Tuesday 1 March 2011

Alpablogg: Heil- og langeldaður grís með rótargrænmeti í frábærristemningu á afmælisdaginn




IMG_2442

Það er búið að vera lítið um að vera á bloggsíðunnni minni síðustu tólf daganna eins og lesendur hafa kannski tekið eftir. En það er ekki vegna þess að það hefur verið neitt letilíf á manni - aldeilis ekki! Eins og ég hef nefnt í síðustu færslum þá höfum við haft augun á Austurísku Ölpunum síðustliðna mánuði! Og hingað erum við nú loksins komin. Algerlega stórkostlegt. Við ókum af stað í fyrir rúmri viku, á fimmtudagseftirmiðdegi, strax eftir að vinnu lauk. Við dvöldum eina nótt í Wittstock - sem er smábær í Norður Þýskalandi - einna helst þekktur fyrir bardagann sem þar var háður 1636 þar sem Svíar börðust og sigruðu Þjóðverja. Hótelið sem við gistum á mun vera á sama stað og bardaginn var háður. Daginn eftir ókum við síðan sem leið lá - 900 km til St. Michael í Lungau héraði í Salzburgerland. Tveggja vikna skíðafrí framundan - er eitthvað betra?

Við erum búinn að vera að skíða núna í rúma viku, í Grosseck-Speiereck, Katchberg og Obertauern. Og það er búið að vera frábært. Við höfum fengið sól í fimm daga af sjö - en það hefur verið skítakuldi og rok! En samt frábært. Við höfum verið hérna með góðum vinum okkar, úr vinahópi sem hefur fengið nafnið The Fab 8, nema hvað! Tveir komust ekki vegna anna. Hérna var kollagar mínir frá Sviss, Skotlandi, Englandi, Þýskalandi og tveir frá Íslandi (núna Svíþjóð). Svo voru líka nokkrar vinafjölskyldur frá Lundi á hóteli í nágrenninu.

Ég hélt upp á 35 ára afmælið mitt á fimmtudaginn síðastliðinn. Það var alveg einstakur dagur frá upphafi til enda. Grísirnir mínir fóru í skíðaskólann um morguninn - og við hin tókum stefnuna á Obertauern. Við vorum kominn um klukkan tíu á skíðin og fórum hringinn, Tauernrunde, í glampandi sól og í frábærum félagsskap. Færið var frábært! Um kvöldið var síðan veisla á Skihotel Speiereck. Alveg einstök stemming. Myndin var tekin af undirrituðum áður en hann lagði af stað ásamt vinum sínum niður brekkurnar í Obertauern þann 24.febrúar 2011.

ragnarobertauern

Alpablogg: Heil- og langeldaður grís með rótargrænmeti í frábærri stemningu á afmælisdaginn

Það verður tekið fram að ég eldaði ekki neitt í þessari færslu - aðrir sáu um vinnuna. Ég tók ekki einu sinni tappann úr flöskunni, Harold vinur minn sá um það. Ég sat bara og naut veitinganna.

heilsteiktsvín

Núna vildi svo til að slátrarinn kunni nokkur orð í ensku og gat svarað spurningum mínum, en hann var mjög leyndardómsfullur og vildi lítið gefa upp hvernig grísinn var eldaður. Ég fékk uppgefið að grísinn væri lagður í léttan pækil (sem er blanda af vatni, salti, sykri í ákveðnum hlutföllum og oft bragðbættur með kryddjurtum). Síðan er grísinn eldaður við lágan hita í meira en sólarhring. Það þarf varla að geta sér til um en að grísinn verður allur lungamjúkur. Þannig að hver einasti biti hreinlega bráðnar í munni. Það er nánast svo að það finnst enginn munur á lund og kinn - allt hreinlega hefur eldast svo vel - namminamm.

svínskorið

Með matnum var svo borið fram ofnbakað rótargrænmeti, bragðbætt með timian og rósmarín. Einnig hafði Haddi kokkur útbúið Waldorf salat og síðan ljúffenga soðsósu.

svínakjöt

Þar sem ég átti afmæli hafði Haddi búið til Pavlóvu handa okkur - Pavlova er, jú, ein besta kaka sem hefur verið fundin upp. Haddi setti kiwi og jarðaber á kökuna og hún smakkaðist frábærlega. Ég hef oft gert hana sjálfur og gert skil á því á blogginu mínu, hérna er dæmi um pavlovugerð mína.

pavlova

Með matnum drukkum við eitt af mínum uppáhaldsvínum, RODA I Reserva 2005. Harold Köndgen, svissneski vinur okkar og kollegi, er mikil vínunnandi og hann kynnti mig fyrir þessu víni þegar við kynntumst í Portúgal fyrir fjórum árum síðan. Hann er vínáhugamaður fram í fingurgóma og var mjög ánægður þegar hann sá þetta vín í hillum ÁTVR - sérstaklega var hann, á þeim tíma, ánægður með verðið. Vegna reglna um álagningu á áfengi eru dýr vín oft ódýrari en erlendis. Hann keypti 2-3 flöskur sem við nutum saman.

RODA

Þetta er kraftmikið vín. Mikið af dökkum berjum, kannski kirsuberjum, jafnvel dökku súkkulaði og svo munnfylli af eik. Dvelur lengi á tungu með ljúfu eftirbragði. Vínið er unnið úr 100 prósent Tempranillo þrúgum af framleiðendum sem eiga sér ekki langa sögu, hófu víngerð í upphafi níunda áratugarins. Samt eru þetta margverðlaunuð vín, kannski ekki að undra þegar maður les manifesto framleiðendanna, þeirra Mario og Carmen - http://www.roda.es/english/index.html. Það má deila um það hvort að svona vín passi vel við heilsteiktan grís. Sitt sýnist hverjum. Stemmingin á hótelinu var alltént frábær og það var á hreinu allt var þetta hreinasta afbragð. Það var spjallað, hlegið og drukkið fram eftir kvöldi.

Mæli með því að þið kíkið í heimsókn - það er venja að bjóða upp á heilsteiktan grís á miðvikudagskvöldum á Skihótel Speiereck. Við eru svo heppinn að fá að njóta þess tvisvar - þar sem við verðum hérna svo lengi.

hotelmynd

Bon appetit.


No comments:

Post a Comment