Saturday 17 November 2018

Ljúffengir ofnbakaðir kartöflustaflar með hvítlauksolíu og 12 mánaða svörtum Tind úr Skagafirði


Það er morgunljóst að kartöflur og ostur passa ótrúlega vel saman (reyndar passa kartöflur líka rosalega vel með rjóma og smjöri). Nýverið kom frétt á vegginn minn á Facebook að það væri verið að setja á markað nýjan íslenskan ost. Kannski ekki alveg nýjan - um er að ræða ostinn Tind, sem er óðalsostur sem fær þroskast í 12 mánuði, umlukinn svörtu vaxi. Með því að láta ostinn þroskast lengur dýpkar bragðið heilmikið og tekur á sig annan tón. 

Mér finnst sérstaklega gaman að nota svona osta í matargerð. Ég komst á bragðið með þetta þegar ég bjó í Svíþjóð. Þar kynntist ég osti - Västerbotten - sem mér finnst mjög ljúffengur og finnst gott að nota, t.d. í gratín. Hann fær einmitt að þroskast í nokkra mánuði eins og Tindur - sem er líka þeim kostum gæddur að bráðna vel. 

Faðir minn á heiðurinn af þessari uppskrift - en hann er mikill unnandi kartaflna, eiginlega sama hvernig þær eru eldaðar. En þegar maður veltir þeim upp úr hvítlauksolíu og osti - þá er maður að miða á stjörnurnar. 

Ljúffengir ofnbakaðir kartöflustaflar með hvítlauksolíu og 12 mánaða svörtum Tind úr Skagafirði

Fyrir sex 

500 g kartöflur
6 msk hvítlauksolía
200 g svartur Tindur (eða Tindur, Búri eða t.d. Cheddar)
salt og pipar
timjan til skrauts. 

Þetta er auðvitað sára einföld uppskrift - en það er oft þannig - einfalt og sérlega ljúfengt. 

Ostinn nálgaðist ég í Ostabúðinni á Skólavörðustígnum. En mér skilst að hann komi ekki í almenna sölu fyrir en eftir áramótin. Fram að þeim tíma má að sjálfsögðu nota venjulegan Tind - hann gefur þessum ekkert eftir þó svo hin svarti hafi aðeins dýpri karakter. Þá má að sjálfsögðu líka prófa Búra eða cheddar. Það myndi án efa slá í gegn þar sem allir þessir ostar eiga það sameiginlegt að bráðna vel! 


Skerið kartöflurnar niður heldur þunnt. Auðvitað má gera það með mandólíni - en það breytir í raun ekki miklu. 


Kartöflunum er svo velt upp úr hvítlauksolíu. Saltað og piprað.


Svo er það aðaleikarinn. Þetta er fantagóður ostur - bragðmikill en mjúkur á bragðið. 


Svo er bara setja fallega svuntu á föður sinn og fá hann til að saxa ostinn í smáa bita. 


Svo er bara að raða upp kartöfluskífunum upp, gæta sína að dreifa ostinum á milli laga. 


Aðalmálið er að láta kartöflustaflana halda jafnvægi. Skreyta með timjan.

Svo er bara að baka kartöflurnar í þrjú kortér við 180 gráðu hita.


Svo er lítið að annað að gera en að gæða sér á þessu sælgæti! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

No comments:

Post a Comment