Thursday 18 July 2019

Flankasteik, elduð undir áhrifum frá Kóreu, með kínakáli á tvo vegu - grilluðu, kimchi og hrísgrjónum


Er ekki óhætt að segja að sumarið sé hálfnað? Hálfur júlí er liðinn og maður er svo þakklátur fyrir þessa frábæru daga sem við höfum fengið síðan um miðjan maí. Og þegar veðrið leikur við mann er lítið annað að gera en að grilla. Meira að segja núna þegar "ekta" íslenskt sumar er farið að láta á sér kræla - með skýjahulu og einstaka rigningardropum er óhætt að halda því fram að þó að það myndi rigna fram á haust - að þetta hafi verið besta sumarið í manna minnum. Flankasteik er ljúffeng nautasteik sem verður gjarnan seig - sé illa með hana farið en fari maður rétt með hana rétt - verður hún ekki bara ljúffeng og bragðgóð - þá verður hún líka lungamjúk. Galdurinn er að marinera hana aðeins áður, þannig brýtur maður niður vöðvaþræðina og svo gildir að elda hana ekki of lengi. Þá á hún það til að dragast öll saman og verða seig. Þá gildir einnig að sneiða bitann niður á réttan hátt - og skera þvert á vöðvaþræðina. Sé þessari aðferð fylgt verður steikin safarík og góð og það á mjög viðunnandi verði. 

Flankasteik, elduð undir áhrifum frá Kóreu, með kínakáli á tvo vegu - grilluðu, kimchi og hrísgrjónum

Eins og þið sjáið er hráefnalistinn  úr öllum áttum - en undir aðaláhrifum frá Kóreu!

Fyrir 4-6 manns

1 kg flankasteik
5 cm engifer
4 hvítlauksrif
1 rauður chilipipar
1 msk sesamolía
2 msk rauðvínsedik
2 msk mírin
safi úr hálfri sítrónu
4 msk soya sósa
4 msk jómfrúarolía
salt og pipar
handfylli fersk steinselja, mynta og graslaukur

1 kínakálshaus
4 msk hvítlauksolía
1 rauður chili
salt og pipar

Kimchi súrkál

Hrísgrjón


Flankasteikin er þunn og það þarf oftast lítið að snyrta hana.


Sneiðið hvítlaukinn, chili og engifer og nuddið við kjötið ásamt jómfrúarolíu, salti og pipar.


Blandið svo saman við rauðvínsediki, mirin, sesamolíu og sítrónusafa.Bætið svo kryddjurtunum saman við og látið marinerast í að minnsta kosti klukkustund - meira er betra. 


Sneiðið kínakálið, fyrst í helminga og starið svo í smástund á mynstrið sem verður til í náttúrunni.


Skerið svo í þriðjunga. Penslið með hvítlauksolíu og dreifið chilipiparnum yfir.


Það er skynsamlegt að setja kínakálið á grillið fyrst þar sem það tekur aðeins lengri tíma að verða tilbúið.


Svo er bara að keyra upp hitann á grillinu. Það þarf ekki að grilla flankann nema í tvær mínútur á hvorri hlið.


Eftir að kjötið hefur fengið að hvíla í nokkrar mínútur - er það sneitt niður í þunnar sneiðar. Ég skreytti það með nokkrum graslauksblómum sem voru nýútsprungin þegar ég var að elda þennan ljúffenga rétt.


Auðvitað ætti ég að vera búinn að útbúa mitt eigið kimchi - það er nógu einfalt - en það hafði ég ekki gert og því hafði ég keypt þetta út úr búð. Þetta Kimchi rýfur aðeins í og er sérlega bragðgott. 


Með matnum buðum við uppá Beringer Knights Valley Cabernet Sauvignion frá 2014. Þetta er vín sem ég hef smakkað áður, enda er það ljúffengt. Hafði sótt mér þessa í tollinn þegar ég var á ferðinni síðast. Þetta er mjög kraftmikið vín. Mikið af dökkum ávexti í sopanum - með góðu jafnvægi, mjúkt og langt eftirbragð. 


Sósan var eins einföld og hugsast getur. Ég sauð upp marineringuna af kjötinu - og lét krauma um stund til að sjóða hana niður og þétta sig. Setti síðan klípu af smjöri til að fá gljáa og dýpt í sósuna.

Svo var bara að setjast niður og njóta.

Verði ykkur að góðu

------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

No comments:

Post a Comment