Friday 30 March 2018

Penne með Ragú alla Bolognese - Friðheimaútgáfan fyrir tuttuguogfimm - með alvöru tómtöum


Okkur fjölskyldunni var boðið með í Páskahúsið í ár. Einhver kann að spyrja sig hvað eða hvar það er, en að fara í páskahúsið er hefð í fjölskyldu kærustu tengdaföður míns. Húsið sjálft er staðsett í Leirársveitinni.. Þar hafa systurnar Dórótea, Helga og Margrét hist árlega síðustu tvo áratugi með mökum, börnum og barnabörnum. Þetta er helgi mikilla vellystinga og vel gert við sig í mat og drykk.

Ragú alla bolognese er matur sem getur bæði verið hvunndags og einnig veislumatur. Þegar verið er að elda fyrir marga þá er kjörið að gera kássu - en hún verður auðvitað að standa undir nafni.
Þannig að auðvitað komu eingöngu frábær hráefni til greina.

Verkefnum er deilt á milli fjölskyldumeðlima. Við hjónin tókum að okkur að gera Ragú alla bologense og ekki bara hvaða kássu sem er. Í þetta sinn duttum við í lukkupottinn og fengum helling af tómötum frá Friðheimum. Og þeir eru ljúffengir.



Knútur sonur Dóróteu er, ásamt Helenu eiginkonu sinni, eigandi Friðheima sem flestir landsmenn þekkja vel. Þau hafa framleitt tómata síðustu 23 árin við ákaflega góðan orðstýr og hafa vaxið eftir því. Fyrir um 10 árum opnuðu þau dyr sínar fyrir ferðamönnum; fyrsta árið komu 900 ferðamenn í heimsókn að kynna sér tómataræktunina. Það er óhætt að segja að þau hjónin og börnin þeirra fimm hafa slegið rækilega í gegn - en í fyrra sóttu tæplega 160 þúsund gestir þau heim. Þar er þeim sýnd ræktunin og svo fá þeir að gæða sér á framleiðslunni á veitingastaðnum sem er innan um tómataplönturnar.

Ég hef komið í Friðheima nokkrum sinnum og notið veitinganna sem þar eru reiddar fram. Svo tókum við þar upp einn þátt síðastliðið sumar sem sýndir voru á ÍNNtv. Knútur er mjög ánægður með þessa mynd sem fylgir youtube myndbandinu.


Penne með Ragú alla Bolognese - Friðheimaútgáfan fyrir tuttuguogfimm - með alvöru tómötum

2,5 kg nautahakk
3 kg tómatar
1 rauður laukur
5 gulrætur
4 sellerístangir
5 msk jómfrúarolía
6 msk tómatpúre
2 flöskur rauðvín
1 l vatn
30 ml nautakraftur
5 lárviðarlauf
5 greinar rósmarín
5 greinar oregano
4 greinar timjan
1 pakki fersk steinselja
4 msk kakóduft
1 planta af fersku basil
salt og pipar

2,5 kg af pasta
Nóg af parmaosti
Góð jómfrúarolía


Ég byrjaði á því að steikja niðurskornar gulrætur, lauk, sellerí og hvítlauk í jómfrúarolíu í nokkrar mínútur. Saltaði svo og pipraði. Ágætt er að setja lárviðarlaufin strax saman við. 

Settti svo grænmetið til hliðar og brúnaði kjötið. Gæta þarf þess að setja ekki of mikið í einu - við viljum steikja nautahakkið - ekki sjóða það!


Helena kom með nóg af tómötum í réttinn. Þeir eru sætir og safaríkir.


Ég skar þá bara gróflega niður og setti þá pottinn. Þeir munu leysast upp að mestu við eldunina.


Ég setti tvær rauðvín, frá Bardolínó sem er við Gardavatnið - ágætis borðvín. Sauð upp vínið í nokkrar mínútur áður en ég setti vatn og nautakraft útí. Saltaði og pipraði.


Setti síðan ferskar kryddjurtir útí pottinn. Almennt hefði ég bundið þetta upp í vöndul en ég átti ekki neitt band. Þannig að það varð bara veiða upp greinarnar áður en maturinn var borinn fram. 


Auk tómatanna og rauðvínsins þá var þetta eitt af leynivopnunum. Að setja smá súkkulaði saman við - með því bætir maður bæði dýpt og fyllingu - án þess þó að maturinn fái keim af súkkulaði. 

Svo er bara að láta kássuna krauma við lágan hita í tvær klukkustundir eða svo og leyfa brögðunum að kynnast og taka sig.

Loks er bara að sjóða vatn í stórum potti - sjóða pastað eftir leiðbeiningum þangað til að það er al dente - aðeins undir tönn.


Með matnum naut ég þessa víns - Masi Brolo Campofiorin Oro frá því 2013. Þeir sem sáu fyrri Ítalíu-þáttinn á Sjónvarpi Símans Premium, vita að ég heimsótti Masi í Veróna og fékk að kynnast forstjóranum Sandro og syni hans Raffele. Mér fannst vínin þeirra góð fyrir en eftir að hafa heimsótt fjölskylduna og notið einstakrar gestrisni þeirra, þykir mér líka vænt um þessi vín. Þetta vín er frábrugðið venjulega Campofiorin að því leyti að þetta vín hefur Oseleta þrúguna - sem er staðbundin þrúga sem hefur verið ræktuð frá því á tímum Rómverja. Hún féll í gleymsku þangað til að Sandro fann hana þegar hann var í heimsókn hjá vínbónda nokkrum. Síðan þá hefur hann unnið að því að rækta hana upp aftur og kynna hana aftur fyrir heiminum.


Þetta var einstaklega vel heppnuð máltíð.

Verði ykkur að góðu!

No comments:

Post a Comment