Sunday 21 May 2017

Geggjuð beikonbaka - fyllt með kartöflum, lauk, timian og cheddarosti



Það er komið sumar! Tuttugu stiga hiti og glampandi sól! 

Dagar eins og þessir öskra á maður hreinsi grillið og kveiki upp. Svona dagar kalla líka á að maður kíki yfir garðinn sinn og fari að hugsa sinn gang. Þegar við fluttum inn í húsið síðastliðið haust var eiginlega orðið of seint að huga að einhverjum framkvæmdum. En núna er kominn tími til að bretta upp ermarnar. 

Ég var að klippa runnana í morgun þegar nágrannar mínir litu við og gáfu góð ráð. Það er alveg ljóst að við fluttum inn í gott hverfi - það vantaði ekkert upp á heilræðin og hjálpsemina frá fólkinu sem býr í Urriðakvíslinni. Og verkefnin hlóðust upp; skipta um pall, athuga með grindverk, skipta um hekk, kaupa blóm, planta kartöflum - það er alltént ljóst að það verður lengi hægt að skemmta sér í garðinum. 



Þessi uppskrift er úr bókinni minni, Grillveislan, sem kom út síðastliðið sumar. Þar geta grillarar fundið eitthvað við sitt hæfi.

Geggjuð beikonbaka - fyllt með kartöflum, lauk, timian og cheddarosti
Innblásturinn að þessari uppskrift er sóttur í mynd sem gekk á netinu fyrir einu eða tveimur árum. Maður þarf ekki að sjá þetta hnossgæti nema einu sinni til að verða hugfanginn. Beikon – er eitthvað sem það getur ekki gert í matargerð? Ég bætti aðeins við uppskriftina svona til að geta bísað henni með góðri samvisku.

Þetta er auðvitað uppskrift sem einnig má elda í ofni, en það er svo ljúffengt að setja hana á grillið – og leggja við reykinn. Það bætir einhverju við sem ekki er hægt að ná fram þegar maður eldar í ofninum. 

Fyrir sex til átta

Hráefnalisti

800 g nýjar kartöflur
500 g beikon
1 gulur laukur
2 msk ferskt timían
2 msk jómfrúarolía
150 g cheddarostur
salt og pipar

Smyrjið eldfast hringlaga mót með jómfrúarolíu og raðið beikoninu þannig að rúmur helmingur af hverri sneið hangi upp úr mótinu. Raðið beikoninu þétt þannig að engar glufur verði í botninum.


Flysjið og sneiðið kartöflurnar, t.d. í mandólíni, og raðið hluta þeirra ofan á beikonið. 



Sneiðið laukinn og raðið kartöflum og lauk á víxl. 


Gætið þess að dreifa einnig timíani á milli laga auk þess að salta og pipra reglulega. 


Raðið innihaldi bökunnar í strýtu sem nær talsvert upp úr mótinu (kartöflurnar eiga eftir að skreppa saman við eldun). Tyllið svo ríkulega af rifnum cheddarosti ofan á. 


Lokið bökunni með því að leggja laushangandi beikonið yfir. Passið að bakan lokist alveg. 



Penslið yfirborðið með jómfrúarolíu og grillið svo við óbeinan hita í einn og hálfan tíma. Snúið bökunni nokkrum sinnum meðan á eldun stendur svo hún grillist jafnt og fái fallegan lit.


Njótið með einföldu salati og hvítlauksbrauði.



Með svona veislumat væri kjörið að gæða sér á þessu rauðvíni, Mamma Piccini Rosso di Toscana, sem ég á inní skáp. Við vorum þeirrar gæfu aðnjótandi að borða kvöldverð með þessari konu, Mamma Piccini, fyrir tveimur vikum síðan þegar við vorum á ferðalagi um Toskana í upphafi mánaðarins. Þetta ljómandi létt og frískandi rauðvín sem sómir sér vel á sólardegi sem þessum. 


Bon appetito!


No comments:

Post a Comment