Sunday 24 March 2019

Heimabakstur: Ekki hnoða mig - saðsamt og ljúffengt súrdeigsbrauð


Hvað er betra en brakandi stökkt nýbakað súrdeigsbrauð,? Jú, það er að skera volgt brauðið niður og smyrja það með þykku lagi af smjöri! Sælgæti! Það verður þó að viðurkenna að ég baka mun sjaldnar nú en áður. Því kenni ég um bökurum Brauð & Co sem hafa lyft brauðmenningu á Íslandi í áður óþekktar hæðir. En þó að brauðið hjá þeim sé afar ljúffengt þá er eitthvað sérstaklega verðlaunandi við að baka. Taka hveiti og umbreyta því í saðsaman og ljúffengan brauðhleif. 

Heimabakstur: "Ekki hnoða mig" - saðsamt og ljúffengt súrdeigsbrauð

Ég hef stundum fengið súr hjá þeim í Brauð og Co og haldið honum lifandi heima í einhverjar vikur. En það er í sjálfu sér ekki flókið að útbúa hann sjálfur. Það er gnæg af uppskriftum á netinu. Þessa uppskrift bjó ég til fyrir Grillbókina mína sem kom út vorið 2016.

Annars hafa "ekki hnoða mig" brauð verið nokkuð vinsæl á undanförnum árum. Aðferðin hefur lengi verið til en bandaríski bakarinn Jim Lahey gerði henni hátt undir höfði í bók sinni My Bread sem kom út árið 2012. Ég gerðist svo djarfur að stela þessari uppskrift, breyta lítillega og nota í eina af matreiðslubókunum mínum - auðvitað breytti ég henni aðeins, svona rétt til að létta á samviskunni. 

Á seinni árum varð mér líka ljóst að það er vel hægt að gera þessa uppskrift með súrdeigi og sú aðferð er engu flóknari. Það eina sem þarf er tími. Og hver á ekki nóg af honum? 

Þessi aðferð er þó frábrugðin hefðbundnum brauðbakstri á þann hátt að deigið er ekkert hnoðað (eins og nafnið gefur vissulega til kynna), það fær að hefast í rúmlega hálfan sólarhring og er mun blautara en það brauðdeig sem maður er almennt vanur. 

Fyrir súrdeigið

5 dl vatn
100 g spelthveiti
50 g heilhveiti
50 g rúgmjöl


Hellið vatninu og öllu mjölinu í krukku og hrærið vandlega saman. Látið standa í opinni krukkunni í einn til tvo daga við stofuhita til að fanga villta gerið sem finnst í umhverfi okkar. Hrærið reglulega í krukkunni. Eftir einn til tvo daga má setja lok á krukkuna en látið hana standa áfram við stofuhita í um viku eða þangað til gerið fer að ilma eins og ferskur bjór eða brauð að hefast. Gætið þess að hræra a.m.k. tvisvar daglega í krukkunni. Geymið síðan súrdeigið í ísskáp. Þegar tekið er af því þarf að „mata“ það með því að bæta hveiti og vatni í krukkuna til að halda því við. Gott súrdeig getur lifað í ár og öld!

Fyrir tvö meðalstór súrdeigsbrauð

Þessi uppskrift byggir á ákveðnum hlutföllum. Það er settur einn hlutur af súrdeigi, tveir af vatni og svo þrír af hveiti. 

400 ml súrdeig
800 ml vatn
1600 g hveiti 
3 tsk salt


Afsakið gæðin á myndunum. Tók myndirnar síðla kvölds rétt áður en ég fór í háttinn. Byrjaði á því að setja súrinn í stóra skál.


Næst var svo hveiti, vatn og salt.


Svo er deigið hrært í örskamma stund þangað til að það er vel blandað saman. 


Viskastykki breitt yfir og deigið látið hefast til morguns.


Deigið hafði tvöfaldast í stærð og ilmurinn af því var dásamlegur.


Svo var bara að móta það í tvo hleifa.


Ég setti steypujárnspott inn í ofn og blússhitaði ofninn. Þegar potturinn var orðinn funheitur kom ég deiginu fyrir í pottinum og bakaði með lokið á í 20 mínútur og svo án loks í aðrar 20 mínútur eða svo.


Mér fannst brauðið takast nokkuð vel.


Prófaði að skera í seinni hleifinn, svona kross og bakaði á sama hátt nema þegar ég tók lokið af setti ég 2 ísmola í botninn á ofninum til að búa til gufu og fá þannig meiri lit á skorpuna.


Brauðin fengu svo að kólna á grind í klukkustund áður en þau voru sneidd niður.


Uppáhaldsaðferðin mín við að borða nýtt súrdeigsbrauð er með nóg af smjöri.

Brauðið var himneskt.

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

No comments:

Post a Comment