Tuesday 11 May 2010

Ljúffengar marókóskar lambakjötbollur í tómatsósu með eggjum, kúskús oggrilluðu flatbrauði

Undirbuningur


Ég hef upp á síðkastið verið að lesa meira af uppskriftum og matreiðslubókum sem einblína á matargerð fyrir botni Miðjarðarhafsins. Þaðan kemur, að mínu mati, einn besti matur heimsins - að öðrum heimshlutum algerlega ólöstuðum! Ég rakst á þessa uppskrift á Youtube og hef verið að hugsa um að gera þennan rétt síðan. Þá var það Rick Stein sem var að spreyta sig á þessari klassíku marókósku uppskrift. Fyrir þá sem lesa bloggið mitt þá hef ég oft nefnt þennan fyrirmyndarsjónvarpskokk á nafn. Hann er þó lítið þekktur utan Bretlands en hann hefur gert marga afbragðs sjónvarpsþætti síðan um miðjan síðasta áratug aldarinnar sem leið. Hann hefur lengst af verið þekktur fyrir ást sína á sjávarfangi, ekki fráleitt heldur, þar sem að hann rekur fjóra veitingastaði í sjávarþorpinu Padstow í Cornwall-héraði í Suður Englandi. Alltént þessi maður hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér í mörg ár. Augljóst af hverju! Í myndbandinu má sjá hans útfærslu.



Fyrir þá sem nenna að lesa áfram eftir að hafa séð Rick gera réttinn finnst mér rétt að benda á að ég breytti aðeins út af hvað kryddin snerti. Mér fannst einhvern veginn nauðsynlegt að bæta aðeins í þar, og sé ekkert eftir því þar sem að niðurstaðan var sérstaklega góð. Og líka falleg fyrir augað. Ég gerði einfalt flatbrauð með matnum - uppskrift sem ég hef notað margoft áður og birt hérna á vefnum. Til að það fengi meira marókóska stemmingu hnoðaði ég kjúklingabaunum saman við deigið og bragðbætti með kúmeni.

Ljúffengar marókóskar lambakjötbollur í tómatsósu með eggjum, kúskús og grilluðu flatbrauði


Eins og ég nefndi hér að ofan fannst mér nauðsynlegt að bæta aðeins meira af kryddum en Rick Stein nefnir í myndbandinu sínu. Ég keypti 600 gr af lambahakki sem ég setti í skál og hnoðaði með 3-4 stórum, smátt skornum hvítlauksrifjum, handfylli af smátt skorninni steinselju, teskeið af þurrkuðu oregano og myntu, rúmlega teskeið af möluðu broddkúmeni (cumin), og papríkudufti og hálfri teskeið af sterkri papríku. Þetta var allt hnoðað vel saman og síðan mótað í bollur á stærð við golfbolta.

bollur

Þær voru síðan brúnaðar á pönnu og settar til hliðar. Síðan var einn heill laukur og meira af hvítlauk steikt í olíunni sem bollurnar voru steiktar í, steikt við fremur lágan hita í rúmar tíu mínútur þannig að hann varð gullinbrúnn og karmelliseraður. Saltað og piprað. Laukurinn var ekki brúnaður - hann tók bara þennan lit vegna kryddana sem voru í bollunum.

laukur

Þá var bollunum bætt saman við og velt vel saman við laukinn. Þá var tveimur dósum af góðum niðursoðnum tómötum, tveimur msk af tómatpuré og svo saltað vel og piprað á nýjan leik. Smakkað til og bragðbætt eftir smekk. Stundum þarf að sæta tómatsósur þar sem gæðin á niðursoðnum tómötum er mismunandi. Sumar tegundir heldur súrar og aðrar fremur sætar.

tomatarogeggpipar

Þar sem ég á ekki (ennþá) tagine, og ekki heldur lok á þessa stóru pönnu - skellti ég henni bara inn í ofn í nokkrar mínutur til að klára að elda eggin í heitri tómatsósunni. Skreytt með steinselju.

Borið fram með kúskús gerðu á hefðbundin hátt, vatnsoðið, bragðbætt með kjúklingakrafti, salti og pipar og hellt yfir kúskús. Plastfilma yfir og látið standa í nokkrar mínútur (kemur fram á pakkanum). Gerði einnig þetta prýðisgóða flatbrauð; 500 gr hveiti, 2 tsk ger, 2 tsk sykur, 200 ml af vatni, 2 msk olía, 2 tsk salt, ein dós af kjúklingabaunum og smáveigis af kúmenfræjum. Fyrst er að vekja gerið í volgu vatni með sykrinum - tekur kannski 10 mínútur. Á meðan er hveitið sett í skál, salt, olía, kjúklingabaunir og kúmeni bætt saman við. Vökvanum bætt útí og hnoðað saman. Gæti verið að það þurfi að bæta við vatni eða hveiti verði deigið of þurrt/blautt. Látið hefast í klukkustund. Þá er það klipið niður og flatt út, penslað með olíu, saltað og grillað í nokkrar mínútur á hvorri hlið.

Með matnum vorum drukkum við Gallo Sonoma Country Cabernet Sauvignion frá því 2006. Þetta er kröftugt vín, munnfyllir eins og Cabernet Sauvignion vill gjarnan verða.  Þetta fannst mér passa vel með matnum sem einnig var bragðmikill. Þetta er fremur dumbrautt á litin, með þungum ilmur af sætum dökkum ávexti með góðri fyllingu og tannín í eftirbragðinu. Prýðisgott alveg og á góðu verði.

abordinu

Þetta reyndist vera alveg frábær matur. Virkilega bragðgóður með bragði sem ég hef ekki verið vanur í svona kjötbolluuppskriftum, cumin og papríka. Svo var rétturinn, að mér fannst, líka svo fallegur með eggin syndandi á milli kjötbollanna í tómatsósunni - en kannski er það bara ég.

Bon appetit.

5 comments:

  1. Girnilegt að vanda, Ragnar! En væri ekki nærtækara að þú hentir inn einni færslu um sænskar kjöttbullar!

    ReplyDelete
  2. Sæll Magnús.
    Jú - auðvitað. ...Dear Sir...challenge execepted!
    Reyndar var ég með sænskar ICA kjötbollur (keyptar útí búð - þær eru ansi góðar) í kvöld, með kartöflumús, grænum baunum, heimagerðri splunkunýrri rabarbarasultu og skánsku sinnepi.
    Geri næst frá grunni - og blogga það!
    Takk, Ragnar

    ReplyDelete
  3. Þetta lítur girnilega út! :) Ein spurning, þegar þú talar um kúmen, þá áttu við cummin, er það ekki?

    Kv.
    BG

    ReplyDelete
  4. Ég kíki oft á matarbloggið þitt,- og fæ þar frábærar hugmyndir. Eldaði þetta í kveld,- af því dótlunni minni langaði svo í e-hvað með kús kús. Þetta er algjört æði. Ég notaði reykta paprikukryddið frá Prima og það var alveg glimrandi með öllu hinu. Og ótrúlega gaman að setja eggin svona út í ;)

    ReplyDelete
  5. Ragnar Freyr Ingvarsson27 January 2012 at 09:26

    Ja, thetta er alveg meirihattar rettur. Sidsumars var mer bodid i ekta svona hja Marokoskum nagranna minum - alveg mergjad!
    Goda helgi, Ragnar

    ReplyDelete