Wednesday 28 February 2018

Steik og Garúnarbaka heimsótt á nýjan leik - nú með breyttu sniði


Steik og Guinness baka er líklega ein besta baka sem gerð hefur verið. En samt er það svo að eiginlega flestir nautnaseggir hafa einhvern tíma pantað sér þessa böku á ferðalögum sínum til Englands og verið ýmist ánægðir eða sviknir með gæðin á þessari böku á þeim knæpum sem þeir hafa setið á. Enda er hún algerlega háð þeim hráefnum sem notuð eru og hvernig hún er elduð. 

Á deig að vera í botninum, á ekki að nota alvöru guinness, má nota eitthvað annað, hvað má nota? Þetta eru spurningarnar sem brenna á nautnaseggjum  alltént mér sjálfum. Í fyrra gerði ég atlögu að þessari böku í þáttum sem ég var með á ÍNN á meðan sú stöð var og hét. Þá kallaði ég hana Surtböku og notaði íslenskt lambakjöt, bjór og rótargrænmeti. Og sú var vel lukkuð. Hægt er að sjá allt um hana hérna

Í þessari uppskrift er notuð Garún - sem ljúffengur íslenskur stout sem er þó aðeins léttari en íslenskri Surturinn sem er ansi kynngimagnaður. Í þessari atrennu er svo rétturinn aðskilinn að vissu leiti þannig að kássan og smjördeigið er eldað sér og svo sameinað á diskinum í lokin. Hvort er síðan rétta leiðin verður hver og einn að gera upp við sig! 

Þennan rétt ákvað ég að hafa á afmæli mínu núna um helgina og var svo sannarlega ekki svikinn! Og ég valdi auðvitað að halda upp á daginn í sumarbústað fjölskyldunnar!

Steik og Garúnarbaka heimsótt á nýjan leik - nú með breyttu sniði

Fyrir 68

Hráefnalisti

1,5 kg nautaframpartur
2 gulrætur
1 stór rauðlaukur
2 sellerístangir
3 -5 hvítlaukrif
3 lárviðarlauf
4-5 msk hveiti
1 tsk hvítlaukssalt
3 msk jómfrúarolía
50 g smjör
500 g kastaníusveppir
1 bouquet garni  2 rósmarín greinar, 2-3 timjan greinar, steinseljustangir
3 flöskur Garún icelandic stout
500 ml nautasoð
3-4 msk worscherstershire sósa
salt og pipar
600 g smjördeig

500 g baunir 
1 l af kjúklingasoði
100 g smjör
salt og pipar



Skerið grænmetið niður gróflega og steikið í olíu ásamt lárviðarlaufum. Gleymið ekki að salta og pipra. Þegar grænmetið er mjúkt og ilmandi setjið það til hliðar.


Skolið og þerrið kjötið vandlega. 


Fáið verðandi ninju til að skera niður kjötið í 2x2 cm stóra bita. 


Veltið kjötinu upp úr hveiti og hvítlaukssalti.


Brúnið kjötið svo að utan í smjöri. 


Brúnið þangað til að kjötið er orðið fallega brúnt að utan og þið sjáið að það muni verða stórkostlega ljúffengt.


Hellið svo öllu kjötinu saman við ásamt öllu grænmetinu. Hellið svo bjórnum samanvið.


Svo nautasoðinu og sjóðið upp bjórinn.


Bætið svo sveppunum saman við kássuna.


Bætið svo bouqeut garni saman við kássuna. 


Setjið svo kássuna inn í ofn við 170 gráður í tvær og hálfa til þrjár klukkustundir. 


Þegar kássan er tilbúin - takið þið kryddjurtirnar frá. 


Kjötið er dásamlega ljúft og meyrt og dettur í sundur.


Það er um að gera að njóta ljúffengs rauðvínssopa með kássunni hafi maður klárað bjórinn með eldamennskunni eins og hætta er á. Þetta vín er frá Bandaríkjunum og er hátt skrifað á meðal rauðvínsunnenda á rauðvín á Íslandi hóp á Facebook. Þetta er dumbrautt vín í glasi  þetta er vín sem er ríkt af dökkum ávexti, kryddað og ljúffent með löngu og miklu eftirbragði. 


Með matnum bárum við fram djúpsteiktar sveitafranskar, sem við köllum svo  þá eru kartöflurnar skornar þunnt og steiktar lengi svo þær verða alveg stökkar. 


Þá suðum við petit pois grænar baunir í kjúklingasoði. Það tekur bara örskamma stund  vatninu er svo hellt frá og smjörið látið bráðna saman við. Stappað með gaffli. 


Í staðinn fyrir að loka kássuna inn í smjördeigi í eldföstu móti bökuðum við smjördeigið eitt og sér í ofni. Við prófuðum að gera fléttur  bæði grófar og fínar  eins og sjá má á myndinni. Penslað með eggjablöndu, saltað og piprað og svo bakað í 220 gráðu heitum ofni í kortér. 


Svo er bara að leggja fallega á borð - móðir mín - Lilja María sá um það eins og endranær þegar við erum saman í sumarbústaðnum.


Svo er bara að raða herlegaheitunum upp á disk  ég var svo sannarlega ekki svikinn á afmælinu. 

Það er gaman að eiga afmæli.

Endilega prófið - Verði ykkur að góðu! 

No comments:

Post a Comment