Sunday 24 May 2015

Kraftmikil ommiletta með sterku chilislegnu rækjusalati og fersku kóríander

Mér finnst frábært byrjun á degi að fá mér ommilettu í morgunverð. Ætli byrji ekki daginn með einhverslags eggjum fjóra daga vikunnar. Ég elska egg! Og sem betur fer hefur það komið á daginn að egg eru hollur og góður matur, pökkuð með góðri næringu og vítamínum. Það er líka kostur eggja að borði maður 2-3 egg á morgnanna er maður vel mettur fram eftir degi. Ég sá einhversstaðar rannsókn þar sem þeir sem átu eitt egg á morgnanna með morgunverðinum sínum áttu auðveldara með að halda vigtinni en þeir sem ekki snæddu egg í morgunsárið. 

Þessi uppskrift var í bókinni minni sem kom út núna fyrir seinustu jól. Þar var ég með nokkrar ljúffengar ommilettu uppskriftir sem ég hvet ykkur til að prófa! 

Fyrir þá sem eru á lágkolvetna matarræði þá ætti þessi uppskrift að vera alger himnasending. Fyrir hina þá er hún bara dásamlega rík og einstaklega ljúffeng. Það er um að gera að nota meiri chili sé maður hugaður og láta bara sársaukamörkin setja sér mörk. Vegna sýrða rjómans, mayonaisins og rjómaostsins þá þolir þetta rækjusalat ansi mikið af chili. Ég er vanur að hræra því bæði saman við sjálft rækjusalatið sem og nota það til skreytingar.

Kraftmikil ommiletta með sterku chilislegnu rækjusalati og fersku kóríander

Fyrir tvo 

Hráefnalisti 

150 gr meðalstórar rækjur
2 msk sýrður rjómi
1 msk mayonaise
2 msk rjómaostur
3 msk rifin ostur (val)
1 heill rauður chili
1 msk thai chili sósa
2 tsk sambal oleak (val)
1 msk ferskt kóríander
4 egg
1 tsk vatn
salt og pipar



Brjótið eggin í skál og bætið við einni teskeið af vatni og hrærið saman með gaffli. Saltið og piprið.


Hrærið saman sýrða rjómann, mayonaise, rjómaost í skál. Skerið niður einn rauðan chili og hrærið 2/3 hluta saman við (sparið afganginn til að nota til að sáldra yfir). Blandið svo saman thai chili sósunni, sambal oleak (sé það notað), rækjunum og rifna ostinum og hrærið vandlega saman við.



Bræðið smjör á pönnu. Hellið eggjunum út á pönnuna og skakið hana til þannig að egginn losna frá köntunum. Þegar ommilettan hefur næstum því verið elduð í gegn setjið rækjusalatið á helming ommilettunar og brjótið hinn helminginn yfir.

Skreytið með restinni af chili-inum og ferskum kóríander.

Þá getur þessi sunnudagur ekki orðið annað en góður! 



No comments:

Post a Comment