Sunday 28 May 2017

Ljúffengt Spaghetti með tigrísrækjum, rauðum chili, hvítlauk og aspas


Við feðgar brugðum okkur til Svíþjóðar fyrir helgina. Tilgangur ferðarinnar var að funda með rannsóknarhandleiðurum mínum og reyna að mjaka doktorsverkefninu mínu eitthvað áleiðis. Það verður að viðurkennast að það hefur gengið hægt síðustu árin vegna anna, en kannski næ ég að glæða verkefnið nýju lífi, hver veit! Myndin hérna að ofan er tekin fyrir framan háskólabygginguna í Lundi. 

Vilhjálmur vildi auðvitað ólmur koma með og fá að hitta vini sína - hann hefur átt ljúfa daga hérna um helgina umlukinn gömlu vinum sínum í hverfinu sem hann ólst upp í. Það er alveg ljóst að hann saknar lífsins hérna í Svíþjóð. Þá hefur verið líka verið gaman að hitta gömlu félagana mína aftur. Jónas og Hrund skutu yfir okkur skjólhúsi og hafa dekrað við okkur feðgana í hvítvetna. Jón og Álfa buðu okkur í mat í gær og við skemmtum okkur vel frameftir kvöldi. 

Og veðrið hefur aldeilis leikið við okkur - glampandi sól og heiðskýrt undanfarna daga. Það er erfitt að sakna ekki Svíðþjóðar á dögum eins og þessum. Sem betur fer dró fyrir sólu seinni partinn í dag - þá er auðveldara að hlakka til heimferðar! 

En að matnum. Þennan rétt gerði ég einmitt kvöldið áður en við skelltum okkur hingað út. Ég sá þessar stærðarinnar tígrisrækjur í frystinum hjá vinum mínum í Fiskbúðinni við Sundlaugaveginn. Svo greip ég aspas með mér - vorin eru tími fyrir aspas. 

Ljúffengt spaghetti með tigrísrækjum, rauðum chili, hvítlauk og nýjum aspas

Og fljótlegri verður matargerðin ekki. 

Fyrir fjóra til sex

500 gr tígrisrækjur
1/2 rauður chili
4 hvítlauksrif
handfylli fersk steinselja
Smáræði af basil 
75 ml af hvítvíni
100 ml af rjóma
500 g spaghetti
75 g parmaostur
5-6 aspasspjót
50 g smjör
salt og pipar


Það tók eiginlega lengstan tíma að láta rækjurnar þiðna!


Sjóðið pasta í nóg af vatni. Stundum er talað um 1 L fyrir hver 100 g af pasta - en það er líklega heldur yfirdrifið, en allavega - nóg af vatni. Saltið vatnið og sjóðið pastað í kraumandi vatni - lokið á ekki að vera á pottinum. 

Sjóðið pastað þangað til að það er al dente - eða aðeins undir tönn þegar bitið er í það það. 


Á meðan pastað er að sjóða, bræðið smjörið á stórri pönnu og steikið chili, hvítlauk og smávegis af steinseljunni með. 


Skellið svo rækjunum á pönnuna, saltið og piprið. Steikið í smástund.


Hellið víninu á pönnuna og sjóðið upp áfengið. 


Og svo rjómi. Ekki matreiðslurjómi - alvöru rjómi!


Næst nokkur lauf af basil.


Skellið pastanu út á pönnuna.


Veltið pastanu vel í sósunni þannig að það verði vel hjúpað.


Stráið nóg af parmaosti yfir pönnuna. Sumir segja að parmaostur og fiskmeti passi ekki saman - pecorino-osturinn sé betri þar sem hann er aðeins saltari. Ég átti þennan dásamlega parmaost sem ég keypti á Ítalíu núna í byrjun maí og notaði hann auðvitað.


Pastað þarf bara nokkrar mínútur á pönnunni og þá er það tilbúið. 


Ég skar aspasinn í þunnar sneiðar og steikti þær upp úr smjöri í nokkrar mínútur - til að nota eins og skraut á pastað. 


Svo er bara að velja eitthvað ljúffengt vín til að hafa með þessum herlegheitum. Ég átti þessa til í kælinum - Marques Casa Concha Chardonnay frá 2014. Vínið er fallega strágult í glasi og það er kröftugur og nærri því sultaður ávöxtur á nefinu. Á bragðið - mikil ávöxtur, þurrt og þykkt á tungu. Fyrirtaks hvítvín með þessum rétti! 


Svo er ekkert nema að taka fram gaffla og skeiðar og njóta. 


Bon appetit! 

Endilega deilið með vinum og vandamönnum. 


No comments:

Post a Comment