Monday 17 March 2008

Ljúffengur lax með hvítlauk, chilli og engifer með avókadó og tómata salati

skíði Eins og kom fram í seinustu færslu var ég að koma frá Austurríki þar sem ég var á skíðum fyrir rúmri viku síðan. Það er ekki lítið sem maður saknar þess að renna sér niður brekkurnar. Það er eitthvað dásamlegt við að láta sig líða niður hvítar brekkur í góðu veðri. Því miður missti ég af því að fara í Bláfjöll um helgina sem mér skilst að hafi verið dásamlegt. Ég skrapp hins vegar á árshátíð félags læknanema sem var alveg stórskemmtileg - læknanemar kunna að skemmta sér!

Á laugardaginn skrapp ég í gönguferð í góða veðrinu. Þar stoppaði ég í versluninni og kaffihúsinu Kaffifélaginu á Skólavörðustíg. Ég hef nokkrum sinnum verslað þarna áður og fengið góða vöru og góða þjónustu en á laugardaginn fékk ég framúrskarandi þjónustu og frábært kaffi. Ég keypti síðastliðið haust Rancilio Silvia kaffivél af versluninni Kaffiboð á Barónsstígnum. Skemmtileg verslun - aðeins opinn eftir hádegi, en ekki alltaf en einnig eftir pöntun. Mjög gaman að spjalla við hann Einar sem rekur þá verslun. Eftir því sem ég kemst næst rekur konan hans Kaffifélagið. Þar komst ég á bragðið með Cafe Ottolina. Cafe Ottolina er mitt uppáhaldskaffi, á því er engin vafi. Kannski fæ ég afslátt næst þegar ég kem þangað - hver veit?

Ég fékk ekki fyrir svo löngu nýjustu bók Nigellu Lawson - Nigella Express- skemmtileg bók þar sem áherslan er að elda góðan mat - hratt. Þó ég sé ekki mikið að flýta mér í eldhúsinu þá er stundum ágætt að ná að hasta þessu af skemmri tíma. Uppskrift ekki svo óbreytta þessari sá ég í þessari góðu bók. Nema þar var laxinn skorinn á annan máta og ekki var notaður hvítlaukur, chilli eða engifer né þessi ágæta kalda sósa sem ég bjó til sem var alveg ljúffeng.

lax3 Ljúffengur lax með hvítlauk, chilli og engifer með avókadó og tómata salati

800 gr af laxi var með roðinu var skorinn niður í fallegar sneiðar. Mikilvægt er að hafa roðið á þar sem steikt laxa roð er einstaklega gott á bragðið. Smávegis af jómfrúarolíu er smurt á laxinn og hann svo saltaður með Maldon salti og nýmöluðum pipar. Næst var 2 msk af grænmetisolíu og ein teskeið af ristaðri sesamolíu, sem ég fékk að gjöf nýverið, hituð á pönnu. Áður en að olían var farin að hitna var hálfum smáttskornum og kjarnhreinsuðum chilli pipar, 4 cm af smáttskornum engifer og svo þremur smáttskornum hvítlauksrifjum (núna er ég farin að skera allan hvítlauk - er að lesa bók eftir Anthony Bourdain, Kitchen confidential- og þar segir hann að hvítlaukspressur séu bara fyrir aumingja...ég sem á eina nýlega frá Kokku!). Þegar að laukurinn, chilli og engiferinn var farin að krauma, en ekki að taka lit - var laxinn færður á pönnuna roðið niður og steikt um stund. Þá var laxinum snúið og hann steiktur áfram í nokkrar mínútur þar til tilbúinn.

 Salatið var einfalt. Ég fékk blandað salat, lagði á disk. Skar tvo litla avókadó ávexti í sneiðar og lagði ofan á. Svo raðaði ég nokkrum krisuberjatómötum skornum í helminga, 2 tsk af smátt söxaðri steinselju og svo salatdressingu gerða úr; 1 msk jómfrúarolíu, safa úr hálfri sítónu, skvettu af hvítvínsediki, salti, pipar og svo 1/2 msk af hlynsírópi. Þetta var hrært vel saman og dreift yfir salatið.

lax2 Með matnum var sýrðrjómasósa - hálf dós af 10% sýrðum rjóma, 1,5 cm af engifer og eitt hvítlauksrif er saxað mjög smátt niður. Safi úr hálfi sítrónu. 1 msk af hlynsírópi. 2 tsk af smátt saxaðri ferskri steinselju, 1 tsk af hvítvínsediki og 1 tsk af jómfrúarolíu. Salt og pipar. Hrært vel saman og látið standa á meðan maturinn er útbúinn. Þannig ná öll þessi hráefni betra samspili og jafn sig. Smávegis af sósunni dreift yfir laxinn og svo skreytt með niðurskornum graslauk.

Með matnum var borin fram Jasmín hrísgrjón. Einnig nutum við Wolf Blass President Selection Chardonnay (vó - langt nafn - en gott vín). Þetta vín ku vera sérvalið af forstjóra fyrirtækisins. Frískandi og með talsverðu ávaxtabragði og smávegis eik. Verð í efri kantinum en virkilega þess virði.


No comments:

Post a Comment