Thursday 8 December 2011

Bloggið 5 ára! Besta uppskriftin? Íslensk/ítölsk kjötsósa með pennepasta, hvítlauksbrauði og insalata tricolore

alltafullu.jpg




Hef verið að velta því fyrir mér síðustu daga hvernig ég ætti að halda upp á fimm ára afmæli bloggsíðunnar minnar. Svarið kom svo til mín seinustu helgina í nóvember þegar ég var með nokkra góða nágranna í heimsókn. Ég hef síðustu þrjú árin boðið til mín góðum vinum í þessa ítölsku kjötsósu. Um hana hef ég bloggað áður, bæði gerða með nautahölum í fyrra og svo lambakjöti á árdögum þessa bloggs. Þessa uppskrift hef ég eldað sjaldnar en tíu sinnum en það er engin spurning í mínum huga að þetta sé ein sú besta uppskrift sem ég hef birt á síðunni minni.

Annars geri ég mér vel grein fyrir því að ég hef verið latur við að blogga síðustu tvær vikur. Fyrir því eru góðar skýringar. Í síðustu viku var ég á námskeiði sem er liður í stjórnunarnáminu sem ég hóf í haust. Þetta var ansi áhrifaríkt námskeið, UGL - utveckling av grupp och ledare - og fjallaði um hópdýnamík og hvernig hægt er að stuðla að áhrifaríku samstarfi á milli hóps af fólki. Námskeiðið tók heila viku og við vorum frá morgni til kvölds að rýna í eigin tilfinningar og annarra og skoða hvernig fólk hefur áhrif hvert á annað. Virkilega áhugavert - en maður var alveg úrvinda á eftir. Kannski þetta eigi eftir að koma manni að góðum notum verði maður einhvern tíma stjórnandi.

Vík nú aftur að blogginu mínu. Það á núna fimm ára afmæli. Það var sett á laggirnar 9. desember 2006 - og verður því fimm ára á morgun. Markmiðið var að að hvetja sjálfan mig áfram í eldhúsinu, og prófa nýja hluti. Til þess að læra meira um mat og matreiðslu hef ég ferðast um netið, í gegnum matreiðslubækur, horft á matreiðsluþætti og farið á milli landa í leit að uppskriftum til að gæla við bragðlauka mína. Ég hef birt nærri fjögurhundruð færslur - þessi er númer þrjúhundruðníutíuogsjö. Ég held að ég hafi eldað fjölbreyttar uppskriftir og nánast notað allt hráefni sem ég hef komist í tæri við. Bloggið hefur hvatt mig áfram í heimildaleit og við því að viða að mér þekkingu um vín, mat og matargerð! Ég hef fengið nærri sjöhundruðþúsund heimsóknir á Moggabloggið, yfir eitthundrað þúsund heimsóknir þegar ég var á Miðjunni og svipað núna á Eyjunni. Ég hef fengið fjölda athugasemda og margir hafa skilið eftir kveðju í gestabókinni og þær hafa glatt mig óskaplega mikið. Það er sérlega gaman að sjá að margir lesa það sem maður skrifar og fá innblástur að ævintýrum úr eldhúsinu mínu. Kærar þakkir fyrir að koma reglulega hingað í heimsókn - það eitt veitir mér endalausan innblástur að halda áfram að bæta mig í eldhúsinu!

Bloggið 5 ára! Besta uppskriftin? Íslensk/ítölsk kjötsósa með penne pasta og insalata tricolore

lambakjöt

Svona eldamennska hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér lengi. Bara núna nýverið gerði ég líka uppskrift ættaða frá Frakklandi, Beuf au cocotte, eftir ráðleggingum frá einum þingmönnum Framsóknarmanna, Eygló Harðardóttur. Ekki að ég sé fylgisveinn hennar í pólitík en uppskriftin var alveg ljómandi - blogga um hana síðar.


Eins og ég hef sagt áður er þetta alvöru matur, "old School" eldamennska með einföldu en góðu hráefni. Með því að gefa réttinum sinn tíma er hægt að gera flestan mat ljómandi góðan - jafnvel stórkostlegan!. Ekki að það þurfi neitt sérstök handtök til að gera íslenskt lambakjöt stórgott - alls ekki - en þessi uppskrift bara laðar út það besta; mýktina, áferðina, bragðið, eftirbragðið. Og í góðum félagsskap verður líka allt þeim mun betra!

lambakjötrósmarín

Eins og nefnt var áður þá er það eina sem þessi uppskrift krefst er tími! Það má eiginlega ekki elda þetta á skemmri tíma en svona 3 klukkutímum - en það þarf ótrúlega lítið af hafa fyrir þessu - Og þetta eldar sig eiginlega sjálft. Þess ber að geta að ég var að elda fyrir rúmlega tuttugu manns.

graenmeti.jpg

Rúmlega 4 kíló af lambakjöti, mestmegnis lærisneiðar en einnig sneiddur frampartur, er þvegið og þurrkað vel. Saltað vel og piprað og látið bíða augnablik á meðan grænmetið er undirbúið og steikt.

Tveir heilir hvítlaukar er saxaður niður og sömu örlög hljóta 4-5 fremur stórir laukar - hvítir eða rauðir - það skiptir eiginlega ekki máli. 3-4 gulrætur eru flysjaðar og skornar í litla bita og einnig þó nokkrar stangir af sellerí. Stór pottur er settur á hlóðirnar og grænmetið er steikt í vænum slurk af olíu - það er sennilega óþarfi að nota extra virgin olíu til að steikja upp úr - margir kokkar segja að svoleiðis olía missi sitt sérstaka bragð við steikingu og því sé óþarfi að spandera góðri olíu í slíkt - ég nota bara það sem hendi er næst! Mikilvægt er að brúna ekki grænmetið.

brúnum kjöt

Þegar laukurinn er orðin glær er kjötið sett út í og brúnað á öllum hliðum í hóflegum skömmtum - passa sig að setja ekki of mikið af kjöti í einu í pottinn - annars sýður það bara. Við viljum að það brúnist. Saltað og piprað á milli. Kjötið er sett á disk á meðan allt er brúnað - mikilvægt að passa allan safa af kjötinu - ekkert má fara til spillis! Þegar búið er að brúna kjötið hellti ég einni flösku af rauðvíni saman við grænmetið - sauð áfengið og bætti síðan kjötinu saman útí aftur.

Þá setti ég 5 dósir af góðum niðursoðnum tómötum útí og jafnmikið af vatni. 2 litlar dósir af tómatapaste er einnig sett út. Mikilvægt er að grænmetið og kjötið, sem gjarnan festist við botninn á pottinum, losni frá þegar vökvinn er settur úti.  Saltað og piprað á nýjan leik.

tómatar

Ef fólk vill krydda á þessum tímapunkti er mikilvægt að nota bara kryddjurtir sem þola langa eldun eins og lárviðarlauf eða rósmarín. Ég bjó til vönd af kryddjurtum; rósmarín, lárviðarlauf, timian, majoram.

beauqetgarni.jpg

Suðan er látin koma upp og leyft að krauma við lágan hita  í 2-3 klukkustundir með lokið á - í þetta sinn setti ég pottinn inn í ofn, 180 gráðu heitan. Síðasta klukkutímann er potturinn settur aftur á hlóðirnar og þá er lokið tekið af pottinum og svo fær rétturinn að malla og sjóða rólega niður. Þetta þarf að sjóða niður minnst um þriðjung til helming. Það er auðvelt að sjá hvenær kjötið er tilbúið - þá fer það eiginlega sjálft að detta í sundur og renna af beinunum. Smakka - ef meiri kraft vanar í réttinn - t.d. ef lítið af beinum var með kjötinu þarf stundum að setja kraft - en yfirleitt ekki! Að þessu sinni þurfti ekkert að gera - annað en að salta og pipra!

suðan kemur upp

Þegar rétturinn fer að verða tilbúinn er rétti tíminn til að setja fleiri kryddjurtir sem þola minni eldun eins og basil og steinselju. Skera kryddið niður og hræra saman við sósuna. Mikilvægt er að smakka sósuna til á þessum tímapunkti. Stundum eru tómatarnir súrir og þá þarf að sæta sósuna annað hvort með sykri eða jafnvel syndga með tómatsósu. Mikilvægt er að salta og pipra vel - alltaf Maldon og nýmalaðan pipar.

kjötsósan

Gott pasta er soðið í miklu söltuðu vatni með smá olíu. Þegar pastað er að verða tilbúið er vatninu hellt af því - best að láta pasta í gróft sigti og hrista vatnið vel af - hafa verður hraðar hendur því pastað þarf að komast aftur í pottinn. 2-3 ausur af sósu er settar yfir pastað og hrært vel þannig að það tekur allt rauðan lit. Látið standa í tvær til þrjár mínútur. Pastað sogar inn í sig sósuna og verður alveg frábært á bragðið.

tricolore

Borið fram með insaltata tricolore sem er auðvitað alger klassíker - þetta er engin uppskrift sem þarf að kynna. Það er alltaf gott að bera þetta fram og ég verð aldrei leiður á því að borða þetta. Það er eitthvað við samsetninguna á ferskum mozzarellaostinum, fallegum rauðum tómatnum og svo djúpt grænu basillaufinu - einu af mínum uppáhaldskryddum. Nóg af góðri jómfrúarolíu og svo salt og pipar í gnægðum og allir sleikja útum.

hvítlauksbrauð

Gerðum svo einfalt hvítlauksbrauð. Skárum niður nýjar baguettur og pensluðum með hvítlauksolíu og

imaz2röðuðum síðan mozzarellasneiðum ofaná. Bakað í ofni við 180 gráður þangað til að osturinn er bráðinn og brauðin farin að taka á sig brúnan lit.

Við vorum með ljómandi góð vín með matnum. Svo var það skemmtileg tilviljun að ég hafði tekið tappann úr Coto de Imaz Rioja frá því 2004 og Jónas og Hrund komu með sama vín. Þetta er Coto de Imaz Rioja Reserva frá Spáni frá 2004. Merkilega góð kaup finnst mér - kraftmikið Roija vín; þykkt í glasi. Ilmur af vanillu og eik. Vínið ku hafa fengið að liggja á eikartunnum um skeið. Bragðið er gott, þétt og í því mikill ávöxtur.

Ég vil í lokin nota tækifærið að þakka aftur öllum fyrir að kíkja við á blogginu mínu. Eins og ég nefndi hefur þessi heimasíða verið mér mikill gleðigjafi síðastliðin ár og ég vona að fólk nái að skynja það á skrifum mínum. Það er svo ári gott að drekka gott vín, elda góðan mat og svo borða!  Best er þó að gera allt þetta í góðra vina hópi. Takk fyrir mig.

Ps. Verið ófeimin við að koma með athugasemdir eða spurningar og ef ykkur líst vel á þá er lítill "like" hnappur hér að neðan.

Bon appetit!


15 comments:

  1. Hrafnhildur Mooney8 December 2011 at 19:48

    Til hamingju með afmælið og takk fyrir allar færslunar. Hef fylgst með þér frá upphafi og eldað margar uppskriftir eftir þér. Ein af uppáhaldsfærslunum er hamborgaraveislan sem þið félagarnir voru með um árið, brillíant hugmynd sem ég hef notað óspart síðan:)

    ReplyDelete
  2. Sæll Ragnar. Ég er áhugamaður um matargerð og hef lesið síðuna þína frá upphafi. Prófað margar uppskriftir, og líkað vel oftast nær. Bestu þakkir til þín, og til hamingju.

    ReplyDelete
  3. Guðrún Þuríður8 December 2011 at 22:57

    Sæll Ragnar,
    til hamingju með afmæli síðunnar. Hún hefur verið í Favorites hjá mér lengi og ég lít reglulega við. Lofa því að prófa þessa uppskrift. Hlakka til að lesa meira :)

    ReplyDelete
  4. Guðrún Þuríður8 December 2011 at 22:58

    Ps. Mikið er ég hrifin af eldhúsinu þínu, og þá sérstaklega pottaúrvalinu....

    ReplyDelete
  5. Eina bloggsíðan sem ég les-brilliant! Þetta verð ég að prófa.

    ReplyDelete
  6. Flott síðan. Lít oft við. Takk.
    Ég elda oft svipaðan rétt. Nota skanka og pínu beikon, sama grænmeti og þú. Stundum hendi ég smjörsteiktum sveppum út í, bara í blá lokin.

    ReplyDelete
  7. Frábær jákvæð síða sem skapar nýjar hugmyndir og framkallar vatn í munninn í hvert skipti sem maður kíkir hér .
    Hafðu þökk fyrir og vonandi heldur þú áfram þessu nauðsynlega kryddi í tilveruna sem bloggið þitt er
    Gleðilega hátíð

    ReplyDelete
  8. Til hamingju með afmælið og kærar þakkir fyrir margar skemmtilegar stundir við lestur með vatn í munni og eldamennsku í kjölfarið. Þú hefur glatt mig og mína oft og mikið í sál og maga :)
    Hafðu þökk og ég óska þér og þínum gleðilegrar hátíðar.

    ReplyDelete
  9. Ummm... hlakka til að elda þennan ljúffenga rétt, takk fyrir skemmtilega og fróðlega dægrastyttingu.

    ReplyDelete
  10. Kamilla Sigríður10 December 2011 at 01:55

    Til hamingju með afmælið, lífið í færslunum þínum fær mig alltaf til að gleðjast með þér - ég gef mér sjaldan tíma til að elda þessa dagana, en ég bíð eftir tækifæri til að prófa þessa uppskrift.
    Gleðileg jól

    ReplyDelete
  11. Til hamingju með afmælið og takk kærlega fyrir unaðslega lystaukandi blogg!

    Mjög fallegt eldhús sem þú hefur komið þér upp. Og þessir pottar...

    ReplyDelete
  12. Gratulera doktor. Uppskriftin biður nú bara um að vera elduð. Verður gert næst þegar stund gefst milli .... Og mikið gasalega er þetta girnilegt kjöt sem þú hefur nælt þér í:-)

    ReplyDelete
  13. Ég kíki reglulega á bloggið þitt og bíð spennt eftir nýjum uppskriftum, og þínum skemmtilegu skrifum um mat og vín. Til hamningju með afmælið og takk fyrir að deila áhugamálinu þínum með okkur :)

    ReplyDelete
  14. Katrin Pálsdóttir12 December 2011 at 20:46

    Sæll Ragnar og til hamingju með frábært og lifandi blogg.
    Síðan er í uppáhaldi hjá mér og minni fjölskyldu og þeir eru ófáir réttirnir sem við höfum prófað, takk fyrir að deila áhuga þínum með okkur hinum.

    ReplyDelete
  15. GGuðmundsdóttir30 December 2011 at 17:05

    Frábært að fylgjast með þér í eldhúsinu og ég er óhrædd við að prófa það sem þú setur fram hérna. Takk kærlega fyrir dásamlegt blogg. Endilega haltu áfram. Og gleðilega hátíð.

    ReplyDelete