Tuesday 27 July 2010

Langeldaður lambaframpartur með ferskum hvítlauk og rósmarín ogsplunkunýjum hvítum strengjabaunum


Við höfum verið svo heppin upp á síðkastið að njóta þess að vera með góða gesti. Mér finnst það alveg ljómandi þegar húsið iðar af lífi. Mamma mín var hjá okkur í rúma viku nýverið og við gerðum okkar besta að dekra við hana í mat og drykk. Hún saknar barnabarnanna sinna mikið og þau hennar - það var virkilega gott að hafa mömmu í heimsókn þessa rúmu viku. Daginn sem hún fór kom mágkona mín og fjölskyldan hennar í heimsókn og verða hjá okkur næstu daganna. Við eigum síðan von á fleiri góðum gestum frá Íslandi og svo einnig kollegum frá Evrópu. Það verður nóg að gera! Þegar svona mikið er um að vera á heimilinu er auðvitað mikið um að vera í eldhúsinu. Um helgina gerði ég rétt sem ég fékk fyrst hjá Vigdísi Hrefnu og Bassa, vinum okkar, þegar við vorum í heimsókn á Fróni. Það er erfitt að segja það, en þau gerðu besta lambakjötsrétt sem ég hef nokkru sinni smakkað. Og fyrir mig er þetta munnfyllir að segja - þau toppuðu lambalærið mitt og mömmu sem mér hefur hingað til þótt það allra besta sem ég smakkað (hógvær að venju!). Rétturinn hennar var innblásinn af Jamie Oliver, úr bók hans Jamie at home. Sú bók er eiginlega það besta sem hann hefur gefið út síðan að hann gaf út sína fyrstu bók - The Naked Chef. Þetta er engin uppskrift sem Jamie Oliver fann upp á - því fer fjarri. Þetta er fræg aðferð og finnst í ýmsum útgáfum í flestum löndum Evrópu og norðanverðri Afríku. Síðan að ég fékk þetta hjá Viggu og Bassa þá hef ég rekist á þetta í mörgum matreiðslubókum - einkennilegt að ég hafði ekki rekið nefið í þetta áður!


Ég sá þennan fallega nýupptekna hvítlauk á markaðnum um morguninn og þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um að nota hann í stað þurrkaðra rifja. Nýjan hvítlauk má nota eins og alla lauka, hann er mildari og ekki næstum eins hvass eins og hinn þurrkaði - en hvítlauksbragðið leynir sér ekki.

Langeldaður lambaframpartur með ferskum hvítlauk og rósmarín og splunkunýjum hvítum strengjabaunumÉg hafði hringt í Holmgren slátrara og lagt inn pöntun fyrir frampartinum - mér fannst það öruggara. Hann átti þetta auðvitað til. Þegar ég kom á staðinn sýndi hann mér hvað hann átti af bitum og þá kom hann fram með heilan frampart – hægri og vinstri. Ég bað hann um að hluta hann niður og taka hálsinn af þannig að skepnan kæmist inní ofninn hjá mér.Fyrst hellti ég nokkrum matskeiðum af olíu í botninn, síðan dreifði ég ferskum lárviðarlaufum, 7-8 rósmaríngreinum, reif í sundur 2 ferska hvítlauka, salt, piparkorn. Frampartarnir voru síðan nuddaðir með olíu, salti og pipar og síðan lagðir á ofnfatið. Fleiri hvítlauksrifjum var svo dreift yfir ásamt fleiri rósmaríngreinum. Fatinu var síðan pakkað þétt inn í álpappír þannig að hann var vel lokaður. Ofninn hafði verið hitaður í fullan hita en síðan lækkaður niður í 160-170 gráður þegar kjötið var sett inn. Þarna fékk steikin að eldast í rúmar fjórar klukkustundir.Kjartan, bróðir minn, tók að sér sósugerðina og var aðferð Ragnars Blöndal kokks, sem við kynntumst við undirbúning afmælis foreldra minna, höfð til hliðsjónar. Sveppir voru skornir í teninga, kannski 300 gr af sveppum, sem voru síðan steiktir í 50-60 gr af smjöri. Fyrst gáfu sveppirnir frá sér vökva sem síðan gufaði upp og þá byrjuðu sveppirnir að ristast í smjörinu. Saltað aðeins og piprað. Síðan var bætt við lambasoði og matreiðslurjóma og soðið við lágan hita í klukkustund. Auðvitað var öllum vökva af kjötinu bætt í sósuna. Niðurstaðan var kraftmikil og góð sveppasósa með talsverðu bragði af rósmaríni - enda engu til sparað með rósmarínið á kjötið.

Það er alltaf markaður á Martenstorgi á laugardögum (kannski öðrum dögum líka). Þar er hægt að fá ferskt grænmeti frá bændum í nálægum sveitum. Á milli Lundar og Dalby er falleg Gårdsbutik (bændabúð) sem er líka með sölubás á torginu. Ég keypti nýjar sænskar vaxbaunir – sem eru í raun eins og hvítar strengjabaunir.  Snædís fékk að sjá um þær. Steikti þær þangað til mjúkar í hvítlauksolíu og smá hvítvíni.
Með matnum vorum við með Peter Lehmann Shiraz frá því 2008. Lehmann vínin eru frá Ástralíu og hef ég oft haft þau á borðum eins og færslur mínar bera vitni um. Þetta ástralska Shiraz er kraftmikið vín, þó ekki eins „full bodied“ og Cabernet Sauvignion. Aðeins kryddað, dökkt á litinn, þykkt og blómkennt, sem hefur fengið góðar mótttökur af víndómurum víða. Ég var mjög ánægður.Um matinn er þetta að segja; Hann var alveg ótrúlega góður - þó að ég segi sjálfur frá. Kjötið var svo meyrt að það féll algerlega áreynslulaust af beinunum. Hnífurinn var alveg óþarfur - bara svona meira til skrauts. Kjötið var svo meyrt að það bráðnaði í munninum, milt lambakjötsbragð (ekki eins villt á bragðið og íslenskt lambakjöt) með ljúfum hvítlauks og rósmarín keim. Hvet alla til að prófa þessa uppskrift - framparturinn hefur verið vanræktur af mér (og kannski fleirum) en ekki lengur. Þessi réttur er "instant klassíker".

Bon appetit!

1 comment:

  1. Pistlarnir þínir eru frábærir - takk fyrir að deila með okkur! Ástríða þín á matargerð skín skært í gegnum pistlana! Þetta er með því betra sem maður les um matargerð á íslensku!

    ReplyDelete