Saturday 1 May 2010

Djúpt inn í ameríska suðrið; PFC (Pukgränden steiktur kjúklingur) meðgulum maís og hrásalati

chicken (2)

Í Svíþjóð er fátt um veitingastaði sem selja viðskiptavinum sínum djúpsteiktan kjúkling. Þeir finnast í Danmörku en ekki hér. Af hverju veit ég ekki! Kannski hefur það að gera með að Svíum þykir of vænt um heilsu sína til að leggja sér slíkt til munns. En það er stundum þannig að á sunnudögum og bara stundum, að þá langar mann óheyrilega mikið í feitan, safaríkan, djúpsteiktan kjúkling. Ég er hræddur um að margir viti hvað ég er að tala um. Og það er fátt betra sem læknar syndina ljúfu á jafnsnarpan hátt og nokkrir bitar af þessum umrædda djúpsteikta kjúklingi. Það hlaut því að koma að því að ég myndi reyna að gera þetta sjálfur.

Þetta er búið að eiga sér langan aðdraganda. Ég er lengi búinn að ætla að gera þetta. En það er bara eitthvað við það að djúpsteikja mat. Ekki það að mér finnist hann vera vondur... ALLS EKKI! Maður veit bara hversu óhollur hann er ... fjandinn - þetta liggur í fitubaði í tuttugu mínútur. Óhollustan er öllum augljós ... augljós! Þannig að það að taka meðvitaða ákvörðun um að elda djúpsteiktan mat er ávísun á óh0llustu. Óhollustu ... ekki einu sinni sleipur pólitíkus gæti blaðrað sig í kringum þá augljósu staðreynd. En þetta er bara svo gott - svo fjári gott og svona er þetta með freistingarnar! Þetta byrjaði með djúpsteiktum skötusel (á reyndar eftir því að blogga hann). Hann braut eiginlega ísinn, og djö... var hann góður. Borinn fram með heimagerðu aoli og brakandi salati. Þar tók steininn úr. Næst var kjúklingurinn.

Og það er ekki beint hægt að segja að þennan rétt eldi maður óvart - alls ekki. Ef gera á þetta rétt, tekur meðferðin á kjúklingum um sólarhring. Þannig að undirbúningur óhollustunnar er vandlega meðvitaður. Sem er að vissu leyti ágætt, þá kemst maður aukaferð í ræktina, maður hjólar út í búð að versla, fer aukaferð upp tröppurnar, andar oftar á mínútu - allt hjálpar! Allavega með samviskubitið. Hvernig líður manni svo eftir að hafa borðað svona mat, troðið sig út af djúpsteiktum kjúkling? Blanda af sælu og samviskubiti - ein besta tilfinning sem finnst!

Djúpt inn í ameríska suðrið; PFC (Pukgränden steiktur kjúklingur) með gulum maís og hrásalati


kjuklingurihveiti


Áður en ég gerði atlögu að þessum rétti fór ég í nokkuð vandaða heimildavinnu, skoðaði margar uppskriftir á netinu, sá nokkur myndbönd og gluggaði í nokkrar matreiðslubækur. Þannig lærði ég eina góða reglu; að krydda kjúklinginn - krydda hann ríkulega. Og ekki bara einu sinni - heldur á nokkrum stigum. Sjálfan kjúklinginn, hveitið sem honum er velt upp úr, og svo eftir steikingu. Vík að því síðar.

Ég gerði þennan rétt seinast þegar ég var með foreldra mína í mat. Pabbi hafði frétt af því að við hefðum prófað þetta fyrir nokkrum mánuðum og hann heimtaði að fá að prófa þetta líka. Og hvernig er hægt að neita þeim frábæra manni um nokkurn hlut - aldrei neitaði hann okkur um neitt - þannig að það var þá ákveðið. Tveir kjúklingar voru keyptir og voru hlutaðir niður í átta bita. Bringur, vængi, leggi og upplæri; sextán bitar samtals.

Bitarnir voru kryddaðir rækilega með salti, pipar og hvítlauks/laukkryddi og látnir standa í nokkrar mínútur á meðan marineringin var undirbúin. Í flestum uppskriftum er kveðið á um "buttermilk" sem mér skilst að sé einhverskonar hálfsúr afrenningur í mjólkurframleiðslu, þegar verið er að framleiða smjör úr rjóma. Þá sé þetta eitthvað sem rennur af. Alltént er ekkert svona til í Svíþjóð - heldur notaði ég bara filmjölk sem er heldur þykkari.

Hellti tæpum lítra af filmjölk í plastfat, síðan fullt af salti (2-3 tsk), heilmikið af nýmöluðum pipar, heilum mjög smátt skornum rauðum chilli, 2-3 matskeiðar af paprikudufti, 2-3 tsk af laukdufti, 6-7 smáttskorin hvítlauksrif, 2-3 tsk af timian, 1-2 tsk af cheyenne pipar, safi úr 1-2 sítrónum. Þá var kjúklingabitinum bætt saman við þannig að það huldi vel kjúklinginn. Plastílátinu lokað og skellt í kæli í sólarhring. Þetta er, sko, ekkert eins og að vera í bíltúr og alveg óvart, grár eftir gærkvöldið "  aka framhjá KFC og lenda í því að kaupa Tower Zinger.  "This is premeditated murder baby!".

Daginn eftir er svo kjúllinn sóttur inn í ísskáp, tekinn upp úr mjólkinni, hristur vel þannig að allt sem er "umfram" fellur af. Síðan er honum velt upp úr bragðbættu hveiti (hveiti, salt, pipar, lauk, hvítlaukskrydd) og síðan settur á grind. Einstaka biti þarf að fara nokkrar ferðir í hveitið til að hjúpa alveg. En allt sem er "umfram" er hrist af. Þá er ekkert annað að gera en að djúpsteikja. Heimildir mínar sögðu að best væri að hálfdjúpsteikja, þannig að bitinn sé hálfur í kafi. Að slíkt væri trygging fyrir safaríkum og vel elduðum kjúkling. Sel það ekki dýrara en ég keypti það. 10-12 mínútur á hvorri hlið þangað til að kjúklingurinn var orðin fallega gullinbrúnn. Sé hitanum stjórnað vel - 180 gráður - þá á þetta ekki að taka meira en 20-24 mínútur. Maður er pínu áhyggjufullur í byrjun og því er upplagt að taka einn bita frá og skera í. Sé hann ekki til, steikja lengur. Sé hann til, borða hann og klára svo að elda. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn þá er rétt að leggja hann á pappír og láta olíuna renna af. Engar áhyggjur - við höfum nægan tíma - hann helst heitur í drykklanga stund á meðan dúttlað er í restinni af eldamennskunni.
djupsteiking

Hrásalatið var ekki flókið. 1/3 hvítkálshaus, 3 gulrætur, 2 epli, 2 msk af sýrðum rjóma, 2 msk af mayjónesi, hálfur dl af appelsínusafa. Grænmetið fékk eina salíbúnu í gegnum grænmetiskvörnina, blandað saman og síðan var hitt hrært saman við. Með matnum vorum við líka með maískólfa, vafða inn í álpappír og bakaðir í ofni við 180 gráðu hita í 45 mínútur.

hrásalat



Svo er bara að setjast að borðum og njóta. Raða bitunum á disk, hrásalat og svo ein saltaður og smurður maískólfur. Með matnum drukkum við bara bjór. Ég held að það passi best með svona mat. Ekta comfort mat!

Bon appetit!

matur

12 comments:

  1. er buttermilk ekki súrmjólk?

    ReplyDelete
  2. Sæll Stjáni
    Súrmjólk verður til með öðrum hætti skilst mér.
    Buttermilk verður til þegar smjör er unnið úr rjóma.
    Mér datt sjálfum í hug mysa en hún verður víst til við skyrframleiðslu

    Annars sé ég ekkert því til fyrirstöðu að nota súrmjólk, kannski léttsúrmjólk sem er aðeins þynnri.

    mbk, Ragnar

    ReplyDelete
  3. ég nota súrmjólk í uppskriftum þar sem beðið er um buttermilk. T.d. í amerískum pönnukökum og muffins. virkar mjög vel.

    ReplyDelete
  4. Við höfum stundum eldað svona "gervi" KFC og til að gera matinn fituminni, hef ég brúnað kjúllann á pönnu og síðan gegneldað inní ofninum og það er alveg rosalega gott líka.

    ReplyDelete
  5. Nágranni minn hún Elva gerir líka fantagóðan kjúkling sem byrjar á pönnu og endar í ofninum - alveg ljúffengur hjá henni. Ég hugsa að ég prófa svona næst.

    ReplyDelete
  6. afurðin sem verður til við smjörgerðina heitir áfir á íslensku.

    ReplyDelete
  7. Nanna Gunnarsdóttir9 May 2010 at 14:48

    Hún mamma mín var snillingur í svona djúpsteiktum kjúklingi, lærði enda að elda hann á Vellinum í gamla daga og var frumkvöðull í kjúklingamatreiðslu.
    Hún sauð kjúklinginn alltaf fyrst, helst daginn áður, kældi hann og skar í bita áður en hún velti honum upp úr hveiti, eggi og svo gamla góða Paxóraspinu sem blandað var með hveiti. Svo var kjúllinn borinn fram með frönskum, brúnni sósu og kartöflumús, sem var eitthvað sem hún lærði líka hjá Kananum á vellinum, salati og gulum baunum. Þetta þótti heldur framúrstefnulegt á sjöunda áratugnum í Árnessýslunni og ekki laust við að hún væri litin hornauga fyrir að láta fólkið sitt éta "hænur".

    ReplyDelete
  8. Magnús Már Kristinsson9 May 2010 at 18:32

    Ég er búinn að vera elda nokkrar af þeim uppskriftum sem þú setur hingað inn og þær hafa allar slegið í gegn á mínu heimili, frábært framtak hjá þér og bara halda þessu áfram, endilega.

    Næst verður þessi kjúlli eldaður.

    Kv. Magnús Már.

    ReplyDelete
  9. Sæl Nanna
    Gaman að lesa þetta. Mér hefði aldrei dottið í hug að sjóða kjúklinginn fyrst - en það meikar alveg sens að hafa klárað að elda hann að innan áður en hann fær að dansa í fitunni. Ætli ég prófi þetta bara ekki. Læt vita hvernig gengur.
    Bestu kveðjur, Ragnar

    ReplyDelete
  10. Ég var að skoða sömu uppskrift á norsku og ensku og þar kemur í ljós að buttermilk kallast skummet kulturmelk á norsku... veit ekki hvað það myndi vera á sænsku en datt í hug að koma þessu á framfæri hérna. Ég hef oft forðast uppskriftir með buttermilk, en stundum notað súrmjólk eða jafnvel blöndu af mjólk og smjöri í staðinn, bara allt eftir því hvað mér finnst passa og það hefur alltaf heppnast vel.

    Hugsa að ég prófi þennan kjúlla bráðum enda bý ég í landi með afleitu KFC, það er best á Íslandi!

    ReplyDelete
  11. Guðrún Mathákur10 May 2010 at 18:19

    Sæll,

    Buttermilk er mun þynnri en súrmjólk (svolítið eins og ef mjólk og mysa myndu eignast börn), og er lítill vandi að útbúa heima hjá sér, einkum og sér í lagi ef maður fylgir þessum ráðleggingum:

    http://www.ask.com/questions-about/How-to-Make-a-Buttermilk-Substitute

    Bon appétit!

    ReplyDelete
  12. Sæll,
    Ég ætla að prófa þennan kjúkklingarétt með AB mjólk svona rétt eins og í brauðið sem ég sendi þér um daginn.

    takk fyrir frábært framtak og ævinlega skemtilegt að lesa þetta frá þér hérna.

    ReplyDelete