Saturday 15 September 2018

Stolin uppskrift; Mangó, avókadó og bleikjusashimi - blóm með ponzusósu - mín útgáfa


Ég hitti nýverið Dröfn Vilhjálmsdóttur matarbloggara og lífskúnstner og varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að smakka þennan rétt hjá henni. Þvílíkur réttur - ferskur og bragðmikill. Auðvitað gætuð þið smellt á þennan hlekk - og farið beint yfir á síðuna hennar og gert upprunalegu útgáfuna. Ég skil ykkur bara mætavel!

Nokkrum dögum eftir að við hittumst var ég með gesti í mat og auðvitað varð ég að kynna vini mínum fyrir þessari frábæru uppskrift. Og til þess að hafa eitthvað til að skrifa um - varð ég auðvitað að breyta henni lítillega. Þannig finnst mér skemmtilegt að elda - elda eftir minni og reyna að líkja eftir einhverri matarupplifun.

Svo er líka sagt að það að herma eftir einhverjum sé hæsta form hóls!

Ekki er verra hvað þetta er fljótlegur forréttur. Hann verður eiginlega bara tilbúinn þegar maður er búinn að skera niður í hann og raða honum á disk.

Stolin uppskrift; Mangó, avókadó og bleikjusashimi-blóm með ponzusósu - mín útgáfa.

Fyrir sex

400 g bleikja
2 avókadó
1 stórt mangó
50 g fetaostur
salat til skrauts
sítrónusafi

3 msk jómfrúarolía
3 msk soyasósa
2 cm engifer
1 hvítlauksrif
1/2 rauður chili
1 tsk sykur
safi úr hálfri sítrónu
1 msk ristuð sesamfræ
salt og pipar


Ég held að það sé skynsamlegt að byrja á því að gera sósuna. Sósur eins og þessar njóta þess að fá að kynnast í tvö til þrjú kortér áður en þær eru notaðar - þannig fá hráefnin smástund til að blandast saman. 

Ég byrjaði á því að rífa engifer og hvítlaukinn með rifjárni og setja saman við olíuna, sítrónusafann, sykurinn og soyasósuna. Svo kjarnhreinsaði ég chilipiparinn og bætti saman við. 


Svo var þurrristuðum sesamfræjum bætt saman við og smakkað til með salti og pipar. 


Næst var að sinna bleikjunni. Ég hafði keypt Klausturbleikju í Fiskbúðinni við Sundlaugaveginn. Það hefði eins mátt nota Fjallableikju eða jafnvel lax. 


Skar bleikjuna í þunnar sneiðar og penslaði þær svo með smáræði af sítrónusafa. Þannig eldar maður fiskinn lítillega.


Þessi mynd er eiginlega bara til að sýna að mér tókst að kaupa ekki bara eitt heldur tvö fullkomlega fersk avókadó. Hélt eiginlega að þetta væri algerlega ómögulegt á Íslandi! Skar það svo niður í sneiðar eins og mangóið.  


Svo var lítið annað að gera en að raða réttinum saman. Ég gerði tilraun til að raða þessu upp eins og einhvers konar blómi. Skreytti með muldum fetaosti, nokkrum salatblaðatoppum og reyndi svo að dreifa ponzusósunni jafnt yfir. 


Með þessum rétti bar ég fram þetta ljúffenga hvítvín, Leyda Reserva Sauvignion Blanc frá 2016. Þetta vín er frá Chile. Þetta er nokkuð ferskur sopi - með vanillu og pínu sætum rúsínukeim í nefi og svo mjúk smjörkennd sítróna á bragðið. Bar sig vel með bragðmiklum forréttinum. 

Þetta var sannarlega góður forréttur. 

Það var vel þess virði að stela honum af Dröfn - ég á án efa eftir að gera hann aftur. 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

No comments:

Post a Comment