Thursday 15 July 2010

Dásamleg grilluð dádýrslund úr Smálöndunum með jógúrtsósu, nýjum kartöflum, fersku salati

husid


Jæja ... Þá er maður kominn aftur heim til Svíþjóðar. Eins og kom fram í seinustu færslu þá vorum við á Íslandi í lok síðasta mánaðar og svo þegar heim var komið fórum við til Danmerkur þar sem við vorum í tæpar tvær vikur. Þar var ég að vinna smávegis aukavinnu á heilsugæslustöð og gat verið búinn að vinna rétt eftir hádegi þannig að þetta var ekki bara henni heldur jafnvel smávegis frí. Veðrið var ljómandi, sól í himni, við fórum í gönguferðir, elduðum góðan mat (marga jafnvel blogghæfa rétti) og ferðuðumst um svæðið. Virkilega indælt. Eigum kannski eftir að snúa þangað aftur einhvern tíma - hver veit?

Við komum heim á föstudaginn var og tókum því rólega í húsinu okkar í Púkagrandanum. Elduðum íslenskan steinbít með grænmetisspjótum og hrísgrjónum og sátum að spjalli fram eftir kvöldi á pallinum. Það er og var heitt - og á svona dögum er erfitt að sofa, þrátt fyrir viftur og létt klæði. Þetta eru góðir dagar og oft langar nætur. En það er varla hægt að kvarta. Það að kvarta yfir sól og hita á fallegu sumri er eins og að kvarta um að fætur manns séu of stórir fyrir demantsskóna sína - svoleiðis gerir maður bara ekki.
bustadursmal0nd


22. maí síðastliðinn var haldin veisla í götunni okkar og allir tóku þátt. Þar kynntumst við mikið af góðu fólki og meðal annars þeim ágætu hjónum, Gustav og Ulriku Brogren sem búa í húsi númer 20. Þau eiga fallegt sumarhús sem liggur rétt fyrir utan Bellö. Húsið er klassískt sænskt sumarhús málað með falurauðum lit með hvítum gluggum og liggur í hlíð sem lútir niður að vatninu. Karlpeningurinn gerði heiðarlega tilraun til að veiða villisvín, sáum dádýr, grísamömmu með unga og vorum bitnir nærri til ólífis af mýinu á svæðinu - ég áætla að ég hafi verið bitin 100-120 sinnum - og einna mest í hælana.

Áður en við fórum á veiðar buðu hjónin upp á þennan frábæra mat. Ég gerði ekkert annað en að standa vörð um grillið - heiðurinn af matseldinni á hún Ulrika og hvílíkur snilldarkokkur. Gustav hafði veitt dýrið seint um haustið í fyrra og maturinn var stórkostlegur.

Dásamleg grilluð dádýrslund úr Smálöndunum með jógúrtsósu, nýjum kartöflum og fersku salati


agrillinu

Þetta var ekki hefðbundinn sænsk matseld. Heldur með austurlensku ívafi með áhrifum frá Miðjarðarhafinu. Sannkölluð samsuðumáltið - fusion. Sem mér finnst oft vera alveg meiriháttar. Að fanga það sem manni finnst best úr einni matarmenningu og reyna að para það saman við eitthvað annað úr annarri átt. Auðvitað getur slíkt mislukkast - en ekki þetta skiptið - nei ... alls ekki!

Dádýrslundin var marineruð í 50 ml olíu, 2-3 msk af góðu hunangi, 50 ml af japanskri soyasósu, 3 hvítlauksrifjum, salti og pipar og nokkrum greinum af timian. Þetta fékk að standa í ísskáp góðan part úr degi.

Með matnum var gerð raita - sem er jú ættuð frá Indlandi - en líkar jógúrtsósur finnast einnig við Miðjarðarhafið. Fyrst var agúrka rifin niður og síðan sett í kaffipoka og látin standa þannig að vökvin lak af henni. Þá var jógúrt sett í skál, smávegis af hvítlauk, salt, pipar, smá sykur og svo auðvitað agúrkan.

Með matnum var borið fram salat. Grænlauf, margar gerðir af smáum tómötum, gulir, rauðir og grænir, einnig soðnar og kældar strengjabaunir, spergilkál.

Með matnum fengu dömurnar sér kalt rósavín úr búkollu en við herrarnir þurftum að staldra við þurrbrjósta um stund þar sem við hugðumst leggja stund á skotveiðar. Það er jú það eina sem mér finnst stangveiði hafa umfram skotveiði - öldósin í annarari og veiðarfærið í hinni - það má alls ekki þegar skotvopn eru um hönd.
matur

Bon appetit!

1 comment:

  1. Mmmm, ekkert smá girnilegt :o)
    Á einmitt hreindýralundir sem þarf að borða áður en við förum út, kannski ég prófi þessa uppskrift :o)

    Jújú, kvartaðu bara yfir hitanum, fær mig bara til að hlakka enn meira til að koma.... gámurinn fer frá fróninu eftir nokkra daga!

    kv. Ýr verðandi "Lundi"

    ReplyDelete