Thursday 2 January 2014

Nýtt á gömlum meiði - gratineruð humarsúpa og klassískur ofngrillaður humar

Þetta voru sérlega skemmtileg áramót. Við buðum útgefendum bókarinnar minnar til áramótaveislu! Við fengum líka að kynnast frábærum ættingjum þeirra hjóna. Þetta var stórskemmtilegt kvöld! Fljótlega eftir miðnætti leystist þetta upp í allsherjar partí þar sem dansað var langt fram á nótt!

Það er alltaf gaman að kynnast nýju fólki - við fengum í heimsókn foreldra Önnu Margrétar - Marínó og Önnu. Og svo var systir Önnu, Hrönn, og fjölskylda hennar með í för - Þröstur og dætur þeirra Hlökk, Mist og Anna. Ég sá ekki betur en að þau hafi öll skemmt sér afar vel frameftir nóttu. 

Við gerðum okkar besta að skjóta upp flugeldum en það kemst bara í hálfkvisti (réttara sagt brotabrot) af því sem viðgengst í Reykjavík. Við vorum með nokkrar tertur og rakettur - þannig að við gerðum okkar besta. Nágrannar okkar voru líka með smávegis til að leggja í púkkið þannig að fyrir ofan húsið okkar var nokkra mínútna fjör! 

Annars biðst ég afsökunar á þessari færslu - ætti auðvitað að vera með einhverja "heilsurétti" núna þegar nýtt ár er gengið í garð og kannski það verði úr þegar líður aðeins á mánuðinn. 

Nýtt á gömlum meiði - gratineruð humarsúpa og klassískur ofngrillaður humar

Við elduðum eins og oft áður humar! Það er fátt betra en íslenskur humar. Marínó hafið bjargað þessu áður en að þau komu til Svíþjóðar þannig að við vorum með nóg fyrir alla. Nokkrir humarhalar voru meira eins og humarbrot þannig að við ákváðum að reyna að gera úr honum einhverja nýjung og bregða út af vananum, þar sem við erum oftast með ofngrillaðan humar á svona hátíðarstundum. 

Innihaldslýsing - fyrir 18 gesti

Fyrir ofnristaða humarhala

36 stórir humarhalar
heimagerð hvítlauksolía
50 gr smjör
1 sítróna
salt og pipar 

Fyrir gratínerða humarsúpu

40 smáir humarhalar
2 gulrætur
2 skarlottulaukar
2 sellerísstangir
2 hvítlauksgeirar
50 ml madeira
250 ml hvítvín
400 ml vatn
salt og pipar
300 ml rjómi
300 gr af blönduðum osti



Fyrst gerðum við humarsoðið. Steiktum grænmetið, laukinn, hvítlaukinn, selleríið og gulræturnar í smjöri. Söltuðum vel og pipruðum. Þegar grænmetið var orðið mjúkt setti ég skeljarnar á pönnuna og steikti með grænmetinu. Síðan setti ég skvettu af Madeira víni - kannski 50 ml og sauð upp áfengið. Svo hvítvínið og sauð áfengið upp áður en ég bætti við vatni. Hitað að suðu, saltað og piprað og látið krauma. Soðið var svo síað og rjóma blandað saman við. Hitað að suðu. Smakkað til með salti og pipar. 


Humarnum var síðan raðað í lítil eldföst mót.


Súpunni hellt yfir.


Og svo tvær matskeiðar af rifnum osti ofan á. Bakað í forhituðum 180 gráðu heitum ofni í 20 mínútur þangað til að osturinn varð gullinnbrúnn og súpan farin að bubbla!


Gerðum líka humarhala með hefðbundnu sniði - ég hef oft bloggað um slíkt áður - sjá hérna! Gat þó ekki setið á mér að láta eina ljósmynd fylgja með. Ásamt því að smyrja humarinn ríkulega með hvítlauksolíu setti ég líka smjör sem ég hafði rifið niður og lagt yfir.


Ofan á humarinn settum við síðan hvítlaukssósu og bárum fram með því brauð sem við höfðum penslað með hvítlauksolíu og bakað í vöfflujárni. Ögn af hvítlaukssalti stráð yfir.


Með matnum nutum við ólíkra vína en meðal annars þessa - Baron de Lay Tres Vinas Blanco Reserva frá því 2008. Þetta er ljómandi gott hvítvín - heldur þurrt með ágæta sýru. Ávaxtaríkt á tungu!


Ég sá ekki betur en að gestirnir voru ánægðir með humarinn! 

Skáluðum fyrir nýju ári með Veuve Clicquot Ponsardin Brut - sem alla jafna gengur undir nafninu Gula ekkjan og er eitt af mínum uppáhalds kampavínum! Og þetta er í annað sinn í vetur sem ég toga tappa úr svona flösku!  Þetta kampavín á sér langa sögu. Fyrirtækið var stofnsett 1772 af Philippe Clicquot en þegar hann lést 1805 tók eiginkona hans, Barbe-Nicol Ponsardin, yfir reksturinn og einbeitti sér helst að kampavínsframleiðslunni.

Þá vil ég að lokum þakka sérstaklega fyrir mig - fyrir þann áhuga sem lesendur sýna uppátækjum mínum í eldhúsinu bæði á blogginu mínu, á Facebook og síðast en ekki síst þær frábæru móttökur sem bókin mín fékk núna fyrir jólin! 

Það er bjart framundan - er byrjaður að vinna að bók númer tvö og svo eru sjónvarpsþættir í farvatninu og verða sýndir þegar nær dregur vori á Skjá einum! 



Tími til að njóta!



No comments:

Post a Comment