Saturday 22 March 2008

Saltfiskur arabiatta með hrísgrjónum og fersku salati

elda Við fjölskyldan lögðum land undir fót um páskahelgina. Bara við fjögur. Það er alltaf notalegt þegar maður dregur sig svona í hlé út úr borginni og kúra sig einhversstaðar niður. Fara í gönguferðir, ef veður leyfir, bíltúra, spila og borða góðan mat. Veðrið hefur aðeins verið að leika okkur grátt eins og aðra landsmenn og því vorum við mest inni fyrir í dag. Snædís bakaði vöfflur og vindurinn lamdi á glugganna. Dásamlegt. 

Maður er eiginlega dauðans feginn að það sé kominn löng páskahelgi og frí frá vel flestum fjármálafréttum. Fyrir þá sem eru að fara að flytja utan næsta haust eru öll tíðindi af fallandi gengi íslensku krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum nóg til að éta sundur magaslímhúðina á vöskustu mönnum. Og ég er ekki vaskasti maðurinn! 

Ég var eiginlega búinn að skipuleggja matseðill fyrir alla páskahelgina. Í gær var ljúffengur kjúklingapastaréttur. Í kvöld saltfiskur, á morgun gæsabringur, svo nautasteik og auðvitað páskalamb á páskadag. Vona að ég nái að koma flestu til skila. Mig rekur í minni að ég hafi áður sett á netið kjúklingapasta þannig að ég einbeiti mér að því að blogga saltfiskinn.   saltfiskur

Saltfiskur arabiatta með hrísgrjónum og fersku salati 

Arabiatta er fremur heit sósa sem er hefðbundið er notuð með pasta og er alveg ljúffengur réttur. Ég veit ekki hvort að mín útgáfa sé mjög lík þeirri sem þið kunnið að lesa í matreiðslubókum – það má vera – en ég er ekki með matreiðslubók með mér, er ekki nettengdur í húsinu okkar og þetta er einvörðungu gert eftir minni. Ég vona að púrítanar fyrirgefi mér þetta! 

800 gr af góðum saltfisk – ég er með þykk hnakkastykki – eru skorinn í fallega bita, hjúpuð með bragðbættu hveiti, 2 matskeiðar hveiti, salt og pipar og svo afar smátt skorinn steinselja )sett í poka og hrist vel saman - svo er hverju stykki fyrir sig sett í pokann og fiskurinn hjúpaður) og svo steikt á pönnu í kannski mínútu á hvorri hlið. Svo er fiskurinn færður í eldfast mót og bakaður við 180 gráður í 12 mínútur.  

Sósan var svona tómat-paprikusósa. 4 hvítlauksrif og hálfur kjarnhreinsaður chilli (barnvæn útgáfa – hetjur setja meira) steikt við lágan hita í smávegis af jómfrúarolíu. Þegar chillið og hvítlaukurinn er farin að mýkjast er einum fínt skornum rauðlauk bætt saman við og steiktur þar til mjúkur. Þá er heilli (fremur stórri) gróft skorinni rauðri papríku og steikt áfram þar til hún fer að mýkjast. Bætti einnig hálfri dós af ólífum skornum í helminga. Mikilvægt er að bæta smá salti og pipar saman við til að draga fram vökvann úr grænmetinu. Hálft glas af hvítvíni er sett saman við og svo einni dós af niðursneiddum tómötum bætt saman við (dósin svo aftur hálffyllt með vatni og bætt útí) og og suðunni leyft að koma upp. Saltað og piprað eftir smekk, bætti einnig 2 tsk af sykri saman við. Átti afgangs smávegis af þeyttum rjóma (eftir vöfflurnar hennar Snædísar) og setti 2 matskeiðar og hrærði vel. Leyft að sjóða á meðan annað var eldað.

Með matnum voru borin fram Jasmín hrísgrjón og ferskt salat, nokkrir kirsuberjatómatar, fetaostur og paprikubitar. Einnig fengum við okkur smátár af hvítvíni með matnum, núna var það Lindemans Chardonnay úr kassa. Bragðgott og frískandi en eftirbragðið í styttra lagi. Mjög gott af kassavíni að vera.


No comments:

Post a Comment