Sunday 25 October 2015

Eldrautt jarðarberjakompót með þeyttum rjóma


Þetta er eftirréttur sem ég gerði í sumar þegar jarðarber voru til sölu út um allt. Af einhverri ástæðu hafði ég gleymt að setja hann inn á bloggið mitt fyrr en nú þegar ég er að færa allar ljósmyndirnar mínar inn á google photos að google aðstoðarmaðurinn (Assistant) minnti mig á þennan dag síðastliðið sumar.

Og þó að ég sé hrifnastur af því að elda í takti við árstíðirnar þá búum við samt í heimi þar sem hægt er að nálgast jarðarber allt árið um kring. Uppskrift eins og þessa mætti líka gera úr frosnum jarðarberjum og niðurstaðan yrði án efa líka ljúffeng.

Compote er forn aðferð við að meðhöndla ávexti þar þeir voru soðnir í vatni, sykri og kryddi sem þóttu hæfa vel. Þar sem þessi jarðarber voru ansi sæt taldi ég óþarfi að bæta sykri við en notaði þess í stað Dalfour jarðaberjasultu sem er gerð úr hreinum ávexti! Sykur er oftast bara óþarfi!

Eldrautt jarðarberjakompót með þeyttum rjóma

1,5 l fersk jarðarber
100 ml vatn
1 vanillustöng
100 g ósykruð jarðarberjasulta
safi af heilli sítrónu
2 tsk gelatín


Fyrst er að skera niður 2/3 hluta jarðarberjanna og sjóða þau með vatninu, sultu og vanillustöng.


Þegar þau er farin að detta í sundur bætti ég gelatíninu saman við, lét kólna í smástund og setti síðan í matvinnsluvél. Þá bætti ég afganginum af jarðarberjunum samanvið, sem ég hafði skorið niður í sneiðar.


Svo var þessu bara komið fyrir í fallegum glösum. Áður en kompótið var borið fram var það skreytt með þeyttum rjóma og jarðarberi. Og lítið myntlauf - bara til að sýna sig.

Bon appetit!


No comments:

Post a Comment