi.


Roger og Kevin ræða grillaðferðir! 


Roger Wellesly Duckitt, sem á rætur að rekja til Suður-Afríku, fluttist til Englands að loknu læknanámi, keypti þessa dýrindis kraftmiklu nautapylsu. Sumum finnst þetta form pylsu óhuggnarlegt - en ég er ósammála. Mér finnst hún ekki bara falleg heldur líka girnileg.


Við vorum með þrenns konar grill við höndina, einnota, þessa tunnu og svo Weber ferðakolagrill. Það þarf varla að taka það fram að Weber grillið var langbest! 


Kjúklingurinn var fullkomlega eldaður í gegn og svo karmelliseraður að utan (örlítið brenndur) en þannig er að grilla! Það heppnast ekki alltaf fullkomlega! 


Meðlætið var af ýmsum toga; hvítlauksbrauð, maískólfar, tvenns konar fersk salöt og svo hrásalatið hans Rogers sem er gert úr rauðkáli - ekki svo ósvipað og ég er með í bókinni minni - Veislunni endalausu. 


Logan og hundurinn Bronx, ásamt Jakobi. 


Fullt af góðu fólki - yfir góðu grilli.


Hvernig er annað hægt en að elska að grilla í góðra vina hópi? 

Eins og Gandhi sagði - þar sem er grill, þar er ást! 
Njótið vel! 

No comments:

Post a Comment