Wednesday 30 March 2011

Stórgott ofngrillað lambalæri með heimagerðu pestó og rauðumpiparkornum, ofnsteiktu rótargrænmeti og rauðvínsdreitli



lambalæri

Þennan rétt gerði ég seinasta laugardagskvöld. Ætlaði auðvitað að vera búinn að gera skil á þessu fyrr en stundum nær frestunaráráttan tökum á manni, það er nú bara þannig. Það var góð stemming um helgina hérna í Lundi, þrátt fyrir kuldakastið, þá var næstum heiðskýrt - og það vakti vonina um að vorið væri á næsta leiti. Við brugðum okkur niður í bæ og reyndum að ganga sólarmegin í tilverunni. Nokkur smáblóm voru byrjuð að stinga sér upp út jörðinni og blómstra og bærinn iðaði af lífi.

Það kom okkur skemmtilega á óvart að læknanemar í Lundi voru að frumsýna sitt Toddyspets - sem er árleg skemmtun sem hefur verið haldin í hávegum síðan fyrir meira en 100 árum síðan. Þetta er uppákoma hérna í Lundi og þá standa stúdentar fyrir ýmsum kjánagangi, leiki fyrir börn, dreifa nammi, selja grínblað og síðan setja á svið sýningu um kvöldið sem ku vera ansi sniðug. Ég hef þó ekki ennþá gerst svo góður að fara á sýninguna en börnunum mínum fannst gaman að fylgjast með leikjunum og síðan mjög gaman að fá nammi.

Við komum við í Saluhallen og ég spjallaði við kunningja mína hjá slátraranum, Holmgrens. Festi kaup á þetta pínulitla lambalæri, það minnsta sem ég hef eldað, vó 1675 gr. Það var allaveganna ekki sem verst - við vorum ekki mörg í mat. Og það var meira að segja afgangur! Jæja...best að vinda sér í uppskriftina.

Stórgott ofngrillað lambalæri með heimagerðu pestó og rauðum piparkornum, ofnsteiktu rótargrænmeti og rauðvínsdreitli

Ég bjó nýverið til hefðbundið pestó sem ég notaði með pastarétt í seinustu viku. Ég hafði gert aðeins of mikið og því datt mér í hug að það væri hægt að nota afgangana á þennan máta. Drýgði þó aðeins með olíu svo ég gæti smurt lambalærið vel inn.

pestó

Að gera pestó er einfalt. Það má nánast nota hvaða grænu lauf sem er og eiginlega hvaða hnetur sem er. Ég hef gert pestó úr basilíku, steinselju, klettasalati, kóríander, líka úr blöndum þar sem ég hef blandað hinu og þessu saman - ma. notað smá rósmarín og timían - allt verður þetta þrusugott. Að nota ristaðar furuhnetur er líka klassíker, en það er ekkert sem bannar að nota t.d. valhnetur eða pekanhnetur. Einhvern tíma hef ég líka notað möndlur, nema hvað það varð ansi væmið. Í þetta sinn gerði ég hefðbundið pestó; notaði lauf af þremur basillíkuplöntum, handfylli af ristuðum furuhnetum, 70-100 gr af rifnum grana padano osti, salt og pipar og svo auðvitað jómfrúarolíu þangað til að maður er komið með þá þykkt sem maður sækist eftir - en það fer auðvitað bara eftir smekk.

DSC_0005

Fyrst skar ég 3-4 sellerístangir, 1 1/2 lauk, 2-3 gulrætur, nokkur hvítlauksrif, gróft niður og setti í botninn á ofnpottinum. Lambalærið var þvegið og síðan þurrkað og lagt í ofnpottinn. Salti og pipar nuddað inn í kjötið. Síðan var pestóinu smurt ríkulega á lærið og síðan nokkrum rauðum piparkornum dreift yfir. Setti síðan 2-3 rauðvínsglös, notaði Drostdy-Hof sem ég átti á búkollu inn í skáp og síðan jafnmikið af vatni. Síðan stakk ég hitamæli í kjötið, lokið á og setti í 100 gráðu heitan ofn og eldaði þar til að kjarnhitinn var 65 gráður. Þá var lambið tekið út og látið hvíla í 20-30 mínútur á meðan sósan var útbúin. Á meðan var kveikt á grillinu á ofninum og rétt áður en allt var tilbúið var smávegis af salti stráð á lambalærið og það grillað í eitt augnablik undir grillinu.

steikjagrænmeti

Sósan var leikur einn. Gerði smjörbollu, 30 gr af smjöri hitað í potti, síðan 30 gr af hveiti og hrært saman. Smjörbollan tryggir að sósan verði þykk og gljáandi. Síðan hellti ég soðinu af lambinu í gegnum sigti og síðan hræði ég síaða soðið saman við smjörbolluna. Bætti við smá salti og pipar og hnífsoddi af rifsberjasultu og hrærði. Woila!

steiktgrænmeti

Með matnum bárum við fram ofnsteiktar kartöflur og gulrætur sem var gerð eftir þeim reglum sem ég setti fram hérna á blogginu mínu fyrir skemmstu, sjá hérna. Ég hvet ykkur eindregið til að prófa þessa aðferð; flysja, forsjóða, skaka, sáldra hveiti saman við, steikja í heitri ofnskúffu með fitu af eigin vali og síðan baka þar til gullinbrúnt og dásamlega girnilegt! Við gerðum einnig einfalt salat með grænum laufum, smátt skornum rauðlauk, kúrbít, radísum.

lambalærimatur

Með matnum drukkum við vín sem við keyptum einnig í Bordershop þegar við renndum þar framhjá þegar við vorum á heimleið frá Austurríki. Gallo Sonoma County Cabernet Sauvignion frá því 2007. Þetta er vín frá Bandaríkjunum, Sonoma sýslu sem liggur rétt norðan við San Fransisco og er í grennd við Napadal sem margir þekkja. Við hjónin fórum þangað sumarið 2008 og skelltum okkur einn dag í vínsmökkunarferð um þessar slóðir. Góðar minningar. Þetta vín er ljómandi gott. Er dökkt í glasi, kraftmikill ilmur af dökkum ávöxtum, súkkulaði. Svipaðir tónar á tungu, eikað með kraftmikið eftirbragð. Sver sig í ætt við mörg önnur góð Cabernet Sauvignion vín - munnfyllir af öllu!

matur

Bon appetit!

2 comments:

  1. Páll Magnússon31 March 2011 at 00:12

    Sæll Ragnar Freyr!

    Hversu lengi ca. var lærið inni í ofninum áður en kjarnhitinn náði 65 gráðum?

    Bestu kveðjur,

    Páll Magnússon

    ReplyDelete
  2. Ragnar Freyr Ingvarsson31 March 2011 at 08:23

    Saell Pall

    Thetta var svo litid laeri ad thad tok heldur skamman tima - setti laerid inn um 17 leitid og tjad var tilbuid, grillad ad utan kl 1930. taepa 2 klukkutima myndi eg giska a.

    mbk, Ragnar

    ReplyDelete