Friday 26 March 2010

Grillaður humar, skötuselur vafinn og stunginn (með beikoni og síðanrósmarínspjóti) með blómkálsmauki og bökuðum kirsuberjatómötum meðljúfu hvítvínstári

fallegurhumar


Ég var að rúlla í gegnum myndasafnið mitt og rakst þar á þennan fallega rétt sem ég hafði ætlað að skella inn á netið fyrir nokkrum vikum en svo virðist að ég hefði eitthvað gleymt mér. Svona getur það verið - í raun fann ég fjöldann allan af réttum sem ég hafði "slarvað" (eins og maður segir á sænsku) við að blogga. Reyni að bæta úr því á næstu dögum og vikum.Ekki að þessi matur hafi verið eitthvað gleymanlegur - þvert á móti - svona er bara þegar maður forgangsraðar einhverju öðru en að blogga, þá bara fer þetta til fjandans.

Annars finnst mér skötuselur einstaklega góður fiskur - einn af þeim sem eru í uppáhaldi hjá mér ef frá er talin stórlúðusteikur. Skötuselur er líka oft kallaður humar fátæka mannsins nema hvað hann er orðinn alveg fokdýr. Einhver sagði mér það að áður fyrr var þessum ljóta fiski alltaf hent - hver vill svosum borða ljótan mat - enda er hann aldrei sýndur heill í fiskbúðum. Alltaf fallega verkaður, hvítur og þykkur. Nú skilst mér að allt sé að fara á annan endan á skerinu út af þessum blessaða fisk. Nú loks sekkur skútan!  Útvegsmennirnir vilja að sjálfsögðu fá hann gefins eins og áður. Hver vill fara að borga fyrir það sem áður var frítt? Ég bara spyr?
skorinitvennt


Humarinn fékk ég hinsvegar gefins frá sjúkraþjálfara sem ég vann með í Helsingborg en hún færði mér hann að gjöf í þakkarskyni fyrir að sprauta sig í olnbogann - ekki leiðinlegt það! Ég bauðst í kjölfarið að sprauta hvaða lið sem var - væru þetta launin! Humar í Svíþjóð er reynar frábrugðin því sem við Íslendingar eigum að venjast.  Hér er humar nær alltaf seldur soðinn - og þá ferskur eða frosinn - en alltaf soðinn. Það er nánast ómögulegt að nálgast ferskan eða á ferskan frosinn humar - þ.e.a.s. ósoðinn eins og við erum vön heima á Fróni. Þannig finnst mér auðvitað að það ætti að vera .

Íslenskir humarhalar er eitt af því hráefni sem við getum montað okkur af, hvílíkt lostæti. Ég hef borðað humar útum allar tryssur en alltaf standa íslenskir humarhalar uppúr. Ég man eftir því þegar ég borðaði humar í Boston í fyrsta skipti - ekta Maine lobster, baby! - algert ferlíki - risastór alveg!. Ég fékk meira að segja sérstaka svuntu og hatt og alles - en... hvílík vonbrigði. Sko ... ekki að hann hafi verið vondur - nei, aldeilis ekki! En með svona uppbyggingu, þ.e.a.s. svunta og allt, verður að segjast að þetta voru vonbrigði. Fremur seigur - og bragðlítll. Ég verð að segja - Ísland 1 -Maine 0.
humariofnin


Grillaður humar, sköturselur vafinn og stunginn (með beikoni og síðan rósmarínspjóti) með blómkálsmauki og bökuðum kirsuberjatómötum með ljúfu hvítvínstári


áleidiofninfiskur


Humarinn var eins einfaldur og hugsast var. Mig langaði að gera Lobster Thermador - sem er án efa frægasti humarréttur allra tíma - að sjálfsögðu frá Frakklandi, skapaður á veitingahúsinu Marie í París á því herrans ári 1894. Skarlottulaukur steiktur í smjöri, hvítvín, fisksoð, rjómi - soðið vel niður (að minnsta kosti um helming). Hellt ofan á ferskan humarinn og svo er handfylli af góðum osti hellt ofan á - og svo bakað þar til gullinbrúnt. En þetta kveður á um ferskan humar. Minn var eldaður - og ég var hræddur um að hann yrði þurr, þannig að ég fór "old school" á þetta. Skorinn í tvennt, hvítlauksolíu hellt yfir, og svo grillað í nokkrar mínútur undir blússheitu ofngrilli. Borið fram með fersku baguette.
matur-1


Skötuselurinn var stunginn með rósmaríngrein, saltaður og pipraður og síðan vafinn góðu fersku beikoni. Fyrst snöggsteikt að utan og síðan sett í eldfast mót. Þá er nokkrum kirsuberjatómötum á stilknum raðað með, jómfrúarolíu sáldrað yfir, niðursneiddum hvítlauk sáldrað með og síðan saltað og piprað. Bakað í 180 gráðu heitum ofni í 12-15 mínútur.

Gerði einfalt blómkálsmauk með; soðið blómkál í söltuðu vatni. Þegar tilbúið er kálið sett í annan pott, saltað, piprað, smá smjör og rjómaostur og kannski smá mjólk og þeytt saman með töfrasprota.

Borið fram með einföldu salati og ljúffengu Chardonnay frá Peter Lehmann. Þetta var Weighbrigde eikað Chardonnay frá 2008. Þetta er eins og margir þekkja ástralskt Chardonnay. Fallega gult, glampandi hvítvín. Bragðgott, þétt og smjörkennt og ávaxtakennt með ágætri fyllingu og fremur eikuðu eftirbragði.
adiskinn


Þetta var sannkölluð veislumáltíð.

Bon appetít.

12 comments:

  1. Þetta er náttúrulega alveg hrikalega girnilegt...!
    Flottur hátíðaréttur.

    ReplyDelete
  2. Maður situr bara og slefar...!

    ReplyDelete
  3. Skötuselurinn sérstaklega girnilegur. Spurning um að prufa um páskahelgina.

    ReplyDelete
  4. Jón Atli Jónasson30 March 2010 at 00:07

    Sæll, vinur. Og takk fyrir frábærar uppskriftir. Er mikið fan. Fannst mikið til þín koma þegar þú varst að sýna beikon gerð. Á sjálfur reykofn af dýrari gerðinni. Ætla líka að tékka á Back a Yard nú um helgina. Fer líka á stað sem er einn af mínum uppáhalds í Stokkhólmi og heitir Mat kulturen. Keep up the good work.
    Kær kveðja.
    Jón Atli

    ReplyDelete
  5. Jón Atli Jónasson30 March 2010 at 00:12

    Það verður aldrei neitt eins og að elda á gasi. Ég er ekki að kaupa spanhellurnar þínar. En það er bara púrítaninn í mér.
    Rak líka augun í það að við eigum alveg eins kaffivél. Ég veit ekki hvort þú veist það en sölumenn kaffis á Spáni voru vanir að drösla þessari kaffivél "Cillu" eins og hún er kölluð á milli staða til að leyfa mönnum að smakka á kaffinu sem þeir voru að selja. Toppgræja, sem sagt. Gott kaffi.

    ReplyDelete
  6. Sæll Jón Atli.
    Þakkir fyrir kommentið.
    Hvernig reykofn ertu með - bradley?
    Skilaðu endilega kveðju frá mér til Papa John Bull!
    Kíki á Mat kulturen í næstu ferð til Stokkhólms.
    mbk, Ragnar

    ReplyDelete
  7. Sæll aftur.
    Já - hefði aldrei keypt mér spanhellur - en þær fylgdu bara með húsinu, á líka þessa helv. góðu eldavél. Kallast drottningin á þessu heimili.
    Cillan er best - er einmitt að drekka kaffibolla úr henni as I type.
    mbk, Ragnar

    ReplyDelete
  8. Þorvaldur Einarsson31 March 2010 at 14:33

    Hvað er að frétta af hráskinkunni sem átti að vera tilbúin í mars? Við erum tilbúin á hliðarlínunni að fara að gera hráskinku, en höfum heyrt ýmsar sögur af skinkugerð sem hefur ekki gengið upp.

    ReplyDelete
  9. Saell
    Var ad taka skinkuna inn i gaer. Virkar ad hafa gengid vel upp. Se nuna ad eg hefdi att ad hafa hana a beini.
    60% nyting virdist vera endresult. Tok myndir og skelli thessu a netid von bradar.
    Ragnar

    ReplyDelete
  10. Ingunn Ósk Ingvarsdóttir11 May 2010 at 23:15

    Sæll Ragnar Freyr
    Vorum að prófa ofnbakaðan skötusel, uppskrift frá þér síðan í mars 2007 og var fjölskyldan mjög ánægð með matinn erum líka búin að prófa skötuselsuppskriftina með rósmarín og beikon og sama ánægjan. Erum búin að grilla skötusel nokkru sinnum en okkur finnst hann vera oft of þurr, bara snilld að baka hann í ofni.
    Takk fyrir góðar uppskriftir og að vilja deila þeim til okkar á netinu, eigum örugglega eftir að prófa fleirri uppskriftir frá þér.
    Kveðja Ingunn og Björn

    ReplyDelete
  11. sæff ragnar "hinn granni!

    kalla þig ekki annað eftir hitting s.l. haust/jól:)

    fæst þessi umtalaði humar en án þess að vera pree-cokked?

    kv. hó

    ReplyDelete
  12. Ragnar Freyr Ingvarsson11 January 2012 at 20:32

    Sæll Hörður

    Þennan humar fékk ég gefins í vinnunni og hann var forsoðinn (því miður) en heppnaðist déskoti vel. Mér skilst að hægt sé að panta ferskan stóran humar í betri fiskverslunum hérna á svæðinu - kannski í Saluhallen eða í Lomma fiskbilen á Mårtenstorgi. Myndi þó gera ráð fyrir því að hann kosti skildinginn. Núna er forsoðinn humar á tilboði í öllum verslunum hérna í grenndinni - en áramótin búinn!

    Gangi þér vel, Ragnar

    ReplyDelete