Wednesday 17 June 2015

Il Timpano - troðfyllt pastabaka - úr kvikmyndinni Big night


     



Hugmyndina að þessari uppskrift fékk ég úr bíómyndinni Big night sem er óður til ítalskrar matargerðar og fjallar um tvo bræður sem reka veitingastað sem er að syngja sitt síðasta. Í örvæntingarfullri tilraun til að bjarga staðnum efna þeir til veislu þar sem fjöldi dásemdarrétta er borinn á borð. Þar á meðal þessi réttur, Il Timpano, sem er innbakað pasta. Hann mun vera einn af uppáhaldsréttum eins aðalleikara myndarinnar, Stanleys Tucci, en móðir hans hefur gefið út matreiðslubókina Cucina & Famiglia þar sem þessa uppskrift er að finna.




Ef þið smellið á hlekkina þá færa þeir ykkur yfir á vefsvæði amazon.co.uk og hægt er að panta bókina með einum músarsmell!

Eldamennska eins og þessi er í raun talsvert viðamikið verkefni og það borgar sig að t aka sér hálfan dag í verkið. Fyrst þarf að laga pastað, svo sósuna, þá kjötbollurnar, raða öllum herlegheitunum upp og svo baka í ofni. Vonandi fær maður síðan hrós fyrir!



Ég eldaði þennan rétt fyrir ári síðan fyrir bókina mína - Veisluna Endalausu - en þá voru vinkonur Snædísar og kollegar, Sigrún Ása og Elva Brá, í heimsókn. Það var virkilega gaman að hafa þessar fallegu og skemmtilegu dömur í heimsókn.

Il Timpano - troðfyllt pastabaka - úr kvikmyndinni Big night

Fyrir átta til tíu


Fyrir pastað

800 g durum-hveiti
8 egg

Fyrir kjötbollurnar

500 g svína/nautahakk
1 egg
1 tsk fennelfræ
1 msk söxuð steinselja
1 msk söxuð basillauf
3 hvítlauksrif
2 ristaðar brauðsneiðar
1 msk jómfrúarolía
salt og pipar

Fyrir fyllinguna

heimagerð tómatsósa (sjá hérna)
2 egg til að pensla með
1 kúrbítur
3 ferskir mozzarella-ostar
6 soðin egg
salt og pipar

Byrjið á því að laga pastadeigið. Blandið durum-hveitinu og eggjunum saman í hrærivél í nokkrar mínútur. Hnoðið saman í þéttan klump, setjið í plast og svo inn í ísskáp í 30-60 mínútur.



Útbúið kjötbollurnar með því að setja hakkið í skál ásamt egginu, steyttum fennelfræjum, saxaðri steinselju, basil og hvítlauk, jómfrúarolíu, salti og pipar. Blandið vel saman. Ristið brauðsneiðarnar, tætið niður í matvinnsluvél og blandið saman við hakkið. Hnoðið hakkblönduna vandlega og útbúið fallegar bollur á stærð við golfbolta. Hitið olíu á pönnu og brúnið bollurnar að utan og setjið svo til hliðar. Geymið pönnuna með olíunni til að steikja pastað. Lagið tómatsósu eftir leiðbeiningum héðan.


Ég á fylgihlut á KitchenAid vélina mína sem er ansi sniðug. Með henni fylgja nokkur mót þannig hægt sé að gera nokkrar ólíkar tegundir af pasta, hægt er að kynnast pastapressunni betur á heimasíðu Einar Farestveits. 


Ég gerði fuzilli.


Og svo penne. 


Og svo nóg af pastarenningum til að hjúpa pottinn fyrir trommuna - il timpano. 


Hlutið pastadeigið í þrennt. Útbúið til dæmis fusilli úr fyrsta þriðjungnum, penne úr þeim næsta og svo langa og breiða renninga úr þeim þriðja. Sjóðið fusilli og penne í ríkulega söltuðu vatni í þrjár til fjórar mínútur og takið svo upp úr vatninu. Steikið aðra pastategundina í fitunni af kjötbollunum og blandið hinni við tómatsósuna.

Smyrjið eldfastan pott ríkulega með smjöri eða olíu. Leggið pastarenningana í pottinn þannig að botn hans og hliðar séu hjúpaðir með pasta og þannig að nóg pasta sé umfram til að brjóta yfir í lokin. Hrærið eggin saman og penslið pastað ríkulega.


Setjið eina tegund af pasta í botninn, raðið heilum eggjunum með og lokið síðan með tveimur pastarenningum. Penslið með eggjablöndunni.




Setjið næst lag af niðursneiddum kúrbít, mozzarella-osti og kjötbollum og svo annað lag af pastarenningum. Penslið með eggjablöndunni.




Setjið að lokum síðasta lagið af pastanu og fellið svo yfir pastarenningana sem stóðu út af til að loka kökunni alveg. Penslið með eggjablöndunni.


Setjið lokið á og bakið í 180 gráðu heitum ofni í 45-55 mínútur. Takið svo lokið af og bakið áfram í 10 mínútur. Takið réttinn úr ofninum og látið standa í 15 mínútur til að kólna áður en reynt er að snúa pottinum og losa pastakökuna (il timpano) úr pottinum.


Njótið með góðu salati.

No comments:

Post a Comment