Monday 19 April 2010

Einfaldasti forréttur allra tíma? Dísæt safarík hunangsmelóna vafinheimagerðri Prosciutto di Pukgränden

melonaconprosciutto

Hráefnalisti

Hungangsmelóna
Prosciutto skinka
Steinselja
Jómfrúarolía
Salt og pipar

Ég er búinn að vera á leiðinni að skella þessari færslu á netið í nokkrar vikur. Það er ekki svo langt síðan að ég bloggaði um heimagerðu loftþurrkuðu skinkuna mín sem ég og nágrannar mínir, Signý Vala og Jónas, erum búin að vera að dútla við síðan snemma í haust. Ég er búinn að nota hana á brauð, á samlokur; Pain Perdue, í omelettur, á flatbökur en þessi réttur sem ég er að greina frá núna er sennilega þar sem hún hefur best fengið að njóta sín.

Við hjónin vorum með góða gesti í mat þetta kvöld, tengdaforeldrar mínir voru í heimsókn og svo komu vinir okkar frá Danmörku að sækja dóttur sína sem hafði verið í heimsókn hjá okkur í nokkra daga. Hún og Valdís dóttir mín eru miklar vinkonur, og hafa verið það síðan þær hittust fyrst á leikskóla fjögurra ára gamlar. Algerar samlokur þegar þær hittast, hverfa einhvert í leik og dúkka upp í hádegis og kvöldmat. Frábærar alveg hreint!

Ég nefndi það í færslunni að skinkan er í saltaðri kantinum á saltrófinu, en ég er aðeins búinn að vera að smakka aðrar loftþurrkaðar skinkur og þær eru margar hverjar ansi saltar. Kannski er það þess vegna sem þessi samsetning af söltu og dásamlega sætu passar svona vel saman.

Það er varla hægt að tala um uppskrift að þessum forrétt. Kaupa góða hunangsmelónu eða jafnvel cantalope, þó mér finnst hunangsmelónan passa betur - þó ekki sé nema vegna litanna. Ef maður hefur ekki gert sína eigin loftþurrkuðu skinku - prociutto di Pukgränden, þá getur maður auðvitað keypt þunnt skorna parmaskinku eða serrano skinku og vafið utan um niðursneidda melónua. Lagt á disk, smá góð jómfrúarolía, salt og pipar og síðan skreytt með nokkrum steinseljulaufum.

Borið fram með köldu hvítvínstári, í þetta sinn vorum við reyndar með búkollu í ísskápnum, Drostdy Hof Chardonnay Voigner sem mér finnst persónulega vera prýðisgott vín á kassa. Það er ferskt, fremur þykkt á tungu með góðum ávaxtakeim. Ljómandi vín til að eiga á búkollu í ísskápnum. Hagkvæmt og gott!
naermynd

1 comment:

  1. mmmm Girnilegt! Fáum við svona þegar við komum næst í heimsókn? :-)

    ReplyDelete