Thursday 21 March 2019

Fantagóðir þorskhnakkar innblásnir frá Austurlöndum fjær með steiktu grænmeti


Ég vona að enginn frá Austurlöndum fjær lesi þessa uppskrift því hérna úir og grúir saman hráefni hvaðanæva að. Þarna er að finna eitthvað frá Kóreu og sitthvað frá Indlandi. Það er langt á milli þessara landa en í huga manns, þá er þetta svo skammur vegur. Sérstaklega þegar maður hefur ekki komið þangað. Þá verður bara að duga að ferðast á bragðlaukunum. Þeir geta borið mann hálfa leið umhverfis hnöttinn. 

Og þessi uppskrift er gráupplögð til að lífga upp á vikuna. Og svo er hún líka fljótleg. 

Fantagóðir þorskhnakkar innblásnir frá Austurlöndum fjær með steiktu grænmeti

Þau framandi hráefni sem er að finna í þessari uppskrift er hægt að kaupa í þeim asísku mörkuðum sem er að finna á höfuðborgarsvæðinu. 

Hráefnislisti fyrir fimm

1 kg þorskhnakkar
4 hvítlaukrif
7 cm engifer 
4 msk jómfrúarolía
3 kaffir lime blöð
1 msk Gochugang (chilipaste)
1 msk siracha sósa
2 msk tómatmauk
1 dós af niðursoðnum tómötum
1 msk papríkuduft
1 msk garam masala duft 
1 kúrbítur
1 haus blómkál
1 bolli edame baunir
1/2 rauð papríka



Fyrsta skrefið er að skera niður hvítlauk og engifer og steikja helminginn í jómfrúarólíu þangað til að eldhúsið ilmar dásamlega.


Þá er að bæta kaffirlime blöðum saman við og steikja í mínútu í viðbót.


Þá er að bæta við chilimauki (paste), tómötum og tómatmauki og steikja áfram í mínútu eða svo við lágan hita.


Lokaskrefið við sósugerðina er að bæta við smá skvettu af sirachasósu. 


Næst var að huga að fiskinum. Nuddaði hann upp úr jómfrúarolíu og svo var hann kryddaður með blöndu af papríkudufti og garam masala. 


Fiskurinn var svo steiktur í nokkrar mínútur í jómfrúarolíu. 


Færði hann svo yfir í eldfast mót og hellti sósunni yfir og bakaði í 15 mínútur í 180 gráðu heitum ofni.


Seinni helmingurinn af engifernum og hvítlauknum var næst steiktur í jómfrúarolíu.


Grænmetið var korið niður og steikt á meðan fiskurinn var í ofninum. 


Með matnum nutum við svo flösku af Ramon Bilbao Sauvignion Blanc frá því 2017. Þetta er ferskt hvítvín sem hefur bragð af sítrusávexti og smá eik í eftirbragðinu. Sómdi sér vel með þessum bragðmikla og bragðgóða rétt. 


Þetta var sko veisla í miðri viku.

Bon appetit!

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

No comments:

Post a Comment