Sunday 11 December 2016

Dásamlegur eftirréttur - Crema Catalana með syndsamlegri karamellusósuBloggið mitt varð tíu ára nú um helgina. Ég byrjaði þessa vegferð fyrir 3650 dögum síðan. Aldrei hefði mig grunað að áratug síðar væri ég enn að - bloggandi um mat og matargerð. Síðan að ég hóf þessi skrif hef ég skrifað þrjár matreiðslubækur; Tíma til að njóta (2013), Veisluna endalausu (2014) og svo Grillveisluna sem kom út nú í vor. Þá hef ég einnig komið að gerð matreiðsluþátta á Skjá einum, auk þess að hafa birt uppskriftir í flestum íslenskum dagblöðum og nokkrum tímaritum. Þetta hefur verið mér ákaflega gefandi og ég hef lært ótrúlega mikið á þessum árum!

Crema catalana -  þetta er eftirrétturinn sem ég bar á borð á dögunum þegar við hjónin buðum vinahjónum okkar í heimsókn. Hægt er að lesa um forréttinn og aðalrétinn í þessari færslu, sjá hérna.

Þessi réttur á, eins og nafnið gefur til kynna, uppruna sinn að rekja til Katalóníu á Spáni. Hann er nú vinsæll, ekki bara um allan Spán, heldur um allan heim. Hann er gjarnan borinn á borð á síðasta degi föstunnar.

Og þessi réttur er einfaldur - en það þarf að gera hann í nokkrum skrefum - allir ættu að geta gert þennan ljúffenga eftirrétt.

Og hann er nógu ljúffengur og fallegur til að bera fram á jólunum.

Dásamlegur eftirréttur - Crema Catalana með syndsamlegri karamellusósu

Þetta er frábær eftirréttur frá Katalóníu á Spáni. Hann er ekki óskyldur Crème brûlée frá Frakklandi nema hvað Spánverjarnir láta rjómann alveg vera og nota bara venjulega nýmjólk. Niðurstaðan er samt einstaklega seðjandi og bragðgóð, sér í lagi þegar maður kórónar ljúfmetið með heimagerðri karamellu.

Þessi eftirréttur krefst þolinmæði. Uppskriftir að Crema Catalana kalla gjarnan á sólarhringsundirbúning ef vel á að takast til. En það er vel hægt að laga þennan eftirrétt á fjórum til sex tímum – fylgið bara þessum leiðbeiningum! Þegar vatnsbað er notað eru eldföstu mótin sett í ofnskúffu og heitu vatni hellt í hana þannig að það nái að minnsta kosti upp að miðju mótanna.

Og það er einfaldara en maður heldur að gera karamellu heimavið. Það þarf bara að bræða sykur og blanda rjóma við hann. Og, olé! – dásemdin er tilbúin í pönnunni!

Fyrir tólf

Fyrir búðinginn

1,2 l mjólk
1 vanillustöng
10 egg
50 g sykur
1 tsk vanilludropar
50 g smjör

Fyrir karamelluna í botninn

300 g sykur
12 msk vatn

Fyrir karamellusósuna yfir búðinginn

150 g sykur
150 ml rjómiRaðið 12 soufflé-mótum í ofnskúffu og setjið í 150°C forhitaðan ofn. Setjið sykurinn ásamt vatninu í pott og hitið að suðu.Hrærið með trésleif þangað til sykurinn er allur uppleystur í vatninu. Hættið að hræra þegar sykurinn er uppleystur og látið sjóða yfir vægum hita þar til hann fer að brúnast en gætið þess að hann brenni ekki.


Hellið sykursírópinu í heit formin þegar það hefur fengið á sig fallegan, koparkenndan lit og látið kólna við stofuhita. Smyrjið síðan formin með smjöri frá karamellubotninum og upp að brún og raðið þeim í djúpa ofnskúffu.


Setjið egg, sykur, vanilludropa og fræ úr einni vanillustöng í skál og hrærið vandlega saman. Hitið mjólkina í potti með útskafinni vanillustöng að 60°C, þá er óþægilegt að setja fingurinn í mjólkina en ekki óbærilegt. Hrærið volga mjólkina saman við eggjablönduna. Hellið eggjamjólkinni í mótin. 

Bakið í vatnsbaði í 30 mínútur við 150°C.  Takið mótin úr vatnsbaðinu og látið kólna í ísskáp. Til að losa búðinginn úr mótunum er þeim dýft í 10 sekúndur í heitt vatn og svo hvolft í skál. Það gæti þurft að renna hníf með brúnunum til að losa hann alveg.

Bræðið sykur á pönnu þar til hann fer að brúnast á jöðrunum. Ýtið því sem bráðið er inn að miðju þegar sykurinn fer að bráðna og haldið því áfram þar til allur sykurinn er uppleystur. Þegar sykurinn er allur uppleystur og farinn að brúnast hellið þið rjómanum saman við og hrærið rösklega.


Hellið karamellusósunni yfir búðinginn.


Við bárum að sjálfsögðu fram kaffi og með því með eftirréttinum. Við vorum með Sandemans medium sweet sherry sem passaði vel með þó að eftirrétturinn væri sætur. Þetta er styrkt vín frá Portúgal, fyrirtækið stofnsett 1790 af syni skosks skápasmiðs. Þetta vín er dökkt á lit, með miklu ávaxtabragði og löngu mjúku eftirbragði.


Njótið – því að þetta er fáránlega ljúffengt!No comments:

Post a Comment