Monday 11 January 2010

Gómsætur indversk innblásinn laxaréttur með bulgur, snöggu naanbrauði og frískandi raitu

Nefndi það í seinustu færslu að ég ætlaði að skella þessari uppskrift á netið. Við erum að vanda okkur við að borða aðeins hollari mat, og þar leikur fiskur og grænmeti náttúrulega lykilhlutverk. Lax er einn af mínum uppáhaldsfiskum. Bestur er hann auðvitað villtur úr íslenskri náttúru og þá langbestur sé hann veiddur af eiginkonu minni. Þá er maður glaður. Hann er líka ágætur af stönginni hjá honum tengdapabba en hann er duglegur að gauka að okkur reyktum laxi - sem hann lætur reykja fyrir sig á Laugarvatni.

Fyrir nokkrum árum sá ég norska sjónvarpskokkinn Andreas Viestad elda lax á fjóra vegu í þættinum New Scandinavian Cooking. Þetta voru ansi skemmtilegir þættir. Fyrsta og önnur sería var í umsjón hans, árið eftir sá hin sænska Tina Nordström (sem Svíar algerlega elska) og nú seinast sá hin danski Claus Meyer. Ég saknaði þess alltaf að Ísland ætti engan fulltrúa meðal þessa góða fólks og sá fyrir mér hinn akureyska Friðrik V taka það með glans. Það er maður sem bæði kann að elda og tala - ekki öllum íslenskum sjónvarpskokkum er töm sú listin að ræða við myndavélarnar á sama tíma og þeir iðka list sína. En hann kann að lýsa matnum sem hann eldar - heimsókn á veitingahús hans er líka sögustund um uppruna hráefnisins sem hann eldar.
Ég hef eldað uppskriftir Andreas Viestad nokkrum sinnum og líka þessa sem ég kalla mína eigin. Allavega er þessi færsla  hér ein af þeim fyrstu sem ég birti. Ætli ég geti ekki líka kallað þessa uppskrift mína eigin - alltént man ég ekki eftir því að hafa stolið þessu nokkursstaðar frá. Annars finnst mér eiginlega ekki hægt að stela uppskriftum  - þetta er ekki eins og með skáldskap - uppskriftir eru bara leiðbeiningar, og þær breytast um leið og næsti kokkur kaupir hráefni og mælir hlutföll.

Gómsætur indversk innblásinn laxaréttur með bulgur, snöggu naanbrauði og frískandi raitu

Blandaði saman bolla af jógúrt, 3 msk af góðu rauðu curry paste, 3 msk af tandorri masala kryddi, 2 msk tómatpuré, safi úr hálfu lime, salti, pipar, smá chili dufti og teskeið af sykri. Skolaði og þurrkaði eitt kíló af norskum eldislaxi og lagði í eldfast mót. Dreifði svo þessari blöndu í þykku lagi yfir laxinn. Bakaði við 180 gráður í sirka 15-20 mínútur í forhituðum ofni þar til tilbúið.

Bulgur var soðið samkvæmt leiðbeiningum í söltuðu vatni. Raitan var líka einkar einföld. Meiri jógúrt, u.þ.b. bolli, 3 maukuð hvítlauksrif, hálf agúrka - kjarnhreinsuð, salt og pipar og smá sykur.

Naan brauð: 500 gr af hveiti hellt í skál, 1,5 tsk af salti, 1 tsk lyftiduft, 1/3 tsk matarsódi, sirka 200 ml af jógúrt og svo smávegis vatn til að binda þetta í silkimjúkan klump. Svo var klipið af deiginu og það flatt út í litla klatta, penslað með hvítlauksolíu og saltað með Maldon salti og svo þurrgrillað á heitu "griddle" (stór grillpanna) þar til tilbúið.

Með matnum vorum við líka með einfalt salat, af grænum laufum, tómötum, kúrbít og steinselju.

Verði ykkur að góðu!

laxinn


2 comments:

  1. MMMM, Nautnabelgur fær vatn í munninn. Við prófum þetta. Allt of lítið gert af því að elda fisk í anda indverska elhússins.

    ReplyDelete
  2. Blessaður bekkjarbróðir!
    Ógeðslega góður réttur, takk kærlega! :)

    ReplyDelete