Sunday 12 June 2011

Stolið sælgæti; Berjajógúrtís með myntulaufiFátt er betra en að eiga helgarfrí þegar sólin skín og heiðskýr himininn hvelfist yfir mann. Svona á að byrja helgarnar. Valdís dóttir mín hefur hreinlega iðað af spenningi síðastliðna daga og vikur vegna þess að hún er á leiðinni til Íslands. Og núna síðustu daga hefur það náð algeru hámarki. Hún hefur byrjað alla daga og endað einnig með orðunum "ÉG ER AÐ FARA TIL ÍSLANDS"! Hún flaug til Íslands um miðjann dag í gær - ein - frá Kastrup, og það var ekki til að minnka spenningin. Ég man þegar ég flaug einn í fyrsta sinn, þá níu ára gamall á leiðinni frá Englandi þar sem við bjuggum um skeið, að heimsækja afa og ömmu. Ég fékk að sitja hjá flugstjóranum í lofttaki og það fannst mér magnað. Mér skilst að með auknum öryggiskröfum sé allt svoleiðis fyrir bí! Allaveganna þá komst dóttir mín heil að höldnu til Íslands.

Ég hef upp á síðkastið horft á einstaka þátt með uppáhalds sjónvarpskokknum mínum og þar sá ég þessa uppskrift... og ég verð að játa að hún stolin! Man ekki alveg hversu nákvæmlega en hún er nógu lítið breytt að ég verð að játa á mig þær syndir. Fyrir þá sem vita hvaðan - þá megið þið endilega leggja inn ágiskun í athugasemdakerfið!

Stolið sælgæti; Berjajógúrtís með myntulaufi

Hráefnalisti

500 ml vanillujógúrt
500 gr blönduð ber
4-5 msk síróp
Myntulauf

Þessi uppskrift er eins einföld og þær verða! 500 ml af af léttri vanillujógúrt (hann notaði gríska jógúrt minnir mig) er sett í blandara og við hana eru sett 500 gr af frosnum blönduðum berjum - ég notaði blöndu af skógarberjum; rifsber, jarðarber, bláber, hindber og brómber. Svo setti ég 4-5 msk af sírópi saman við og blandaði kröftuglega saman.

Setti síðan blönduna í mót og setti í frystinn - bara í 30-45 mínútur á meðan við borðuðum kvöldmat. Þetta var alveg gómsætt - það bara verður að segjast! Svo góður að ég varð að koma honum áleiðis. Hvet alla til að prófa.

Þetta er fullkominn uppskrift fyrir sumarið sem mér skilst að nú sé loksins komið á Íslandi!

berjaís

Bon appetit!

No comments:

Post a Comment