Saturday 21 May 2016

Ljúffeng kjúklingaspjót með ananas, papríku og einfaldri ananasraitu


Ég er fullur tilhlökkunar. Í næstu viku verð ég á faraldsfæti, en þá mun ég bregða mér aftur til Íslands í tengslum við Foodloose ráðstefnuna sem verður í Hörpunni næstkomandi fimmtudag, þann 26. maí. Að ráðstefnunni lokinni munum við Tommi, útgefandinn minn, standa við grillið og bjóða ráðstefnugestum upp á grillað ljúfmeti og brjóstbirtu. Á föstudeginum verð ég með námskeiði í paleo/lágkolvetna-matargerð ásamt ráðstefnuhöldurum og nokkrum fyrirlesurum. Það á eftir að verða alveg meiriháttar - ég er alveg sannfærður um það! 

Á sama tíma mun ég einnig fá húsið sem við vorum að kaupa afhent. Það verður þann 1. júní. Húsið er í ljómandi góðu standi, á góðum stað í Reykjavík, í Ártúnsholtinu. Ég ætla ekki að breyta miklu en auðvitað þarf ég að breyta eldhúsinu eftir mínum þörfum. Ég mun að sjálfsögðu greina frá því á blogginu. Það verður líka spennandi verkefni. Eins og marga væntanlega grunar, þá er eldhúsið uppáhalds herbergið mitt í öllum húsum. Þar er kjarni og hjarta heimilisins. 

Þessi færsla birtist í Fréttatímanum í morgun - smá leiðrétting - í fyrirsögn stendur mangósósu - en á að vera ananasraitu, sem fylgir í uppskriftinni. 

Ljúffeng kjúklingaspjót með ananas, papríku og einfaldri ananasraitu


Það er svo merkilegt, að þegar maður sökkvir sér niður í eitthvað viðfangsefni, þá er eins og fjöldi dyra opnist fyrir manni. Ég hef síðastliðinn áratug verið fremur duglegur við að grilla - bara svona eins og margir. En þegar við ákváðum að gera þessa grillbók mína, sökkti ég mér ennþá meira í lestur og tilraunir með grillið. Og það er ljóst að það er hægt að grilla hvað sem er. Meira að segja ávexti. 


Fyrir sex

1,2 kg kjúklingabringur
5/6 hluti af ferskum ananas (afgangurinn fer í sósuna)
3 papríkur
1 rauður chili
4 msk jómfrúarolía
salt og pipar
1/2 poki blandað salat
250 g kirsuberjatómatar

Fyrir ananassósu

300 ml jógúrt
1/6 hluti af ananasinum (það sem eftir er af honum)
1 msk hlynsíróp
1/2 rauður chili
2 msk jómfrúarolía
handfylli ferskur kóríander
salt og pipar





Það er sennilega rétt að byrja á því að gera sósuna. Hún þarf klukkustund til að öll bragðefnin nái að taka sig almennilega. Og hún er eins einföld og hægt er að hugsa sér. Fyrirmyndin er indverska sósan raita sem oftast er gerð með hvítlauk og gúrku, en það er auðvitað hægt að setja hvað sem er í sósuna. Eins og til dæmis því sem ég sting upp á í dag - ananas.

Setjið jógúrtina skál, skerið ananasinn niður smátt og hrærið saman við ásamt smáttskornum chili. Hræið jómfrúarolíunni saman við og saltið og piprið eftir smekk. Látið standa í kæli á meðan þið útbúið og grillið kjúklingaspjótin. Skreytið svo með ferskum kóríander áður en sósan er borin á borð (það má líka hakka smá kóríander saman við sósuna en á mínu heimili eru deildar meiningar um kóríander þannig að því er bætt við eftir þörfum hvers og eins).


Skerið kjúklingabringurnar í bita, sem og ananasinn, ásamt papríkunum, og þræðið upp á grillspjót (séu viðarspjót notuð þarf að bleyta þau í klukkustund áður svo ekki kvikni í þeim við eldamennskuna). Penslið með jómfrúarolíu, sáldrið smátt skornum chilli yfir og saltið og piprið. 


Svona yfirlitsmyndir eru ekkert annað en listaverk.


Og ekki er þessi síðri! :)


Hellið salatinu á trébretti (eða disk), skerið tómatana í tvennt og dreifið yfir. Sáldrið smá jómfrúarolíu yfir og saltið og piprið. 

Leggið svo kjúklingaspjótin á salatið og berið á borð. 

Njótið! Fram í fingurgóma! 

Margar aðrar ljúffengar uppskriftir er að finna í bókinni minni - Læknirinn í Eldhúsinu - Grillveislan

No comments:

Post a Comment