Friday 1 December 2017

Ljúffengi kókóskjúklingur Berglindar á GRGS með chili-mangóraitu og sætkartöflufrönskum


Vinkona mín og matarbloggari með meiru, Berglind Guðmundsdóttir á Gulur, rauðu, grænn og salt, gaf nýverið út matreiðslubók - bók númer tvö í röðinni. Hina fyrri gaf hún út sjálf, kynnti og dreifði víða um land og náði víða. Svo víða að hún var líklega metsölubók það árið! Og það kemur mér eiginlega ekkert á óvart að bókin hafi selst svona vel - nálgun hennar á matargerð er smitandi. Hún hefur einstakt lag á því að gera fljótlega, fallegi og ljúfenga rétti. Og ég er ekki einn um það mat - flestir eru mér sammála enda er hún líklega langmest lesni matarbloggari á Íslandi. 

Nú er hún að gefa út sína aðra bók - eins og nefnt var hér að ofan. Og hún er einstaklega vel gerð í alla staði, aðgengilegar uppskriftir - fljótlegar. Og þær sem ég hef prófað eru ljúffengar. Ég hafði þó ekki gert þessa áður - en þegar ég sá hana dúkka upp á veggnum mínum á Fésbókinni stóðst ég ekki mátið.


Og ég hvet ykkur til að prófa, gefið ástvinum ykkar þessa bók. Hún er miklu girnilegri og ljúffengri en hrein heimili geta nokkru sinni orðið (var einmitt að sjá að bók Sólrúnar Diegó um heimilisþrif er mest selda bók Íslands um þessar mundir). 

Ljúffengi kókóskjúklingur Berglindar á GRGS með chili-mangóraitu og sætkartöflufrönskum

Ég studdist nokkuð vel við uppskriftina hennar Berglindar sem hægt er að sjá hér að ofan. En ég varð að breyta eftir því sem mér fannst vera viðeigandi. Ég held að Berglind mun fyrirgefa mér. 

1 kg kjúklingalundir
200 ml kókósmjól
4 egg
hvítlaukssalt
150 g hveiti
150 g kókósflögur (fínt rifnar)
150 g brauðmylsna

2 dósir sýrður rjómi
1 mangó
1/2 rauður chili pipar
2 msk jómfrúarolía
salt og pipar

1 risastór sæt kartafla
3-4 msk jómfrúarolía
2-3 msk kornmjöl
salt og pipar

salat að eigin vali


Sætar kartöflur geta verið alveg skelfilega stórar - þessi dugði fyrir fimm manns.


Hún var flysjuð og skorin í stóra ílanga bita - stæðilegar franskar.


Svo er sætu kartöflunum skellt í skál og olíunni hellt yfir, svo mjölinu og að lokum saltað og piprað. Þessa gómsætu olíu fékk ég hjá vinum mínum, Ólöfu og Omry - í Krydd og Tehúsinu


Kartöflunum var svo raðað í eldfast mót og bakaðar í 200 gráðu heitum ofni í 15 mínútur, svo snúið og bakað áfram 15 mínútur. 


Tilbúnar! 


Raitan var einföld; skar utan af einu mangó og skar niður hálfan chili pipar. 


Sett í skál og blandað við sýrðan rjóma, olíu, salt og pipar. Látið standa í 30 mínútur við herbergishita svo að allt bragð nái að taka sig vel.

Næsta verk er að undirbúa kókóskjúklinginn.


Setti hveitið í skál og blandaði hvítlaukskryddi og salti og pipar samanvið.


Hrærði síðan saman egg og kókósrjóma.


Og að lokum kókósmylsnu og brauðmylsnu. Hvert í sína skál.

Svo er kjúklingnum velt upp úr hveitinu, svo kókósrjómablöndunni og að lokum kókósbrauðmylsnunni.


Þá er kjúklingurinn steiktur í olíu í fimm mínútur á hvorri hlið.


Þangað til að hann er fallega gullinn.


Ég prófaði einnig að djúpsteikja nokkra bita - sveimér þá ef þeir voru ekki fallegri.


Svo er bara að raða á disk. 


Með matnum nutum við þessa franska rauðvíns. Domaine de La Baume Syrah frá því 2015. Þetta er einstaklega vel heppnað rauðvín sem á sama tíma er heldur vinalegt við budduna. Þetta er vín sem fær fjórar stjörnur á Vivino. Þetta er þungt og mikið rauðvín - mikill og þéttur ávöxtur í nefi og bragði - skógarbotn og krydd. Mikið eftirbragð. 


Svona geta veislumáltíðir verið einfaldar. 

Takk fyrir innblásturinn Berglind. 

No comments:

Post a Comment