Sunday 5 October 2014

Ofngrillaðir kjúklingabitar með rótargrænmeti bakarans, rjómalagaðri sósu og einföldu salati


Þessi uppskrift er ótrúlega einföld og niðurstaðan sérlega ljúffeng. Hugmyndin er úr ýmsum áttum. Fyrirmyndin er frönsk - pommes boulangère - sem eru þunnt skornar kartöflur raðað saman með þunnum sneiðum af þunnt sneiddum lauk bragðbætt með timian og penslað með smjöri. Og auðvitað nóg af salti og pipar. Mín uppskrift var ekkert svo frábrugðin nema að ég notaði fjölbreytt úrval af rótargrænmeti sem ég átti inní ísskáp; maírófu, hnúðkál, sætakartöflu, nípu, seljurót, lauk og auðvitað venjulegar kartöflur.

Og svo kjúklingurinn. Ég er eiginlega með smjörpenslaðan kjúkling á heilanum. Þegar ég var að skrifa bókina mína - Veislan endalausa - datt ég niður á þessa fáranlegu einföldu en algerlega dásamlegu leið til að elda kjúkling. Pensla kjúklingabita með góðu smjöri - endurtaka það nokkrum sinnum á meðan kjúklingurinn bakast í heitum ofninum - með nóg af smjöri. Niðurstaðan er að kjúklingurinn poppast, kjötið verður lungamjúkt og húðin eins og kex. Mig langar hreinlega að endurtaka þessa uppskrift í þessum töluðum orðum. Smjör getur gert kraftaverk!

Það er gaman þegar einfaldar hugmyndir heppnast vel. Fátt er meira verðlaunandi en að taka fáein hráefni, raða þeim saman og úr verður veisla!

Ofngrillaðir kjúklingabitar með rótargrænmeti bakarans, rjómalagaðri sósu og einföldu salati

 Hráefnalisti

Fyrir fjóra til sex

12 kjúklingabitar
75 g smjör
salt og pipar
sítrónutimian

3 kartöflur
1 majrófa
1 hnúðkál
1 sætkartafla
1 gulur laukur
1 nípa
3 msk hvítlauksolía
3 msk ferskt sítrónutimian
300 ml kjúklingasoð


Flysjið allt grænmetið og takið ykkur síðan góðan hníf í hönd og skerið í þunnar sneiðar.


Penslið ofnskúffu með hvítlauksolíu, setjið salt og pipar í botninn og raðið svo grænmetinu upp í lögum. Setjið meira af hvítlauksolíu, salt og pipar. 


Setjið karföflurnar síðast, þær njóta þess best að brúnast í ofninum. Og ekki gleyma að raða fersku tímiani á milli laganna.


Hellið 300 ml af kjúklingasoði í ofnskúffuna. Saltið og piprið efsta lagið og dreifið smáræði af timiani yfir. Setjið inn í 180 gráðu heitan forhitaðan ofn og bakið í 30 mínútur áður en að kjúklingum er raðað ofan á. 


Ég keypti kjúklingalæri sem ég hlutaði í tvennt. Ég kaupi oftast kjúkling frá Bjäre sem er framleiddur á norðvestanverðum Skáni. Þar eru mannúðlegri aðferðir hafðar í hávegum við kjúklingaeldið. Kjúklingurinn er fóðraður með korni sem gerir það að verkum að kjötið er aðeins dekkra á litinn og hefur meira bragð. Svona eins og kjúklingur á að bragðast!


Ég skar líka aðeins neðan af leggjunum þannig að húðin á leggnum eigi meiri sjéns að dragast saman. Þá verður leggurinn ber - lítur smart út! 


Ofnskúffan er sótt úr ofninum. Gætið þess að brenna ykkur ekki. Leggið kjúklinginn ofan á og penslið með bráðnu smjöri. 


Saltið og piprið og raðað nokkrum greinum af timian með. Setjið aftur inn í heitan ofninn og bakið í 45-55 mínútur þangað til að kjúklingurinn er fallega gullinn. Penslið hann með smjöri á 10 mínútna fresti. 


Á meðan kjúklingurinn er í ofninum, útbúið þið sósuna. Hún var að þessu sinni ofureinföld. Átti ljúffengt heimagert kjúklingasoð inn í frysti sem ég afþýddi - 500 ml, sauð upp með 150 ml af rjóma. Saltaði og pipraði og þykkti með maisenamjöli. Smakkað til með smá soyasósu. 

Við drukkum þennan klassíker með matnum. Montes Alpha Cabernet Sauvignion frá því 2011. Þetta er vín frá Chile sem hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér og ég hef greint frá margoft hér á blogginu mínu. Svona er það stundum - það er alltaf gott að rifja upp gamla klassíkera - sér í lagi með svona veislumáltíð eins og þessari. Og þetta er kröftugt vín, þétt, bragðmikið með miklum ávexti og ljúfu eftirbragði. Þeir sem hafa ekki smakkað þetta vín ættu að sjálfsögðu að prófa! 


Og svo er ekkert annað að gera en að setjast að borðum, raða matnum á disk - skála svo við fjölskylduna og njóta. 
Læt fljóta með mynd af bókinni minni sem er á leiðinni til landsins og verður fáanleg í öllum betri bókabúðum nú fyrir jólin. Við munum efna til útgáfuveislu þann 31. október næstkomandi. Ykkur er öllum að sjálfsögðu boðið. 

Veislan endalausa! 

3 comments:

 1. Einfaldur og hollur haustmatur. Hlakka til að prófa hann.

  ReplyDelete
 2. Oh ég vildi að það væri hægt að prenta út án þess að það kæmu tonn af myndum með, en þetta hljómar spennandi og ég held ég muni prófa þennan rétt á sunnudaginn :)

  ReplyDelete
  Replies
  1. Sæl
   Það er góð hugmynd.
   Skal skoð hvort að það sé hægt.
   Mbk
   R

   Delete