Tuesday 20 July 2010

Þrír gómsætir forréttir í aðalrétt: Reyktur þorskhnakki, grænskel ogrisarækjur – fiskiveisla á grillinu



Stundum finnst mér forréttir hreinlega bestir. Litlir skammtar af einhverju góðgæti og stundum er gott að fá nokkra litla forrétti til að æsa upp bragðlaukana. Það sem mér finnst best við að fara út að borða er að þegar maður fær að njóta marga lítilla rétta. Sumir eru rétt nógu stórir til að botnfylla kaffibolla og aðrir rétt þekja eina matskeið. Þetta er kannski ekki besta leiðin til að borða sig saddan. En sennilega er þetta er besta leiðin til að njóta margra ólíka áhrifa og kynnast ólíku hráefni. Við ákváðum um daginn að í staðinn fyrir að gera aðalrétt væri að gera nokkra litla rétti. Þetta reyndist hin ljúfasta máltíð og ekki slæm leið til að verja fallegu sumarkvöldi.

Þrír gómsætir forréttir í aðalrétt: Reyktur þorskhnakki, grænskel og risarækjur – fiskiveisla á grillinu


thorskhnakkiisalti


Hráefnalisti

Þorskhnakki
1 bolli gróft salt
10 greinar sítrónutimían
Eplaviðarspæni

Sósa:

Creme fraiche
1 tsk sætt sinnep
Raspaður hvítlaukur
Salt og pipar

Kræklingur
1 rauðlaukur 
Hvítvinsedik
Jómfrúarolíu
Ferskur sítrónusafi
Salt og pipar

Risarækjur
Smjör
1-2 hvítlauksrif
1 rautt chilli
Limesafa,
Skvetta af hvítvíni,
Salt og pipar. 


Ég keypti íslenskan þorskhnakka af fiskibílnum nýverið, þykk og falleg stykki. Þeir lofa mér að fiskurinn sé frystur úti á sjó og ég er farinn að trúa þeim því þegar hann hefur þiðnað verkar hann ferskur og lyktar vel. En frosin fiskur er aldrei jafngóður og ferskur – en svona málamiðlanir verður maður að lifa við þegar maður býr ekki á Íslandi og nokkra kílómetra frá næstu höfn.

Þorskhnakkinn var settur í pækil með bolla af grófu salti og 10 greinum af sítrónu timian í 15 mín. Á meðan er kynnt upp í grillinu. Setti eplaviðarspæni í álpappirsvasa og stakk á hann nokkur göt. Álpokinn var svo settur beint á kolin og það leið ekki langur tími þangað til að það fór að koma heitur reykur. Fiskurinn var svo reyktur við í 20 mínútur þar til eldaður. Þá verður hann fallega hvítur að innan og tekur á sig mildan brúnan lit að utan. Borin fram með einfaldri sósu, creme fraiche, smá sætt sinnep og raspaður hvítlaukur, salt og pipar. Borðað með fingrunum.
IMG_2028


Síðan var ég með krækling – þessi var reyndar frá Nýja Sjálandi (hann fékk ég gefins frá bílnum þar sem ég var að versla þar í ummtánda skipti – venjulega reyni ég að forðast hráefni sem er fengið svona langt að). Þetta er alltént stór og mikill kræklingur – stærri en bláskelinn okkar – með stórum kraftmiklum krækling. Skelinn hefur á sér grænan blæ og gæti allt eins gengið undir nafninu grænskel. Hana bragðbætti ég með smáttskornum rauðlauk, smá hvítvinsediki, jómfrúarolíu, ferskum sítrónusafa, salti og pipar. Grilluð við háan hita í nokkrar mínútur. Borðuð nánast beint af grillinu.
IMG_2024


Síðast var ég með risarækjur – gambas. Þær steikti ég á hellunni hliðina á grillinu. Bræddi smjör á pönnunni. Þegar smjörið var hætt að freyða þá var hvítlaukur steiktur þangað til gljáandi, kannski teskeið af rauðu chilli og þá var rækjunum skellt saman við, síðan limesafa, skvettu af hvítvíni, salt og pipar. Sett í skál, vökvanum hellt yfir og borðað hið snarasta með fingrunum.
IMG_2031


06317

Við vorum með einfalt salat með matnum bara og síðan baguette og auðvitað hvítvínsopa. Það er eiginlega ekki hægt að vera með svona fiskiveislu án þess að njóta smá hvítvíns með henni. Sérstaklega þegar það er heitt í veðri og sólin er á lofti. Við vorum með Fleur de Cap Chardonnay frá því 2008. Þetta er vín sem ég keypti í Kaupinhöfn þegar við vorum á leiðinni þar í gegn. Það var á ansi góðu verði og því var kippt með nokkrum flöskum. Við höfum drukkið þetta vín nokkrum sinnum áður og verið mjög ánægð. Það var borið fram beint úr kælinum og þannig vilja nú delicatessurnar í víninu hverfa - en það er ávaxtaríkt og heldur þurrt. Ljúfengt með matnum.

No comments:

Post a Comment