Sunday 3 December 2017

Dásamleg jólaglögg - Jólin jólin allstaðar - með piparkökum með blámygluosti og döðlum

Jólin eru á næstu grösum. Ég held að ég hafi aldrei hlakkað til jólanna eins og núna í ár. Þó að ég elski veislumat eins og borinn er á borð um jólin meira en kannski margir aðrir, þá hef ég aldrei talist til jólabarna - svona eins og margir eru. En eitthvað hefur breyst innra með mér. Ætli það hafi ekki verið vegna þátttöku minnar í jólaþætti Sjónvarps Símans nú í ár - Ilmurinn í Eldhúsinu en þar var ég að vinna með einvala fagmönnum og það var stórskemmtilegt að vinna með Guðna Páli leikstjóra sem vel kann að taka upp matreiðsluþætti (hann hefur langa reynslu úr Blómlegu búi) og bróður hans á hljóðinu. Þá var Bjarni Felix á myndavélinni - en hann er matgæðingur fram í fingurgóma og kann að taka upp myndir af mat!

Í þessum þáttum deila kunnir kokkar jólahefðum sínum, Hrefna Sætran, Jói Fel, Berglind Guðmundsdóttir og svo ég. Það er ákaflega gaman að vera stillt upp með svona einvala liði fólks. Hver veit nema það verði meira í framtíðinni.Við Ólöf hjá Krydd og Tehúsinu vorum saman í Fjarðarkaupum í gær að kynna kryddin okkar sem við höfum verið að blanda saman síðan í vor ásamt manninum hennar, Omry. Það var gaman að gefa fólki að smakka og sjá brosin læðast á andlit fólks af ánægju. Fólk var sérstaklega ánægt með að smakka Jólaglöggsblönduna okkar - Jólin jólin allsstaðar, himnesk jólaglöggsblanda, en hún er algert dúndur.

Þessi blanda fæst í Fjarðarkaupum og auðvitað í Krydd og Tehúsinu í Þverholti 7. Fyrir ykkur sem eruð utan af landi, þá er hægt að panta hana á netinu!

Dásamleg jólaglögg - Jólin jólin allstaðar -  með piparkökum með blámygluosti og döðlum

1 flaska rauðvín
2 msk jólaglöggsblanda
3-5 msk sykur/síróp/hunang (eftir smekk og víntegund)

piparkökur (helst heimagerðar)
dýrlingur - jóla - hvít- og blámygluostur
döðlurSetjið vínið í pott ásamt kryddblöndunni og hitið að suðu.Það er um að gera að nota vín sem manni finnst gott að drekka - en í jólaglögg þarf ekki að nota dýr vín - þar sem það mun þróast með blöndunni og sykrinum sem þið notið til að sæta glöggina.

Gerið piparkökur, sjá hérna, og látið kólna.


Þessi hugmynd um að setja ost á piparkökur kynntist ég í Svíþjóð. Þar er vinsælt að setja Saint Agur blámygluost. Hljómar furðulega en er ljúffengt. Ég prófað i að kaupa Dýrling sem er bæði blá- og hvítmygluostur. Skerið ostinn í bita og raðið á piparkökurnar.


Döðlurnar maukaði niður bara með skeið og raðaði svo ofan á ostinn.


Jólin, jólin allsstaðar - himnesk jólaglöggsblanda. Það eru að koma að jól!

Verði ykkur að góðu.

No comments:

Post a Comment